Thursday, December 24, 2009

Jólakveðjur

Maggý, Brandur, Sigga, Ninna, Grímur, Maggi, Guðni, Anna Margrét, Anna Eym og Þórarinn.

Nú eru jólin að ganga í garð, aðfangadagur og allt í friði og ró. Enginn jólasnjór hér sunnanlands en í gær kom smáfjúk og það hvítnaði aðeins og birti yfir. Þetta er alveg nóg fyrir mig, ég vil frekar að allir komist klakklaust leiðar sinnar.
Í gær á Þorláksmessu var hér hin árlega skötuveisla fyrir spilaklúbbinn. Að þessu sinni voru forréttir í boði Hafró, Bramafiskur, makríll, loðna, reykt hrefna, söl og fleira en þetta var jólagjöf bátsmannsins þetta árið. Þessu voru gerð góð skil og ekki var skatan og saltfiskurinn síðri en Brandur er orðinn snillingur í að verka skötu.
Að loknu uppvaski fórum við til Fjólu, fyrrverandi tengdamóður minnar, og hún fór svo með mér að heimsækja Rúnu á Grund. Hún var mjög glöð að sjá okkur þrátt fyrir að vera kannski viss á hverjar við vorum. Hún er svo sæt og fín og lítur svo vel út en það sagði hún að væri því að þakka að það væru allir svo góðir við sig. Hún á líka ekki skilið annað því það gætu margir lært af henni hvernig á að koma fram við náungann. Alltaf glöð og kát og þakklát fyrir allt þótt lífið hafi kannski ekki alltaf farið um hana mjúkum höndum.
Í kvöld fer Snædís til Jóa og Guðrúnar og borðar með þeim og pabba sínum en við hjónakornin verðum hér tvö ein í friði og ró og ætlum svo að hlusta á Pál Óskar og Móniku í Fríkirkjunni kl hálftólf. Á morgun fáum við svo njóta samvista við börn og barnabörn sem eru hér í kringum okkur en önnur verða að vera með okkur í anda.

No comments: