Wednesday, July 15, 2009

Sólríkur júlímánuður

Við frænkur fórum til Þingeyrar á Dýrafjarðardaga.
Við fengum okkur belgískar vöfflur í Simbahöll á Þingeyri.

Hemmi frændi leyfði gömlu að koma með.

Sætar tengdamæðgur að bíða eftir pizzu.

Um borð í Baldri. Fer sólin í augun á þér Hemmi minn?

Í minningareitnum á Súðavík.

Í Arnardal við Ísafjarðardjúp.

Hermann dró mömmu gömlu á trampólínið.

Hermann og Biggi að grilla.

Sjáið þið, ég þorði út á brún. Þorði líka að sitja brúnmegin í bílnum á Svalvogsveginum hans Elíasar Kjarans. Kannski fer ég næst í fallhlífarstökk og riverrafting.

FFlott skilti. Vegurinn var ekki eins illfær og ég hélt að hann væri.

Falleg vík við mynni Arnarfjarðar.

Mummi skemmti sér vel í ferðinni sérstaklega þegar hann var eltur af litlum sætum stelpum.

Við Maggý í Arnarfirði.

Hermann og Regína að panta pizzu á Bíldudal.

Við Flókalund.

Í staðinn fyrir að tjalda gistum við hjá Magna og Maju í Hólminum eftir 9 klst keyrslu.
Veðrið hefur leikið við okkur hér á landi mest allan júlí. Ég fór á Vestfirði með Maggý, Hermanni og Regínu. Við dvöldum í góðu yfirlæti á Þingeyri hjá fjölskyldunni hans Hermanns. Þau fengu lánað fyrir okkur raðhús svo við þurftum ekki að nota tjöldin sem áttu að hýsa okkur. Veðrið var stórkostlegt og reglulega gaman að kynnast lífinu í þessu fallega þorpi og láta streituna eftir veturinn líða úr sér. Þessa helgi voru Dýrafjarðardagar og við fórum á hörputónleika í kirkjunni þar sem Elísabet Waage seiddi okkur næstum því inn í draumalandið, horfðum á vöðvatröll keppa í Vestfjarðavíkingnum, og upplifðum víkingastemmingu á nýja víkingasvæðinu sem er mjög skemmtilega uppbyggt. Við Maggý keyptum listmuni af hnni Vögnu sem er ótrúleg listakona og litríkur karakter. Hún spáði líka fyrir okkur í bolla og var auðséð að hún var eittthvað göldrótt á því sviði. Það er svo gaman að hitta svona eftirminnilegar manneskjur sem leyfa sér að vera öðruvísi og hefur sterkar skoðanir á lífinu. Vonandi drepum við ekki niður svona karaktera með öllum okkar greiningum og tilraunum til að steypa alla í sama mót.
Eftir dýrðardaga á Þingeyri héldum við aftur suður, fórum Svalvogsveginn hans Elíasar Kjarans, sem hann gerði fyrir margt löngu með litlu ýtunni sinni til að koma einbúunum á Lokinhömrum og Hnitbjörgum í Arnarfirði í vegasamband. Ég var nú frekar smeyk að fara þessa leið og var að hugsa um að biðja Bigga að keyra mig yfir heiðina og bíða eftir þeim þar en lét mig hafa það, sem betur fer. Þetta var ekki eins hrikalegt og ég hafði ímyndað mér og eftir allt saman varð þetta toppurinn á ferðinni að hafa farið þessa leið í eins fallegu veðri og hægt er hugsa sér. Við ætluðum að tjalda á leiðinni en eftir að hafa borðað í sólstrandaveðri á Bíldudal komum við í þoku á Tálknafirði og Patreksfirði og ákváðum að keyra bara alla leið í Stykkishólm og gista hjá Magna. Þokan einskorðaðist samt bara við þessa tvo firði því þegar við komum suður fyrir heiði þá komum við aftur í sömu blíðuna á Barðaströndinni og alla leið í Hólminn. Hermann keyrði því í 9 tíma en kvartaði ekki og vildi engin ökumannaskipti, hefur sennilega ekki treyst okkur fyrir tækinu.
Við gistum svo eina nótt hjá Magna og Maju í Hólminum og fórum síðan til Ólafsvíkur og sváfum eina nótt í Lindarholtinu og héldum svo heim og tókum Hadda og Stellu með okkur.
Við Maggý fórum í Pakkhúsið og þar hitti ég kennarahjónin Maríu og Sveinbjörn sem kenndu hjá mér á Hólmavík forðum daga og stóðst ekki mátið að kaupa af henni eina mynd svo ég kom heim hlaðin minjagripum úr ferðinni.
Ég fann svo hvernig stressið læddist að mér við heimkomuna í borgina og flýddi mér daginn eftir upp í Skorradal og eyddi helginni þar með sjálfri mér í 20 stiga hita og yndislegri náttúru og naut þess í botn. Vökvaði og vökvaði vatnsþyrstan gróður og hef sennilega gert aðeins of mikið af því því allt vatn var búið á sunnudagsmorguninn og þá fór ég heim. Ég var líka ótrúlega dugleg, tók rababarann og skar hann niður, bjó til sultu og föndraði ýmislegt. Það er líklega hollt fyrir sálina að vera stundum einn með sjálfum sér til að sjá hvort sá félagsskapur er ekki bara í lagi stundum þótt alltaf sé gott að hafa fólk í kringum sig sem manni þykir vænt um.
Ég brunaði svo í Keflavík á sunnudeginum og náði í Jökul Mána, mútaði honum með ís til að koma með mér til Grindavíkur til að heimsækja Maggý og hundana. Þar fórum við í gönguferð og hann hafði mjög gaman af því vera með Kandís en Þarfur var ekki hrifinn af honum svo hann lét hann vera.
Á mánudaginn komu svo Haddi og Stella og gistu hjá mér og það var virkilega gaman að fá þau, nú fæ ég þau kannski oftar í heimsókn þar sem Maggý er flutt til Grindavíkur.






































No comments: