Sunday, December 27, 2009

Jóladagur

Kalkúnninn var orðinn dálítið þreyttur á því að dvelja aðeins of lengi í ofninum en annars var þetta ágætt.
Við spiluðum Alias, tímavörðurinn var orðinn dálítið þreyttur að fylgjast með stundaglasinu.

Jói og Jökull tóku létt dansspor.
Á jóladag komu Jói, Guðrún, Daníella, Jökull og Nonni í mat. Jói þurfti fyrst að keyra Viktoríu á Stokkseyri svo honum seinkaði aðeins. Kalkúnninn sem fór inn í ofn um tíuleytið var því orðinn heldur þurr á manninn að bíða eftir gestunum. Eftir matinn spiluðum við Alias sem reyndi töluvert á heilann hjá okkur þessum gömlu. Bráðskemmtilegt samt þrátt fyrir tap.
Annar í jólum var slökunardagur eftir veisluhöld síðustu þriggja daga. Við Brandur fórum í göngutúr um Elliðaárdalinn og enduðum í kaffi og smákökum í Byggðarenda hjá Önnu og Þórarni. Gengum síðan heim aftur í rökkrinu og ég brunaði upp brekkuna án þess að stoppa og kom sjálfri mér og Brandi virkilega á óvart. Kannski er ég orðin svona orkumikil eftir allt átið síðustu daga, nóg til að brenna.
Við elduðum síðan jólasviðin hans Brands og la´gum svo á meltunni það sem eftir lifði kvölds.

Saturday, December 26, 2009

100 ára afmæli pabba á jóladag


Jóladagur 25. desember 2009
Í dag eru 100 ár síðan pabbi minn, Karl Magnússon, fæddist í Fossárdal í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Afi minn og amma, þau Magnús Árnason og Ingveldur Lárusdóttir, fluttu síðan að Knerri í Breiðuvík og þar bjuggu þau til dauðadags og einnig pabbi og mamma en þau tóku við búinu þegar afi var orðinn það veikur að hann gat ekki lengur séð um það. Þá voru mamma og pabbi búsett í Reykjavík en þar fæddist Stella en hún var sú eina af okkur systkinum sem fæddist á sjúkrahúsi. Um sumarið fluttu þau að Knerri og þá var ráðist í að byggja steinhús og þar sem þurfti að nýta allt sem hægt var úr gamla torfbænum bjuggu þau í fjárhúsinu á meðan húsið var að komast upp. Stella segist því eiga það sammerkt með Jesúbarninu að hafa verið lögð í jötu.
Mamma, Halldóra Guðrún Jónsdóttir, var í vist á Akureyri hjá Jónatani Marteini skósmið og konu hans Guðnýju og passaði meðal annars þeirra einu dóttur Huldu sem síðar stofnaði JMJ með sínum manni en tengdasonur hennar og dóttir reka þá búð í dag.
Systir mömmu, Eiríka, bjó þá á Búðum og ákvað mamma að fara að heimsækja hana í tvær vikur og fór með skipi suður og var sett í land á Arnarstapa. Þar fékk hún hest og fylgdarmann að Búðum. Á leiðinni fóru þau fram hjá flokki manna sem var við vegagerð. Þar var Karl faðir minn að verki og leist vel á þessa ungu aðkomukomu og ákvað að láta hana ekki sleppa í burtu aftur. Það fór því þannig að tveggja vikna dvölin varð að eilífðarbúsetu í Breiðuvíkinni og hún fór aldrei aftur norður til Akureyrar.
Þau byrjuðu samt búskap í Reykjavík á Öldugötunni en pabbi vann hjá Kveldúlfi og ætlaði sér aldrei að verða bóndi í sveit. Það fór þó þannig að þegar afi var orðinn veikur og pabbi eina barnið, að hann fékk mömmu í lið með sér að fá hann til að taka við búinu og þau fluttu vestur.
Pabbi var oddviti sveitarinnar í fjölda ára og það var víst honum meira hugðarefni en búskapurinn að vasast í þeim málum. Mamma var búhneigðari og vissi ekkert skemmtilegra en að fá að vinna úti við búverkin. Hennar hlutskipti var þó að standa yfir pottum og pönnum meiri hluta dagsins, fara fyrst á fætur á morgnana og hita upp í kolavélinni svo það væri farið að hlýna þegar hinir skriðu framúr. Hún fór líka síðust í rúmið og hélt því til dauðadags að geta aldrei farið að sofa meðan einhverjir voru á fótum. Meðan börnin voru lítil, en við vorum fimm systkinin, saumaði hún á okkur fötin á nóttunni því þá var friður og öll fallegu fötin sem hún átti þegar hún kom í sveitina urðu að sparifötum á okkur systkinin. Síðustu kjólana hennar notaði ég til að sauma upp úr á mig árshátíðarkjóla í Kennó.
Amma og afi bjuggu á loftinu en afi dó þegar ég var fjögurra ára og amma þegar ég var þrettán ára. Ég man lítið eftir afa en man þó að hann smíðaði handa mér litla hrífu svo ég gæti rifjað með honum flekkina. Ein minningin er að hann hafi gefið mér rauð stígvél en mamma sagði að það hefði mig sennilega dreymt eins og margt annað sem ég þóttist muna frá þessum tíma.
Amma var mér ekki sú amma sem ég þráði að eiga en ég færði henni matinn og skúraði fyrir hana en þær minningar sem ég á um hana eru ekki til skráningar.
Pabbi dó í júlí 1996 86 ára gamall en síðustu þrjú árin dvaldi hann á St Fransiscus spítalanum í Stykkishólmi en eftir að hafa fengið tvisvar heilablóðfall komst hann ekki á fætur aftur. Þetta voru honum erfið ár þótt vel væri um hann hugsað, hann gat ekki lesið eftir heilablæðingarnar en það var hans helsta dægrastytting áður og það eina sem gladdi hann var ef einhver gaf sér tíma til að fara með hann í reykherbergið svo hann gæti reykt eina sígarettu. Pípuna réði hann ekki lengur við en hún hafði verið honum staðfastur fylginautur frá unga aldri.
Mamma dó svo á þessum sama spítala árið 1999, 89 ára gömul og þrotin að kröftum en andlegri heilsu héldu þau bæði til dauðadags þótt líkaminn væri orðinn illa farinn af striti og streði lífsins.
Hún hefði orðið 100 ára 12. júní á næsta ári.
Blessuð sé minning þeirra beggja.

Thursday, December 24, 2009

Aðfangadagskvöld

Jólatréð okkar með öllum pökkunum okkar.

Brandur var svo glaður að fá loksins hring á litla puttann.

Og ég fékk Bláliljuna þótt ég væri búin að fá hrærivél og líka þrjár bækur frá bóndanum.

Snædís skreytti jólastréð seint á Þorláksmessu eftir að hafa staðið vaktina allan daginn yfir skötunni á Laugaási með bróður sínum.

Ánægð hjónakorn eftir að hafa tekið upp allar gjafirnar.
Þetta var rólegt aðfangadagskvöld. Við vorum bara tvö að þessu sinni og borðuðum hamborgara-hrygg og heimalagaðan ís í eftirrétt. Brandur fékk möndluna og fékk í möndlugjöf að fá að opna fyrsta pakkann. Við fengum fullt af fallegum gjöfum frá börnunum okkar og nánustu vinum og ættingjum. Það er yndislegt að vera til og vita að öllum líður vel í kringum okkur þótt við vildum helst hafa alla nær okkur en það er víst ekki hægt að fara fram á meira en að allir hafi það gott hver á sínum stað.





Jólakveðjur

Maggý, Brandur, Sigga, Ninna, Grímur, Maggi, Guðni, Anna Margrét, Anna Eym og Þórarinn.

