Wednesday, June 10, 2009

Sumarið er komið

Loksins erum við búin að hleypa börnunum út í sumarið og sýndist mér í morgun að þeim þætti það ekki leiðinlegt. Á mánudaginn fór ég með 3. bekk í bæinn með strætó. Veðrið var mjög gott og börnunum fannst mjög gaman að ganga um Hljómskálagarðinn og kringum Tjörnina, leika sér á Austurvelli og spjalla við litríka karaktera eins og Vilborgu Dagbjartsdóttur og aðra miður þekkta sem halda til þarna við styttuna af Jóni forseta. Að lokum fengu allir ís og það voru glöð börn sem var troðið inn í strætisvagn ásamt rúmlega hundrað öðrum reykvískum skólabörnum sem á krepputímum fá náðarsamlegast strætómiða til að skoða umhverfið. Reyndar held ég að nokkur börn í hópnum hafi aldrei gengið í gegnum Hljómskálagarðinn né í kringum Tjörnina og reyndar langt síðan að ég sjálf hef gengið þessa leið. Maður leitar oft langt yfir skammt. Seinni hluta dagsins var ekki alveg eins rólegt á Austurvelli en þá lét Búsáhaldabyltingin aftur á sér kræla til að mótmæla nauðungarsamningum um Ices(l)ave.
Á þriðjudaginn fórum við með alla nemendur skólans, nema 10. bekk í Gufunes. Aftur vorum við heppin með veður og þarna er frábær aðstaða fyrir alls konar leiki og það var gaman að enda erfiðan vetur á því að sjá alla glaða og káta í leik og þótt harkan í fótboltanum yrði stundum aðeins of mikil eins og gengur þá gekk þetta allt mjög vel og allir fóru glaðir heim, ýmist hjólandi eða gangandi. Í morgun voru skólaslit og börnin frelsinu fegin en við eigum enn nokkra daga eftir enn þar til við göngum frjáls út í sumarið en það kemur að því.
Silla, Atli, Ester, Bjarki, Ástrós og Hera voru hér um helgina og héldu upp á sjómannadaginn með okkur. Við fullorðna fólkið fórum á sjómannaball á Hótel Nordica en Ástrós passaði þau litlu og fórst það vel úr hendi. Ballið var fínt, góður matur og Gísli Einarsson var veislustjóri og fór út og suður með sinn borgfirska húmor. Kallinn er bráðskemmtilegur og kann að gera grín að sjálfum sér og öðrum. Hljómsveitin Óðsmannsæði spilaði fyrir dansi og við tókum eina syrpu og forðuðum okkur svo heim áður en æði færi að renna á sjóarana sem sumir voru orðnir dálítið valtir á fótunum. Fer ekki sögum af því hvernig veislan endaði en vonandi endaði hún vel fyrir alla.

No comments: