Thursday, December 27, 2007

Gleðileg jól

Hjónakornin glöð og ánægð á aðfangadagskvöld.
Húsbóndinn kominn í jólanáttfötin.

Rúna fékk möndluna í jólaísnum.


Borð hinna fullorðnu.



Börnin með afa á aðfangadagskvöld.


Við heimsóttum Rúnu á Grund á Þorláksmessu.


Guðni og Eymundur í skötuveislunni.

Jólahátíðin hefur verið ljúf og góð hjá okkur stórfjölskyldunni. Dóra, Robert, Kara, Roman og Rúna komu þann 21. des og það var ósköp gaman að fá að hafa þau hér um jólin og verðandi áramót. Þau lentu í smáhrakningum á leiðinni, bíllinn bilaði á leiðinni út á flugvöll og þau urðu að koma sér á leiðarenda í leigubíl og urðu svo að hlaupa í gegnum flugstöðina með fylgdarmönnum og rétt mörðu að komast um borð. Sem betur fer vissi ég ekkert um það fyrr en þau voru komin heim heilu og höldnu. Við fórum í jólahlaðborð á Fjörukránni þann 22. á afmælisdegi Snædísar og héldum þar upp á 21s árs afmæli hennar og trúlofun Jóa og Guðrúnar. Fyrr um daginn fórum við í skötuveislu í Hafnarfjörð hjá gömlum frænda sem passaði mig í sveitinni þegar ég var lítil.
Það var ánægjulegt að hitta aftur þetta fólk.
Við buðum svo spilaklúbbnum með mökum í skötuveislu á Þorláksmessu og það var mjög skemmtilegt. Vonandi verður ekki búið að banna skötusuðu í blokkum fyrir næstu jól en við heyrðum að það væru ekki allir nábúarnir ánægðir með að það væri verið að elda ónýtan mat hér í stigaganginum en við látum það ekki á okkur fá enda lyktin fljót að fara að okkar áliti.
Þessi sami nábúi hefur ekki alltaf verið til fyrirmyndar í umgengni í sameign svo við tökum það ekki nærri okkur.
Á aðfangadagskvöld vorum við hér 13 jólasveinar til borðs en sem betur fer var Púki sá 14. svo hjátrúin fór ekkert illa með okkur. Nóg var af pökkum undir trénu en við tókum þá upp með mikilli ró og börnin ótrúlega þolinmóð að bíða meðan hver og einn opnaði einn pakka í einu.
Allir glaðir og ánægðir með sitt.
Jóladagur var svo dagur slökunar á náttfötunum og svo fóru krakkarnir í mat til pabba síns en við sátum heima með Roman lasinn en hann var sem betur fer orðinn stálhress á annan í jólum. Þá fórum við í gönguferð í Elliðaárdalinn og þar var náttúrufegurðin mikil í jólasnjónum. Börnin veltust um í snjónum alsæl og við fullorðnu börnin smituðumst af gleði þeirra.
Það var gaman að þau skyldu fá að sjá jólasnjó þótt ég hefði alveg lifað án hans.
Það er gleðidagur í dag. Maggý frænka fór í síðustu lyfjagjöfina og allar rannsóknir komu vel út og nú getur hún farið að hlakka til að fá aftur hár og bætta heilsu.

Tuesday, December 11, 2007

Jólaskap í desember

Tíminn líður hratt-á gervihnattaröld. Orð að sönnu, mér finnst ég bara alltaf vera að vakna og fara á fætur. Nóg að gera og nóg til að gleðjast yfir. Brandur er búinn að gera allt sem stóð á framkvæmdalistanum hans fyrir desember. Búinn að smíða nýja skápa í eldhúsið, setja upp hillur í stofunni og fataskáp inni hjá afadrengnum. Hann var snöggur að klára þetta þegar hann fékk að vita á föstudaginn að hann fengi að fara á vegum Hafró til Danmerkur í viku. Hann lagði af stað í morgun með hinum bátsmanninum af Árna en þeir eru að fara til Hirtshals í einhvern tank þar sem þeir geta séð hvernig hin ýmsu veiðarfæri virka. Þeir voru ógurlega spenntir þegar ég keyrði þá í morgun.
Ester og Bjarki voru hjá okkur um helgina með stelpurnar. Þau voru í jólaverslunarferð og bíllinn var orðinn svo hlaðinn hjá þeim að það leit út fyrir að Bjarki yrði að hlaupa á eftir bílnum norður þegar þau fóru í gær. Jói og Guðrún komu á sunnudagskvöldið og við borðuðum forláta kjúklingarétt sem ég töfraði fram af minni alkunnu snilld -eða þannig.
Við keyptum okkur nýtt sjónvarp á laugardaginn í Max í Hafnarfirði. Þurftum að sækja það niður í Holtagarða í nýja lagerinn þeirra sem er enn í byggingu og varla hægt að snúa við á planinu innan um gáma og drasl. Tækið var sett upp og allir voða glaðir þar til Brandur fór að skoða miðana á því og þá reyndist þetta ekki vera tækið sem við keyptum heldur ódýrari týpa. Við urðum því að pakka því niður aftur og arka aftur af stað með það og eftir smápirring og miður skemmtilegar athugasemdir í Hafnarfirði fengum við rétta tækið og reyndist verlsunarstjórinn í Holtagörðum kunna á pirraða viðskiptavini svo við fórum ánægð heim með gripinn og smásárabót. Það er sem sagt allt að verða klárt fyrir jólin, bara eftir að kaupa nokkrar jólagjafir og baka 12 sortir af smákökum !! Og nú getum við farið að hlakka til að fá jólagestina okkar frá Englandi og það verður gaman að hafa alla saman aftur á jólunum.
Jólaljós spretta upp í gluggum og görðum og lýsa upp desembermyrkrið og vonandi geta sem flestir átt gleðileg og sönn jól.

Saturday, November 24, 2007

Húsmæðraorlof í Hálsasveit

Bara svona til að komast í jólaskap dálítið snemma.

Piparkökubakstur fyrir síðustu jól.

Kandís litli hennar Maggýjar undi sér vel með
okkur, enda eini karlmaðurinn.


Rúna Annell, Roman Anton og Kara Björk í Skógarbæ.

Jökull Máni og Viktoría Rós í heimsókn hjá ömmu og afa.

Við erum stundum eins og tvíburar frænkurnar
sérstaklega í nýju íslensku búingunum frá Stellu.


Jökull Máni flottur í tauinu.


Helgina 9.-11. nóvember fórum við Maggý í sumarbústað KÍ í Hálsasveit í Borgarfirði. Þetta var svo sannarlega húsmæðraorlof eins og það getur best verið. Við keyptum tilbúna heilsurétti sem aðeins þurfti að hita og Maggý var svo nösk í innkaupunum að við þurftum ekki að fara með neitt heim aftur. Okkur gekk dálitið illa að finna bústaðinn, sem er í landi Signýjarstaða, vorum ekki búnar að skoða kortið nægilega vel. Við byrjuðum því á því að fara heim að bænum, keyrðum eftir nýjum vegi sem var ekki upp á sitt besta en komum þá að hálfbyggðu útihúsi og leist ekki á að hafa ekki þak yfir höfuðið yfir helgina. Við bönkuðum því upp á á bænum og stórfalleg heimasæta sagði okkur að fara aðeins lengra og þá fyndum við bústaðinn. Þegar við vorum komnar þangað var ansi erfitt að sjá hvaða bústaður væri sá rétti því þeir voru allir frekar langt frá vegi og þurftum við þvi að keyra heim að þeim til að sjá númerin. Við römbuðum samt á þann rétta og komumst þá að raun um að bústaðurinn var splunkunýr en við héldum að hann væri gamall þar sem þetta var eini bústaðurinn sem var laus þessa helgi. Líklega var það vegna þess að þarna er ekki heitur pottur. En þetta er virkilega fallegt hús með fallegum húsbúnaði og mjög hlýlegur. Ekki spillti fyrir að það er langt á milli húsa og ekki var sála í hinum. Þarna ríkti því algjör kyrrð og friður og það var það sem við vorum að sækjast eftir.
Við lentum samt í smáerfiðleikum með að fá vatn í kranana en eftir nokkrar hringingar náðum við í eiganda bústaðarins sem er lögreglumaður á Akranesi og hann leiðbeindi okkur með að finna hvar skrúfað var frá vatninu. Eftirlitsmaðurinn hafði sem sagt eitthvað gleymt sér en hann kom seinna um kvöldið og tékkaði á okkur.
Eftir heilsusamlegam kvöldverð settumst með prjónana fyrir framan sjónvarpið á náttfötunum, sem við vorum reyndar í þangað til við fórum heim.
Helgin leið svo við prjónaskap og lestur og Kandís, litli hundurinn hennar Maggýjar, fékk meira að segja nýja ullarpeysu svo hann gæti farið með mér út að reykja.
Veðrið var yndislegt, logn og smáfrost og við vorum mjög ánægðar með húsmæðraorlofið.
Ég á örugglega eftir að fara aftur í þennan fallega bústað og það væri örugglega yndislegt að vera þarna yfir jólin.
Þegar við komum heim skelltum við okkur í sparifötin en Maggý bauð okkur Þúfutittlingunum í Borgarleikhúsið að sjá leikritið Dagur vonar. Við vorum mjög ánægðar með leikritið og ég man ekki eftir að hafa fyrr tárast í leikhúsi en tilþrifin voru slík að ég hef sjaldan séð áhrifameiri sýningu.
Síðasta helgi var aftur á móti ömmuhelgi. Jökull Máni fékk að vera hjá ömmu bæði laugardag og sunnudag meðan mamma og pabbi voru að vinna. Við undum okkur vel saman og ég gat ekki séð að honum leiddist neitt þótt við værum bara hérna heima í rólegheitum. Nýja þvottavélin mín fékk óspart að sanna sig en sú gamla brann yfir viku áður. Það er alltaf svo gaman að fá nýja vinnukonu á heimilið.
Í skólanum er jólastressið aðeins farið að segja til sín, ekki bara hjá börnunum heldur hjá okkur fullorðna fólkinu líka. Við þurfum að gæta þess að láta ekki áreitið hafa áhrif á okkur heldur njóta þess að vera til. Reyndar er ég komin af stað með jólahreingerningar, búin að taka eldhúsið í gegn, fékk reyndar utanaðkomandi hjálp til að koma mér í gang en öll hjálp er alltaf vel þegin. Nú er mánuður til jóla og þetta verða gleðileg jól þar sem öll fjölskyldan verður hér samankomin á aðfangadagskvöld og langt síðan það hefur gerst. Við hlökkum mikið til að hafa útlagana okkar aftur hérna á jólum.
Jói, Guðrún, Viktoría og Jökull komu í heimsókn í morgun og fengu nýbakaðar jólasmákökur úr Bónus. Þau eru að fara um næstu helgi til Boston og voru að fá lánaðar töskur undir allan varninginn sem þau ætla að kaupa. Vonandi verða tollararnir góðir við þau þegar þau koma til baka.

Thursday, November 8, 2007

Vetrarfrí í Berlín

Best Western Euro Hotel Sonnenallee 6 Berlín

Kapparnir með svipurnar á Potsdamen Platz.


Við Brandenburgarhliðið.



Í körfustólnum meðan Kúrdar mótmæltu tyrkjum.




Sjónvvarpsturninn séður frá bátnum.





Beðið á hótelinu eftir að fara heim.


Vetrarfrí hjá mér og landlega hjá Brandi fóru saman svo við skelltum okkur til Berlínar. Við lögðum af stað á föstudag og vorum komin til Berlín um 8 um kvöldið. Það var dálítið skrýtið að fara í gegnum Leifsstöð sem var eins og hersetin af lögregluönnum sem voru að gera sig klára í að taka á móti óvelkomnum gestum sem væntanlegir voru til landsins. Það rifjaðist upp fyrir mér hvað það tók á taugarnar forðum þegar ég var að fara mínar fyrstu ferðir til útlanda, að þurfa að fara í gegnum herstöð til að komast út úr mínu eigin landi.
Vonandi endurtekur sú saga sig ekki en ég las einhvers staðar að við hefðum þurft að berjast fyrir frelsi, en nú þyrftum við að læra að fara með það.
Við lentum í Berlín um áttaleytið um kvöldið og það var engin viðhöfn þar í móttöku. Engin leit, ekki einu sinni skoðuð vegabréf og við örkuðum út í næsta leigubíl sem flutti okkur heilu og höldnu á hótelið sem ég hafði pantað án þess að vita nokkuð hvað ég var að panta. Var orðin dálítið óróleg hvort það væri kannski af lakari sortinni en það reyndist vera sallafínt. Lítið og notalegt og ljúf og persónuleg þjónusta. Við fengum herbergi á 6. hæð og morgunverðarsalurinn var við hliðina á því svo við hefðum þess vegna getað farið á náttfötunum í morgunmat ef við hefðum þorað.
Laugardeginum eyddum við í miðborginni. Lestakerfið er einfalt, þegar maður er búinn að læra á það, en einhvern veginn finnst mér nú skemmtilegra að ferðast um ofanjarðar. Hugsaði samt til þess að það gæti nú verið þægilegt að hafa svona kerfi hérna heima, laus við rigningu, rok og snjókomu.
Þegar við komum upp á yfirborðið vorum við stödd við ána Spree sem rennur í gegnum borgina og ákváðum að taka stefnuna á Potsdamer Platz. Á leiðinni sáum við smábút af gamla Berlínarmúrnum og reyndum að ímynda okkur hvernig lífið var þarna þegar þessi múr var reistur árið 1961 á einni nóttu og Berlínarbúar urðu að vera snöggir að ákveða hvoru megin múrsins þeir vildu vera. Það er einhvern veginn erfitt að hugsa sér að það skuli vera svona stutt síðan hann var brotinn niður og borgarbúar urðu aftur ein heild.
Á Potzdamer Platz blasti við tilbúin skíðabrekka með alvöru snjó og fjallmyndarlegum karlmönnum í þjóðlegum búningum með sérkennilegar svipur. Þarna var auglýsingaherferð í gangi fyrir skíðasvæði í Salzburg. Mennirnir sveifluðu svipunum mjög fimlega en þær voru með stálkúlur á endunum sem þeir slógu saman og við það myndaðist ærandi hávaði svo við vorum með hellu fyrir eyrunum lengi á eftir. Veit ekki alveg hvað þetta átti með skíðaíþrótt að gera. Síðan tók við lúðrasveit og út um allt voru litlir bjálkakofar þar sem verið var að selja jólaglögg og pylsur og jólastemming lá í loftinu.
Næst gengum við að Brandenburgarhliðinu, fram hjá minnisvarða um helför Gyðinga, en það eru steinblokkir sem hægt er að ganga inn á milli. Eftir stutta dvöl við Brandenburg fór að hellirigna svo við skelltum okkur inn í rútu og fórum í tveggja tíma skoðunarferð um borgina og sáum helstu byggingar og sögustaði. Eftir það fórum við aftur niður í jörðina og brunuðum heim neðanjarðar. Þá var að leita að einhverjum stað til að borða á en í hverfinu, sem heitir Neukölln, var fátt um fína drætti en við fundum samt lítinn þrifalegan stað og fengum þar ágætis nautasteik. Í þessu hverfi og því næsta sem heitir Kreusberg búa margir innflytjendur, aðallega Tyrkir og sennilega Kúrdar. Hótelið okkar var við torg sem heitir Hermans Platz, og á sunnudeginum þegar við komum heim eftir bæjarrölt sáum við tugi lögreglubíla sem keyrðu inn á torgið með blikkandi ljós. Mitt litla hjarta fór að sló dálítið örar og ég hélt að nú væri ég að lenda í einhverju uppþoti sem ég hefði ekki pantað. Lögreglubílarnir voru dágóða stund í röð á torginu en hurfu svo mér til mikils léttis. Við sáum svo í sjónvarpinu um kvöldið og blöðunum daginn eftir að Kúrdar höfðu verið þarna með mótmæli gegn Tyrkjum og að 1000 lögreglumenn hefðu verið á staðnum til að stilla til friðar. Ef við hefðum komið hálftíma fyrr upp úr lestargöngunum hefðum við lent í miðjum hópnum. Mikið var ég fegin að hafa setið þessum hálftíma lengur á útiveitingastaðnum og drukkið kaffið mitt heldur en að lenda í því. Brandur var reyndar hálffúll yfir að missa af þessu.
Þennan dag fórum við á Alexander Platz en þar er Sjónvarpsturn sem er ca 270 m hár. Ég var dregin upp í hann nauðug viljug. En ég lifði það af og var reyndar upp með yfir að hafa ekki látið lofthræðsluna sigra mig. Við sáum yfir alla borgina og horfðum niður á ¨litla¨ hótelið hennar Önnu og Þórarins, Park Inn, sem er aðeins 37 hæðir. Eftir þessa sigurför skoðuðum við litla Maríukirkju, kveiktum þar á kerti og settum lítinn mósaikbút í listaverk sem gestir fá að taka þátt í að búa til og borga fyrir það að sjálfsögðu, á einhverju verða kirkjunnar menn að lifa.
Síðan röltum við niður að ánni Spree og fórum í siglingu í sólskini og blíðu. Eftir það röltum við um göturnar í kring og settumst inn á fyrrnefndan útiveitingastað og sátum þar með kaffi og eplaköku í körfustólum meðan Kúrdar mótmæltu Tyrkjum á torginu við hótelið okkar.
Mánudagur var svo heimferðardagur en ekki flogið fyrr en um kvöldið svo við röltum bara um okkar ¨heima¨hverfi í blíðskaparveðri. Gátum aðeins þreifað á tuskum í Karstadt sem var við hliðina á hótelinu og svo var stefnan tekin heim á klakann. Það var aðeins meira eftir okkur tekið við brottför heldur en komu og ég fékk heilmiklar þreifingar í hliðinu en það píptu á mig öll tæki og ég var farin að halda að ég yrði handtekin á staðnum og var farin að hugsa hvort það hefðu verið settir í mig stálliðir án þess að ég vissi en sem betur fer var mér sleppt eftir heilmikla þuklun. Brandur fékk enga slíka meðferð og var hálfspældur held ég.
Heim komumst við heilu og höldnu en það var dálitið erfitt að detta aftur inn í vinnuna strax morguninn eftir en það vandist.
Nú er Brandur aftur farinn út á sjó og ég ætla að nota helgina í afslöppun og prjónaskap í sumarbústað í Borgarfirði með Maggý frænku. Engin ástæða til að hanga heima og skúra, heimilisverkin eru svo trygglynd að þau fara ekki neitt á meðan.