Nú eru jólin að ganga í garð, aðfangadagur og allt í friði og ró. Enginn jólasnjór hér sunnanlands en í gær kom smáfjúk og það hvítnaði aðeins og birti yfir. Þetta er alveg nóg fyrir mig, ég vil frekar að allir komist klakklaust leiðar sinnar.
Í gær á Þorláksmessu var hér hin árlega skötuveisla fyrir spilaklúbbinn. Að þessu sinni voru forréttir í boði Hafró, Bramafiskur, makríll, loðna, reykt hrefna, söl og fleira en þetta var jólagjöf bátsmannsins þetta árið. Þessu voru gerð góð skil og ekki var skatan og saltfiskurinn síðri en Brandur er orðinn snillingur í að verka skötu.
Að loknu uppvaski fórum við til Fjólu, fyrrverandi tengdamóður minnar, og hún fór svo með mér að heimsækja Rúnu á Grund. Hún var mjög glöð að sjá okkur þrátt fyrir að vera kannski viss á hverjar við vorum. Hún er svo sæt og fín og lítur svo vel út en það sagði hún að væri því að þakka að það væru allir svo góðir við sig. Hún á líka ekki skilið annað því það gætu margir lært af henni hvernig á að koma fram við náungann. Alltaf glöð og kát og þakklát fyrir allt þótt lífið hafi kannski ekki alltaf farið um hana mjúkum höndum.
Í kvöld fer Snædís til Jóa og Guðrúnar og borðar með þeim og pabba sínum en við hjónakornin verðum hér tvö ein í friði og ró og ætlum svo að hlusta á Pál Óskar og Móniku í Fríkirkjunni kl hálftólf. Á morgun fáum við svo njóta samvista við börn og barnabörn sem eru hér í kringum okkur en önnur verða að vera með okkur í anda.

Saturday, October 10, 2009

Þessi litli nýfæddi drengur á myndinni heitir Jökull Máni og er 5 ára í dag.
Ég var svo stolt yfir að fá að vera viðstödd fæðingu hans og aðstoða við að koma honum í heiminn. Það er ótrúlega mögnuð tilfinning að sjá þessi litlu kríli skríða út í heiminn.

Tuesday, September 22, 2009

Haustdagar

Viktoría Rós, Daníella Líf, Kara Björk
Rúna Annell, Jökull Máni og Roman Anton.

Spilaklúbbsferðin byrjaði í brunch í Skógarbæ.

Við kíktum í Pakkhúsið í Ólafsvík og keyptum handverk.


Borðuðum í Fjöruhúsinu á Hellnum.



Og Þórarinn gaf okkur auðvitað nóg að borða í Hruna.

Stella, Marteinn og ég í Búðakirkjugarði.

Magnús, Unnur, Sólrún og Birna Guðbjartsbörn og Gógó.


Ingi Björn, Sillufjölskyldan og Brandur.


Guðrún, Jói, Dóra, mamma gamla, Fannar og Snædís á Svignaskarði.
Dóra 36 ára

Amma Fjóla kom í heimsókn

Brandur fékk loksins að kaupa sér bát en segir fátt af veiði.
Brúðhjónin Bergur og Álfheiður

Systkinabörnin í Brandsfjölskyldu.

