
Jóladagur 25. desember 2009
Í dag eru 100 ár síðan pabbi minn, Karl Magnússon, fæddist í Fossárdal í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Afi minn og amma, þau Magnús Árnason og Ingveldur Lárusdóttir, fluttu síðan að Knerri í Breiðuvík og þar bjuggu þau til dauðadags og einnig pabbi og mamma en þau tóku við búinu þegar afi var orðinn það veikur að hann gat ekki lengur séð um það. Þá voru mamma og pabbi búsett í Reykjavík en þar fæddist Stella en hún var sú eina af okkur systkinum sem fæddist á sjúkrahúsi. Um sumarið fluttu þau að Knerri og þá var ráðist í að byggja steinhús og þar sem þurfti að nýta allt sem hægt var úr gamla torfbænum bjuggu þau í fjárhúsinu á meðan húsið var að komast upp. Stella segist því eiga það sammerkt með Jesúbarninu að hafa verið lögð í jötu.
Mamma, Halldóra Guðrún Jónsdóttir, var í vist á Akureyri hjá Jónatani Marteini skósmið og konu hans Guðnýju og passaði meðal annars þeirra einu dóttur Huldu sem síðar stofnaði JMJ með sínum manni en tengdasonur hennar og dóttir reka þá búð í dag.
Systir mömmu, Eiríka, bjó þá á Búðum og ákvað mamma að fara að heimsækja hana í tvær vikur og fór með skipi suður og var sett í land á Arnarstapa. Þar fékk hún hest og fylgdarmann að Búðum. Á leiðinni fóru þau fram hjá flokki manna sem var við vegagerð. Þar var Karl faðir minn að verki og leist vel á þessa ungu aðkomukomu og ákvað að láta hana ekki sleppa í burtu aftur. Það fór því þannig að tveggja vikna dvölin varð að eilífðarbúsetu í Breiðuvíkinni og hún fór aldrei aftur norður til Akureyrar.
Þau byrjuðu samt búskap í Reykjavík á Öldugötunni en pabbi vann hjá Kveldúlfi og ætlaði sér aldrei að verða bóndi í sveit. Það fór þó þannig að þegar afi var orðinn veikur og pabbi eina barnið, að hann fékk mömmu í lið með sér að fá hann til að taka við búinu og þau fluttu vestur.
Pabbi var oddviti sveitarinnar í fjölda ára og það var víst honum meira hugðarefni en búskapurinn að vasast í þeim málum. Mamma var búhneigðari og vissi ekkert skemmtilegra en að fá að vinna úti við búverkin. Hennar hlutskipti var þó að standa yfir pottum og pönnum meiri hluta dagsins, fara fyrst á fætur á morgnana og hita upp í kolavélinni svo það væri farið að hlýna þegar hinir skriðu framúr. Hún fór líka síðust í rúmið og hélt því til dauðadags að geta aldrei farið að sofa meðan einhverjir voru á fótum. Meðan börnin voru lítil, en við vorum fimm systkinin, saumaði hún á okkur fötin á nóttunni því þá var friður og öll fallegu fötin sem hún átti þegar hún kom í sveitina urðu að sparifötum á okkur systkinin. Síðustu kjólana hennar notaði ég til að sauma upp úr á mig árshátíðarkjóla í Kennó.
Amma og afi bjuggu á loftinu en afi dó þegar ég var fjögurra ára og amma þegar ég var þrettán ára. Ég man lítið eftir afa en man þó að hann smíðaði handa mér litla hrífu svo ég gæti rifjað með honum flekkina. Ein minningin er að hann hafi gefið mér rauð stígvél en mamma sagði að það hefði mig sennilega dreymt eins og margt annað sem ég þóttist muna frá þessum tíma.
Amma var mér ekki sú amma sem ég þráði að eiga en ég færði henni matinn og skúraði fyrir hana en þær minningar sem ég á um hana eru ekki til skráningar.
Pabbi dó í júlí 1996 86 ára gamall en síðustu þrjú árin dvaldi hann á St Fransiscus spítalanum í Stykkishólmi en eftir að hafa fengið tvisvar heilablóðfall komst hann ekki á fætur aftur. Þetta voru honum erfið ár þótt vel væri um hann hugsað, hann gat ekki lesið eftir heilablæðingarnar en það var hans helsta dægrastytting áður og það eina sem gladdi hann var ef einhver gaf sér tíma til að fara með hann í reykherbergið svo hann gæti reykt eina sígarettu. Pípuna réði hann ekki lengur við en hún hafði verið honum staðfastur fylginautur frá unga aldri.
Mamma dó svo á þessum sama spítala árið 1999, 89 ára gömul og þrotin að kröftum en andlegri heilsu héldu þau bæði til dauðadags þótt líkaminn væri orðinn illa farinn af striti og streði lífsins.
Hún hefði orðið 100 ára 12. júní á næsta ári.
Blessuð sé minning þeirra beggja.
No comments:
Post a Comment