Sunday, October 28, 2007

Vetur genginn í garð

Vikan hefur verið frekar viðburðasnauð svo lítið er til að skrifa.
Ég fór í spilaklúbb til Önnu Margrétar á miðvikudagskvöldið og vann fyrri rúbertuna, aldrei þessu vant. Það gerist ekki oft svo það var frekar ánægjulegt enda með afbrigðum tapsár manneskja. Á fimmtudagskvöldið var töskukynning hjá Maggý en hún og Dagný hafa verið að hanna og sauma töskur undanfarið til að fjármagna ferð til Oxford. Þær eru ansi sniðugar að nýta gamla hluti, en það er einmitt það flottasta í dag. Miklir alþýðulistamenn þar á ferð. Ég aftur á móti sit og prjóna sokka á barnabörnin en spurning hvort þau fara einhvern tímann í þá. En það er alla vega gott fyrir sálina að hafa eitthvað fyrir stafni og sjá eitthvað áþreifanlegt eftir daginn. Afrakstur heimilisverkanna sér nefnilega enginn nema þegar þeim er sleppt.
Ég fékk að hafa Jökul Mána hjá mér um helgina þar sem foreldrarnir voru í brúðkaupsafmæli. Honum leiddist ekki meira en það að hann vildi ekki fara heim í dag en ég varð nú samt að skila honum.
Við fengum okkur góðan göngutúr í morgun upp í Efra-Breiðholt til Maggýjar en þá var hún ekki heima svo við urðum bara að rölta heim aftur. Hann fékk samt að sjá hundinn Kandís sem er mjög smágerður en honum leist ekkert á hann, vildi bara fá að sjá stóran hund. Veðrið er búið að vera mjög bjart og fallegt í dag, sólskin og smáhéla yfir öllu. Gott eftir alla rigninguna undanfarið en samt er ég alltaf dálítið óstyrk þegar ég legg út í fyrstu hálku vetrarins. Það var auðvitað fyrsti vetrardagur í gær svo veturinn heilsaði á viðeigandi hátt.
Nú get ég farið að hlakka til Berlínarferðar og vonandi verður ekki Vetur konungur orðinn svo alls ráðandi að við verðum að fara með kuldagallana með okkur en þá verða það bara lopapeysurnar sem fá að fara með í staðinn fyrir stuttbuxurnar.