Þá er komið haust á ný með sínum fallegu litum. Hver árstíð hefur sinn sjarma og þótt það sé alltaf smákvíði sem fylgir því að sumarið sé á enda runnið og vetur í nánd þá verður að líta á björtu hliðarnar, kertaljósin og rólegheit undir hlýju teppi.
Ég er í sjúkraleyfi þessa dagana, lét kíkja á öxlina sem hefur verið mér erfið allt frá tíu ára aldri en þá lenti ég undir þungri járnkerru sem var full af naglaspýtum sem blessaðir rafveitukallarnir skildu eftir sig, en þá var verið að leggja fyrst rafmagn í sveitina mína. Það sumar fór í sjúkrahússdvöl bæði í Stykkishólmi og Reykjavík en þangað hafði ég aldrei stigið fæti áður og fannst það því mikil heppni í óheppninni að fá að heimsækja þessa blessuðu borg sem ég bý í núna.
Eftir öll þessi ár var kominn tími til að krukka aðeins í afleiðingar brotsins og það þýðir að ég verð að hanga heima næstu tíu dagana meðan öxlin er að jafna sig eftir meðferðina. Sem betur fer vinn ég með munninum eins og læknirinn orðaði það og þarf því ekki að vera eins lengi heima og Brandur sem er búinn að vera í fimm vikna sjúkraleyfi vegna svipaðrar aðgerðar.
Sumarið var fljótt að líða. Brandur komst í sumarfrí í lok júlí og um sama leyti kom Dóra heim með börnin og dvaldi hjá okkur fram til 23. ágúst. Við vorum mest í Skorradalnum en fórum eina helgi til Dalvíkur í brúðkaup hjá frænku hans Brands, henni Álfheiði sem var að giftast honum Bergi sínum. Við eyddum svo helginni á Siglufirði hjá stjúpdætrunum í fínu veðri eins og alltaf er þarna þegar við dveljum þar.
Við Jói fórum eina dagsferð til Ólafsvíkur en Haddi og Hermann voru að hjálpa honum við að gera við jeppann. Við Brandur fórum svo í afmælisfagnað sem börnin hans Guðbjarts héldu þann 31. júlí en þá hefði Guðbjartur orðið sjötugur ef hann hefði lifað. Við fórum fyrst í kirkjugarðinn á Búðum og dvöldum þar um stund, settum blóm á leiðin og kveiktum á kertum og nutum þess að minnast þessa kæra ástvinar. Síðan var farið út á Stapa en þar hafði Gógó tekið Eyrina á leigu sem rúmaði vel allan skarann. Við fengum þessa indælu súpu og parta og rjómatertu og pönnukökur í eftirrétt. Kristín Lilja Sólrúnar- og Friðriksdóttir sýndi okkur minningarmyndband sem hún hafði búið til um afa sinn og það sáust víða tár á hvarmi þegar því var lokið. Þær haldast oft í hendur þær systur, gleðin og sorgin.
Við Brandur dvöldum svo í dalnum okkar um verslunarmannahelgina, fengum eina heimsókn þegar Anna Margrét birtist og endurguldum svo heimsóknina hjá henni á sunnudeginum.
Ég leiddi svo spilaklúbbinn vestur til Ólafsvíkur þann 29. ágúst. Þar var spilað út í eitt og rétt gafst tími til að borða hinn gómsæta mat sem Þórarinn reiddi á borð fyrir okkur bæði seint og snemma. Á sunnudeginum fórum við svo í Breiðuvíkina, gengum upp í Rauðfeldargjá, skoðuðum Arnarstapa og fengum okkur að borða í Fjöruhúsinu á Hellnum sem Hilmar Oddsson er búinn að gera ódauðlegt með mjög fallegum söng. Helgin sem byrjaði með hávaðaroki endaði í góðviðri sunnan fjalls.
Síðan hefur það bara verið vinnan, alltaf nóg að gera við að koma skólanum í gang og ekki minnka verkefnin þótt fólkinu sé fækkað.
Síðustu daga hefur verið mikið talað um að það þurfi að stækka fangelsin til að koma öllum glæpamönnunum okkar fyrir. Hvernig væri að eyða meiri peningum í að koma í veg fyrir að þetta blessaða fólk verði að glæpamönnum? Við horfum á blessuð börnin sem búa við misjafnt atlæti og aðbúnað og stritum við að beina þeim á rétta braut en það eina sem við fáum er síminnkandi fjármagn og minni mannauður til að hlúa að þeim.
Það er grátlegt að horfa upp á það að þeir sem stýra fjárstreyminu byrja alltaf á lítilmagnanum, þessir stóru þurfa alltaf fyrst að fá sitt til að eiga nú fyrir dýru húsunum sínum og flottu jeppunum. En ég breyti því víst ekki með því að röfla um það hér.

Wednesday, July 15, 2009

Sólríkur júlímánuður

Við frænkur fórum til Þingeyrar á Dýrafjarðardaga.
Við fengum okkur belgískar vöfflur í Simbahöll á Þingeyri.

Hemmi frændi leyfði gömlu að koma með.

Sætar tengdamæðgur að bíða eftir pizzu.

Um borð í Baldri. Fer sólin í augun á þér Hemmi minn?

Í minningareitnum á Súðavík.

Í Arnardal við Ísafjarðardjúp.

Hermann dró mömmu gömlu á trampólínið.

Hermann og Biggi að grilla.

Sjáið þið, ég þorði út á brún. Þorði líka að sitja brúnmegin í bílnum á Svalvogsveginum hans Elíasar Kjarans. Kannski fer ég næst í fallhlífarstökk og riverrafting.

FFlott skilti. Vegurinn var ekki eins illfær og ég hélt að hann væri.