Monday, October 22, 2007

Myndir úr afmælinu





































Maggý fimmtug

Maggý hélt upp á fimmtugsafmælið sitt á laugardaginn eins og henni er einni lagið. Veislan var haldin í sal Framsóknarmanna í Kópavogi og þar var þétt setinn bekkurinn af ættingjum og vinum. Nóg af mat og drykk og skemmtiatriðum. Við vinkonurnar, sem köllum okkur Þúfutittlingana hennar Maggýjar, sungum með henni uppáhaldslagið hennar um þessar mundir sem heitir Lífið er svo stutt og er eftir Magnús Kjartansson. Textinn er um konu sem gengur illa að finna draumaprinsinn þótt nóg sé af allrahanda prinsum með bakpoka sem alltaf geta flutt. Hún getur líka alltaf flutt og fundið sér nýjan. Skrýtið!! Hann Óli í Öskjuhlíðarskóla spilaði undir á harmonikku en hann sá um tónlistina í veislunni með miklum glæsibrat. Við dönsuðum líka línudans og tókum að lokum upp3 herramenn, þá Hákon, Þorstein og Skúla, og kenndum þeim að dansa en þeir voru frekar lélegir nemendur en þeim mun skemmtilegri.
Ungarnir hennar Maggýjar voru líka með skemmtiatriði og slógu rækilega í gegn. Þau blístruðu, dönsuðu og sungu af mikilli innlifun og tóku sér góðan tíma á sviðinu. Sérstaklega naut Herra Janúar og fyrrum Herra Vesturland sín vel í þessu hlutverki og leiddist ekki athyglin. Þeir bræður sýndu meistaratakta í dansinum og tóku ýmis flókin og skemmtileg spor. Þau enduðu svo á Superman atriði sem náði öllum gestunum úr sætunum og var virkilega gaman að sjá hvað allir gleymdu sér við að klóra sér, veifa og fara á skíði, svo hressilega tóku sumir þátt að rauðvínsglös fengu að fjúka.
Helga Björk Kolludóttir og Jóns sá um veislustjórn og söng líka fyrir Maggý hið frábæra lag Leonards Cohen, Hallelúja með íslenskum texta. Hún stóð sig með prýði þótt ekki væri gott að hafa stjórn á skemmtikröftum. Það var kannski það sem gerði þetta allt svo skemmtilegt að allt var leikið af fingrum fram og bara aukaskemmtiatriði þegar eitthvað fór eins og það átti ekki að fara.
Um tvö voru fáir eftir en þeir skemmtu sér þeim mun betur og þurftum við að lokum að taka hljóðkerfið úr sambandi til að fá gítaristann, Jón hennar Helgu og bræðurna og vini þeirra til að hætta að syngja. Við ætluðum nefnilega að enda partýið á Catalinu sem var þarna rétt hjá. Þangað stormaði svo hersingin syngjandi (kannski ekki við fögnuð íbúa Hamraborgar) en Catalinumenn glöddust örugglega við komu okkar því þar var frekar fámennt áður en við komum, nokkrir Pólverjar sem glaðnaði held ég líka yfir við komu okkar. Þarna var fín músík við okkar hæfi og var dansgólfið hertekið og það glaðnaði örugglega líka yfir tónlistarmanninum sem þarna sat og spilaði og söng. Hann tók meira að segja aukalög fyrir okkur því við vorum svo skemmtileg.
Aðalskemmtiatriðið var samt frekar óundirbúið. Pínulítill Pólverji bauð mér upp í dans og upphófst þá mjög sérstakt dansatriði sem endaði með því að Pólverjinn teygði sig upp og reyndi að snúa mér allhressilega en þar sem hæðarmunur var töluverður tókst ekki betur til en svo að ég endaði á gólfinu og úti í vegg. Aumingja Pólverjinn varð mjög miður sín og hvarf að dansgólfinu eftir margar afsökunarbeiðnir en mér tókst að standa upp og komast í sætið og auðvitað fannst þessum góðu félögum mínum atriðið toppurinn á kvöldinu, allavega þegar ljóst var að gamla konan var óbrotin og heil á húfi. Eftir þetta óvænta skemmtiatriðivar haldið heim og allir rosalega ánægðir með afmælisveislu aldarinnar. Snemma á sunnudagsmorguninn fórum við svo og þrifum salinn, bárum heim allar gjafirnar og afganginn af matnum sem dugði til að metta 100 manna starfslið Öskjuhlíðarskóla á mánudeginum. Eftir það var sest við að horfa á allar myndirnar sem Hafsteinn tók í afmælinu og myndbandsupptöku af öllum skemmtiatriðunum (sem betur fer var upptökustjórinn ekki með á Catalinu) og endurupplifðum við allt gamanið og sáum að það var alveg rétt sem við höfðum haldið, allir höfðu skemmt sér rosalega vel.
Í dag er svo rigning og rok og allt fjúkandi út um allt en það er bara hressandi og gott að lauma sér í náttfötin og leggjast í Lazyboy og rifja upp skemmtilega helgi.

Thursday, October 18, 2007

Nóg að gera

Það er nóg að gera þessa dagana. Undirbúningur fyrir fimmtugsafmæli Maggýjar í fullum gangi.
Við fórum og skreyttum salinn í gær eftir söngæfingu með harmonikkuleikaranum, honum Óla sem er tónmenntakennari í Öskjuhlíðarskóla. Maggý fór svo í dag og bætti um betur og setti sinn stíl á hann.
Jökull varð 3ja ára þann 10. okt og veislan var haldin á laugardaginn og þar var mikið fjör og sá stutti alsæll með hækkandi aldur. Hann var samt dálítið feiminn þegar hann var að blása á kertin með alla þessa athygli á sér. Ég gaf honum svo aukagjöf, heila flugstöð, sem ég keypti í haust á flóamarkaði hjá Bergmáli. Hún var úr eigu Gísla Rúnars leikara og þess vegna orðin fjörgömul en mér sýndist sá stutti vera alsæll með hana og pabbinn líka.
Um kvöldið fór ég með Maggý, Kollu og Jóni á tónleika í Langholtskirkju sem voru til styrktar Krabbameinsfélaginu. Þar sungu Bergþór Pálsson og Bragi sonur hans, Arndís Halla og Auður Gunnarsdóttir. Ég hef nú takmarkað gaman af kvenkyns óperuröddum en Arndís Halla hafði þvílík hljóð að við komum öll vel eyrnahreinsuð heim. Arnar Jónsson og Guðrún Gísladóttir lásu upp úr bók eftir eiginkonu Eggerts Þorleifssonar (man ekki hvað hún heitir). Þetta voru örsögur, minningabrot úr lífi hennar og það var virkilega gaman að hlusta á þær, vil gjarnan eignast þessa bók.
Á sunnudagskvöldið fékk ég Jökul í pössun og við skemmtum okkur ágætlega saman.
Vikan hefur sem sagt verið góð, lítill tími til að láta sér leiðast og nóg að gera.
Nú standa yfir samræmd próf í skólanum sem mættu alveg fara að missa sig, veit ekki hvort þau svara þeim kostnaði sem lagður er í þau. En krakkarnir tóku þessu með ró og gerðu eins vel og þau gátu og það er fyrir öllu.
Núna er ég búin að leggja kjúklingastrimla í marineringu sem ég ætla svo að þræða upp á pinna og grilla annað kvöld og vonandi verður engum afmælisgestum meint af þeim.
Fram undan er svo nýi (gamli) lazyboystóllinn og sjónvarpsgláp. Ég ætla að reyna aftur að setja inn myndir en ég er búin að gera nokkrar tilraunir og þær fara alltaf eitthvað annað en á bloggsíðuna. Vonandi eru þær ekki á flakki á netinu.

Saturday, October 13, 2007

Húsmæðraorlof í Kaupmannahöfn







Um síðustu helgi fór ég í helgarferð til Kaupmannahafnar með Önnu Margréti og Siggu Haralds. Við hittum Ninnu þar en hún var í vinnuferð, á ráðstefnu norrænna sérkennara. Við lentum um hádegi á föstudag og drifum okkur á Hotel Tiffany sem er staðsett rétt hjá járnbrautarstöðinni. Gamalt og notalegt, fengum morgunverðinn í ísskápinn og ný rúnnstykki á hurðarhúninn á morgnana. Þar sem þetta var menningarreisa en ekki verslunarferð drifum við okkur á Strikið til að skoða menninguna en ekki í búðir. Veðrið var himneskt, 15 stiga hiti og glaðasólskin. Mannlífið var fjölbreytt, ungt fólk sem hafði valið kannski miður góða leið í lífinu og eyddi því í gluggaskotum með álpappír og sprautur í hendi, listafólk að leika og spila fyrir fólk í von um að fá smáaur fyrir lífsnauðsynjum, rónar að rísa upp úr sínu næturfleti og svo allt hitt ¨venjulega¨fólkið sem maður tekur kannski ekkert sérstaklega eftir. Við settumst inn á veitingastað og fengum okkur smörrebröd og bjór og héldum svo áfram að rölta þar til tími var kominn til að fá sér kvöldverð og þá snöruðum við okkur inn á Böf og ost og fengum okkur dýrindis krónhjartarsteik, sérstaklega fyrir Þórarinn. Ekki var nú úthaldið mikið því við vorum komnar heim á hótel upp úr 9 og sofnaðar fyrir 10, alla vega sumar.
Á laugardagsmorguninn var ég vakin og þá var búið að útbúa morgunverðarborð enda vön því að fá slíka þjónustu á morgnana og þess vegna alveg sjálfsagt að veita mér hana. Síðan var arkað af stað og nú var stefnan tekin á markað við Israelsgade. Þar var fjörugt mannlíf, margir eigulegir munir og margt að skoða. Ég stóðst ekki forláta saumakassa úr tré, gamlan en vel með farinn og ekki var verra að hann var fullur af gömlu saumadóti frá fyrri eiganda og því algjör fjársjóður. Ég fékk ekki poka utan um gripinn og seljandinn sagði mér að nú hefði ég bara eignast nýmóðins handtösku svo ég spókaði mig með saumakassann i hendinni það sem eftir lifði dags og fannst ekkert athugavert við það en hafði á orði að sennilega hefði ég ekki gert þetta á Laugaveginum hér í borg. Svona verður maður slakur í útlöndum og fullur sjálfstrausts. Þegar við vorum búnar að fá nóg af þessu og búnar að fjárfesta í mörgum eigulegum gripum, jólaskeiðum, hringum, nælum, armböndum, klukkum og fleiru, fórum við aftur á Strikið. Kíktum aðeins í búðir en aðaláherslan var lögð á að borða og fá sér gott hvítvín. Sátum í sólinni fyrir utan eitthvað kaffihús og liðkuðum málbeinið. Að því loknu fórum við aðeins í H og M og þukluðum aðeins á nokkrum flíkum og stormuðum svo heim á hótel að gera okkur klárar fyrir kvöldverð og losa okkur við saumakassann og hitt dótið.
Við borðuðum á Peder Okse með Ninnu, Heiðveigu og Ragnheiði úr Mosó og nú var það villiandarsteik sem mér fannst nú frekar lítilmótleg eftir krónhjartarsteikina kvöldið áður. En salatbarinn var fínn og félagsskapurinn góður og það er fyrir öllu. Um miðnættið röltum við heim, komum við á einum bar og hlustuðum á tónlist og hlógum og skemmtum okkur. Síðan var strikið tekið heim og enn voru vinir okkar í gluggaskotunum að nota sína leið til að skemmta sér en það sem var merkilegt að við fundum ekki fyrir ótta að vera að ganga þarna einar í gegnum skuggahliðar mannlífsins en ég myndi ekki þora að gera þetta hér heima. Við fundum heldur ekki fyrir þessum hraða og stressi sem er hér heima, en kannski vorðum við bara svona slakar og gerðum okkur ekki grein fyrir neinum hættum.
Á sunnudagsmorgun voru rúnnstykkin komin á húninn og borðuð með bestu lyst og svo drifum við okkur út á flugvöll, allt of snemma, en gátum rölt þar um og keypt svolítið af jólagjöfum.
Lentum um hálfþrjú í Keflavík í glaðasólskini, kátar og hressar og alsælar með húsmæðraorlofið.
Ég keyrði svo Siggu heim og kom við hjá Önnu Eym með smásárabót fyrir að komast ekki með og þar endaði ég í þríréttuðum kvöldverði a la Þórarinn. Ekki slæmur endir á frábærri helgi.
Vinnuvikan var svo framundan og ég mætti með öll batterí hlaðin á mánudagsmorgun og hellti mér út í vinnuna og svo var vikan liðið áður en ég vissi af. Nú á ég von á Maggý og nokkrum vinkonum í súpu og bænastund svo nú verð ég að hætta þessu.