Falleg vík við mynni Arnarfjarðar.

Mummi skemmti sér vel í ferðinni sérstaklega þegar hann var eltur af litlum sætum stelpum.

Við Maggý í Arnarfirði.

Hermann og Regína að panta pizzu á Bíldudal.

Við Flókalund.

Í staðinn fyrir að tjalda gistum við hjá Magna og Maju í Hólminum eftir 9 klst keyrslu.
Veðrið hefur leikið við okkur hér á landi mest allan júlí. Ég fór á Vestfirði með Maggý, Hermanni og Regínu. Við dvöldum í góðu yfirlæti á Þingeyri hjá fjölskyldunni hans Hermanns. Þau fengu lánað fyrir okkur raðhús svo við þurftum ekki að nota tjöldin sem áttu að hýsa okkur. Veðrið var stórkostlegt og reglulega gaman að kynnast lífinu í þessu fallega þorpi og láta streituna eftir veturinn líða úr sér. Þessa helgi voru Dýrafjarðardagar og við fórum á hörputónleika í kirkjunni þar sem Elísabet Waage seiddi okkur næstum því inn í draumalandið, horfðum á vöðvatröll keppa í Vestfjarðavíkingnum, og upplifðum víkingastemmingu á nýja víkingasvæðinu sem er mjög skemmtilega uppbyggt. Við Maggý keyptum listmuni af hnni Vögnu sem er ótrúleg listakona og litríkur karakter. Hún spáði líka fyrir okkur í bolla og var auðséð að hún var eittthvað göldrótt á því sviði. Það er svo gaman að hitta svona eftirminnilegar manneskjur sem leyfa sér að vera öðruvísi og hefur sterkar skoðanir á lífinu. Vonandi drepum við ekki niður svona karaktera með öllum okkar greiningum og tilraunum til að steypa alla í sama mót.
Eftir dýrðardaga á Þingeyri héldum við aftur suður, fórum Svalvogsveginn hans Elíasar Kjarans, sem hann gerði fyrir margt löngu með litlu ýtunni sinni til að koma einbúunum á Lokinhömrum og Hnitbjörgum í Arnarfirði í vegasamband. Ég var nú frekar smeyk að fara þessa leið og var að hugsa um að biðja Bigga að keyra mig yfir heiðina og bíða eftir þeim þar en lét mig hafa það, sem betur fer. Þetta var ekki eins hrikalegt og ég hafði ímyndað mér og eftir allt saman varð þetta toppurinn á ferðinni að hafa farið þessa leið í eins fallegu veðri og hægt er hugsa sér. Við ætluðum að tjalda á leiðinni en eftir að hafa borðað í sólstrandaveðri á Bíldudal komum við í þoku á Tálknafirði og Patreksfirði og ákváðum að keyra bara alla leið í Stykkishólm og gista hjá Magna. Þokan einskorðaðist samt bara við þessa tvo firði því þegar við komum suður fyrir heiði þá komum við aftur í sömu blíðuna á Barðaströndinni og alla leið í Hólminn. Hermann keyrði því í 9 tíma en kvartaði ekki og vildi engin ökumannaskipti, hefur sennilega ekki treyst okkur fyrir tækinu.
Við gistum svo eina nótt hjá Magna og Maju í Hólminum og fórum síðan til Ólafsvíkur og sváfum eina nótt í Lindarholtinu og héldum svo heim og tókum Hadda og Stellu með okkur.
Við Maggý fórum í Pakkhúsið og þar hitti ég kennarahjónin Maríu og Sveinbjörn sem kenndu hjá mér á Hólmavík forðum daga og stóðst ekki mátið að kaupa af henni eina mynd svo ég kom heim hlaðin minjagripum úr ferðinni.
Ég fann svo hvernig stressið læddist að mér við heimkomuna í borgina og flýddi mér daginn eftir upp í Skorradal og eyddi helginni þar með sjálfri mér í 20 stiga hita og yndislegri náttúru og naut þess í botn. Vökvaði og vökvaði vatnsþyrstan gróður og hef sennilega gert aðeins of mikið af því því allt vatn var búið á sunnudagsmorguninn og þá fór ég heim. Ég var líka ótrúlega dugleg, tók rababarann og skar hann niður, bjó til sultu og föndraði ýmislegt. Það er líklega hollt fyrir sálina að vera stundum einn með sjálfum sér til að sjá hvort sá félagsskapur er ekki bara í lagi stundum þótt alltaf sé gott að hafa fólk í kringum sig sem manni þykir vænt um.
Ég brunaði svo í Keflavík á sunnudeginum og náði í Jökul Mána, mútaði honum með ís til að koma með mér til Grindavíkur til að heimsækja Maggý og hundana. Þar fórum við í gönguferð og hann hafði mjög gaman af því vera með Kandís en Þarfur var ekki hrifinn af honum svo hann lét hann vera.
Á mánudaginn komu svo Haddi og Stella og gistu hjá mér og það var virkilega gaman að fá þau, nú fæ ég þau kannski oftar í heimsókn þar sem Maggý er flutt til Grindavíkur.






