Sunday, September 16, 2007

Nú haustar að

Þá er veturinn farinn að minna á sig. Hvítur kollur á Esjunni og Hengillinn og Bláfjöllin hvít. Það snjóaði á Hellisheiði í gær þótt það rigndi duglega hér niðri í byggð. Vikan var tíðindalítil, engin stórafrek, bara unnið og sofið. Við vorum heima um helgina, þrif og þvottar tóku mestan tíma og smáprjónaskapur. Við Maggý skruppum á flóamarkað hjá líknarfélaginu Bergmáli en þar stóð Kolla frænka galvösk og seldi geymsludót frá Eddu Björgvins. Ég fjárfesti í heilli flugstöð sem Gísli Rúnar hafði eignast sem barn og nú er bara að ákveða hvort ég hef herlegheitin hér heima eða leyfi skjólstæðingum mínum í Engjaskóla að leika sér að þeim. Eftir flóamarkaðinn fórum við Brandur í Skorradalinn og gegnum frá fyrir veturinn, ísskápurinn tæmdur og vatnið tekið af. Það er því ekki hætta á að það verði frostskemmdir þar á næstunni.
Það var ansi kalt að koma í kotið, 5° hiti og þótt ég færi í ullarhempuna frá Álafossi þá náði ég ekki upp hita meðan við stoppuðum þar. Ég held að mér hafi ekki orðið kalt síðan í fyrravetur, þetta er búið að vera svo frábært sumar. En hér í Grýtubakkanum er vel heitt og mér er því farið að hlýna aftur innvortis. Nú er bara að gera sig kláran fyrir næstu vinnuviku, andlega sem líkamlega og muna að takast á við allt með jákvæðu hugarfari. Bara að muna að syngja hástöfum alla leið í vinnuna og koma sér í gott skap.

Sunday, September 9, 2007

Skorradalur

Við fórum í kotið okkar um helgina, nærri mánuður síðan við vorum þar síðast og gott að komast í frið og ró. Það rigndi hraustlega á laugardaginn og notalegt að heyra regnið dynja á þakinu. Í dag var aftur á móti yndislegt veður, logn og hlýtt. Við tókum upp kartöflur, fengum líklega svipað upp eins og við settum niður en gaman að því samt. Við tíndum líka slatta af hrútaberjum og nú er búið að sulta og leggja í jólavínið.
Vikan sem leið var ólíkt slakari en sú þar á undan. Skipulag komið á og stressið að minnka. Maggý leið vel þessa viku og á föstudagskvöldið var matarboð hjá Siggu því það er nauðsynlegt að hafa eitthvað til að hlakka til meðan meðferðin stendur yfir. Við enduðum á Kringlukránni en ég var ekki í miklu stuði, músíkin ekki dansvæn að mínu mati og fórum við því snemma heim. Maggý fer á morgun í annað sinn og vonandi verður hún hressari núna en síðast.
Brandur kom í land á fimmtudagskvöldið og þar sem ég var að passa Jökul fékk hann að koma með og hann var yfir sig glaður að fá að sjá skipið hans afa og mátti ég hafa mig alla við að halda í við hann á hlaupum um skipið. Hann er orðinn frár á fæti sá litli sem nálgast nú 3ja ára afmælisdaginn sinn. Úff hvað tíminn er fljótur að líða. Það er eins gott að njóta líðandi stundar og geyma ekki til morguns það sem maður hefði getað gert í gær.
Snædís er byrjuð í hjúkrunarnáminu og hæstánægð, fór í nýnemaferð á föstudaginn og kom heim niðurrignd úr Heiðmörkinni. Örvar Andri fór norður þriðju helgina í röð svo ekki þvælist hann mikið fyrir okkur um helgar. Sennilega finnst honum gott að losna við gamla settið og tuðið.
Þá er bara að setja sig í stellingar fyrir næstu vinnuviku og muna að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi og syngja hástöfum á leið í vinnuna eins og Edda Björgvins sagði okkur að gera en hún hélt fyrirlestur í Engjaskóla á þriðjudaginn um það hvernig við gætum þjálfað okkur í að vera skemmtileg og kát. Ég söng hástöfum með Ragga Bjarna alla leiðina morguninn eftir og þann næsta líka og ég er ekki frá því að þetta virki. Reyni aftur á morgun.