Monday, June 29, 2009

Skemmtilegur sunnudagur

Ömmustrákurinn Jökull Máni ansi þreyttur eftir að hafa hoppað og skoppað allan daginn í Húsdýra- og fjölskyldugarðinum og í garðinum í Grýtó.
Ég gleymdi því miður að taka með mér myndavélina í Húsdýragarðinn en náði að mynda pjakkinn með sápukúlurnar í garðinum hér heima.

Ég fékk að hafa Jökul Mána hjá mér í dag meðan foreldrarnir voru að vinna. Það var orðið ansi langt síðan hann hafði verið hjá mér og amma ekkert efst á óskalistanum. Ég reyndi því allt sem ég gat ti lað vera skemmtileg, fórum í Húsdýra- og fjölskyldugarðinn og þar hljóp hann og hoppaði í tvo tíma og var alveg alsæll og ég líka. Svo fórum við í heimsókn til pabba hans á Laugaás og fengum pönnukökur með rjóma. Því næst fórum við heim og hann dansaði í garðinum til klukkan 9 og þá fékk ég hann loksins inn og hélt að hann myndi sofna undir eins yfir Dýrunum í Hálsaskógi en það var svo spennandi að hann lognaðist ekki út af og að lokum bjuggum við til gítar og hljóðnema úr pappa svo hann gæti spilað og sungið með. Skemmtilegur sunnudagur með skemmtilegum dreng.


Friday, June 26, 2009

Sumarfrí í Skorradal

Brandur er búinn að kaupa sér bát og hann hafði það af að koma mér um borð og út á vatn. Skógarbær frá nýju sjónarhorni, rétt sést í þakið upp úr öllum trjánum sem eru í örum vexti.
Útsýnið yfir vatnið.

Gungan varð að vera í björgunarvesti þótt aðeins væri hálfur metri til botns.

Brandur dýfði öngli í vatnið en ef einhverjir fiskar hafa verið þarna voru þeir allir flúnir.

Við erum búin að búa til litla grasflöt svo nú er hægt að tjalda litlu kúlutjaldi.
Ég byrjaði í sumarfríi föstudaginn 19. júní og við náðum því einni viku saman í fríi en nú er Brandur á leiðinni út á Reykjaneshrygg í glampandi sólskini og hita. Sumarið loksins komið, sólskin og a.m.k. 17 stiga hiti og þá þurfti hann að fara út á sjó og kemur ekki aftur fyrr en í lok júlí. Ég verð því að finna mér eitthvað að gera á meðan. Hann lagði til að ég yrði dugleg að hjóla og fara í sund á meðan til að ná upp þreki sem er orðið frekar lítið af og vonandi tekst mér að koma mér af stað, ekki veitir mér af.





Wednesday, June 10, 2009

Skorradalur um hvítasunnu.

Um hvítasunnuna fórum við í Skorradalinn, fyrsta helgin á þessu sumri í kotinu.
Veðrið var ágætt, blanda af sólskini og síðdegisskúrum og 10-12 stiga hiti. Ég afrekaði það að setja niður nokkur sumarblóm, lesa eina bók og horfa á Brand brasa bæði úti og inni. Hann tekur sig svo ljómandi vel út við eldavélina, miklu betur en ég, svo ég læt hann bara um þetta. Hann er líka í sumarfríi en ég enn í bullandi vinnu svo þetta hlýtur að vera jöfn verkaskipting.
Ég verð svo að sjá um mig sjálf allan júlí svo það er um að gera að njóta þess að láta snúast í kringum mig þangað til. Ég er sem sagt að breytast í algjöra kvenkarlrembu sem situr og les blöðin meðan hann snýst í eldhúsinu.
Veit ekki hvað við gerum um næstu helgi en býst við að það verði Skorradalurinn og vonandi eiga einhverjir leið um og kíkja í kaffi.

Sumarið er komið

Loksins erum við búin að hleypa börnunum út í sumarið og sýndist mér í morgun að þeim þætti það ekki leiðinlegt. Á mánudaginn fór ég með 3. bekk í bæinn með strætó. Veðrið var mjög gott og börnunum fannst mjög gaman að ganga um Hljómskálagarðinn og kringum Tjörnina, leika sér á Austurvelli og spjalla við litríka karaktera eins og Vilborgu Dagbjartsdóttur og aðra miður þekkta sem halda til þarna við styttuna af Jóni forseta. Að lokum fengu allir ís og það voru glöð börn sem var troðið inn í strætisvagn ásamt rúmlega hundrað öðrum reykvískum skólabörnum sem á krepputímum fá náðarsamlegast strætómiða til að skoða umhverfið. Reyndar held ég að nokkur börn í hópnum hafi aldrei gengið í gegnum Hljómskálagarðinn né í kringum Tjörnina og reyndar langt síðan að ég sjálf hef gengið þessa leið. Maður leitar oft langt yfir skammt. Seinni hluta dagsins var ekki alveg eins rólegt á Austurvelli en þá lét Búsáhaldabyltingin aftur á sér kræla til að mótmæla nauðungarsamningum um Ices(l)ave.
Á þriðjudaginn fórum við með alla nemendur skólans, nema 10. bekk í Gufunes. Aftur vorum við heppin með veður og þarna er frábær aðstaða fyrir alls konar leiki og það var gaman að enda erfiðan vetur á því að sjá alla glaða og káta í leik og þótt harkan í fótboltanum yrði stundum aðeins of mikil eins og gengur þá gekk þetta allt mjög vel og allir fóru glaðir heim, ýmist hjólandi eða gangandi. Í morgun voru skólaslit og börnin frelsinu fegin en við eigum enn nokkra daga eftir enn þar til við göngum frjáls út í sumarið en það kemur að því.
Silla, Atli, Ester, Bjarki, Ástrós og Hera voru hér um helgina og héldu upp á sjómannadaginn með okkur. Við fullorðna fólkið fórum á sjómannaball á Hótel Nordica en Ástrós passaði þau litlu og fórst það vel úr hendi. Ballið var fínt, góður matur og Gísli Einarsson var veislustjóri og fór út og suður með sinn borgfirska húmor. Kallinn er bráðskemmtilegur og kann að gera grín að sjálfum sér og öðrum. Hljómsveitin Óðsmannsæði spilaði fyrir dansi og við tókum eina syrpu og forðuðum okkur svo heim áður en æði færi að renna á sjóarana sem sumir voru orðnir dálítið valtir á fótunum. Fer ekki sögum af því hvernig veislan endaði en vonandi endaði hún vel fyrir alla.

Sunday, May 24, 2009

Útskriftarveisla Inga Björns

Afinn stoltur með afastrákana sína tvo sem eru aldursforsetar í barnabarnahópnum.
Eingi Björn, Ellen og Úlfar bjóða gesti velkomna.

Snædís og Ólöf tóku sig vel út í veislunni.
Örvar kominn í tölvuna og Ólöf í símann.
Ingi Björn afastrákurinn hans Brands útskrifaðist laugardaginn 23. maí sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands. Honum gekk mjög vel og við erum stolt af stráknum eins og reyndar öllum barnabarnahópnum okkar. Börnin og barnabörnin eru okkar ríkidæmi og við getum ekki annað en verið glöð yfir að eiga svona flottan hóp sem gengur vel í lífinu. Megi gæfa og gjörvileiki fylgja þeim öllum í framtíðinni.