Sunday, September 2, 2007

Afmæli hjá Daníellu

Ég hef bara verið dugleg í dag, vaknaði snemma og dundaði mér við að búa til hveitiblöðrur fyrir nemendur mína. Þeim finnst róandi að hafa þá í hendinni þegar þeir eru eitthvað stressaðir. Sennilega þarf ég líka á því að halda miðað við hvernig síðasta vika var í nýja starfinu. en vonandi verður næsta vika rólegri, skipulagið svona nokkurn veginn komið í lag.Því næst fór ég niður í geymslu og tók til þar, fyllti bílinn af drasli, flokkuðum dósum og flöskum og renndi með það í sorpu. Ég held svei mér þá að ég sé duglegri síðan ég byrjaði á þessu bloggi því eitthvað verður maður að hafa að segja.Eftir tiltektina fór ég til Maggýjar og við skunduðum í Ikea til að kaupa kommóðu fyrir Magna en hann er að byrja í Lögregluskólanum á morgun. Við komum klyfjaðar úr Ikea af ýmsu dóti sem við ætluðum ekki að kaupa en var allt hið mesta þarfaþing nema það sem ég þarf að skila aftur á morgun þar sem það passaði ekki.Því næst lá leiðin til Keflavíkur en þar var verið að halda upp á afmælið hennar Daníellu en hún átti reyndar afmæli 5. ágúst og þá vorum við á Siglufirði og héldum upp á það þar með stjúpfjölskyldunni. Það var glatt á hjalla í Heiðarbólinu og mér tókst að kenna Jökli að klippa og nú er spurning hvort mér verður þakkað það ef hann klippir kannski eitthvað annað en hann má klippa.Ég tók svo Viktoríu með mér í bæinn og setti hana upp í rútu til Stokkseyrar og fór svo heim bara nokkuð ánægð með afköst helgarinnar. Snædís var komin heim heilu og höldnu eftir ánægjulega ferð í Vestur - Hópið en stjúpbarnabarnið er ekki enn farið að láta sjá sig úr Siglufjarðarheimsókninni. en vonandi skilar hann sér.Veðrið var frábært í dag, sólskin og 14 stiga hiti svo haustið er ekki alveg brostið á ennþá eins og ég hélt í gær. Og nú er bara að horfa með bjartsýni til komandi vinnuviku.

Saturday, September 1, 2007

1. september

Það hefur verið nóg að gera þessa viku eins og þá síðustu. Enginn tími til að láta sér leiðast.
Ég vona að nú sé búið að sníða flesta vankanta af í skólanum og flestar stundatöflur komnar í lag. Fólk skrifaði undir vinnuskýrslur í gær svo vonandi eru allar breytingar yfirstaðnar. Ég er vonandi að komast inn í nýja starfið, búin að þreyta frumraun í að standa upp á starfsmannafundi og lifði það af. Varð auðvitað eldrauð í framan en hugsaði bara hvað það væri gott til varnar hrukkumyndun og sýnir að ég er ekki dauð úr öllum æðum. Í gærkvöldi var partý til að hrista hópinn saman fyrir veturinn en ég var alveg búin á því og fannst ég bara þurfa næði til að leggjast fyrir framan sjónvarpið semég og gerði.
Seinnipart dags hef ég svo farið til Maggýjar sem var furðu brött daginn eftir lyfjagjöfina, fölsk orka vegna steranna, en var svo mjög slæm miðvikudag og fimmtudag. Í gær var hún svo miklu brattari og við fórum í Rúmfatalagerinn til að kaupa nýja rúllugardínu og fleira og síðan fórum við í matvörubúð og hún gat keypt eitthvða sem hana langaði til að borða svo þetta er allt að koma í bili. Sem betur fer fer hún á tveggja vikna fresti fyrstu 3 skiptin svo hún fær lengri tíma til að jafna sig á milli svona fyrst. Stella og Haddi komu með Magna á þriðjudaginn svo hún hefur haft fullt af fólki í kringum sig. Magni fékk inngöngu í Lögregluskólann í gær svo hann verður hér til áramóta en hann tók sér frí frá körfuboltanum í Hólminum til að geta verið til staðar fyrir mömmu sína meðan þetta gengur yfir. Við kláruðum að taka það sem eftir var í Rjúpufellinu á fimmtudag svo nú er það frá og tilheyrir fortíðinni og bara horft til framtíðar.
Snædís og Fannar fóru norður í sveitina til ömmu hans Fannars í gærkvöldi og verða þar um helgina og Örvar fór norður á Siglufjörð svo það er rúmt um okkur Púka núna en frekar dauflegt. Brandur er kominn eitthvað norður í haf, búinn að draga Bjarna Sæm til Akureyrar en hann missti stýrið í upphafi vikunnar og var dreginn til Ísafjarðar. Þeir á Árna þurftu því að stökkva óvænt út á sjó til að klára verkefnið þeirra.
Spilaklúbburinn hittist heima hjá Önnu Margréti á miðvikudaginn, alltaf jafngaman og gott að hittast og spila og borða saman, gefur lífinu lit. Ég hvorki vann né tapaði, var í miðjumoðinu eins og við köllum það. En það er gott að geta hist og spjallað og hlegið hver að annarri og gleymt okkur smástund.

Sunday, August 26, 2007

26. ágúst sólskinsdagur

Það er rétt sem ég heyrði í útvarpinu í vikunni að sumarið ætlar að dragast fram á haust. Sólin skín enn og hitastigið í kringum 15 stig. Við ákváðum að vera heima þessa helgi, man ekki hvenær við vorum síðast heima um helgi, og kominn tími á tiltekt og rólegheit. Um síðustu helgi fórum við á danska daga í Stykkishólmi með Maggý, Siggu á Grund og honum Guðmundi , hundinum hennar Siggu. Við fengum gistingu hjá Magna á Víkurvegi 3 og breyttum húsinu í kaffihús á laugardeginum. Þar var frekar þröngt því auk Magna og löggunnar sem hefur leigt húsið í sumar voru tvær aðrar löggur búnar að fá næturgistingu sem við vissum ekki um. Þarna voru því auk okkar fjögurra, fjórar löggur og þrír hundar, þar af einn fíkniefnahundur. Það var því dálítið bras að finna öllum rúm til að sofa í sem endaði með því að Magni lá á eldhúsgólfinu á loftlausri vindsæng þegar ég skreið á fætur á laugardagsmorguninn að gera klárt til að steikja kleinur. Við Sigga steiktum 250 úrvalskleinur á mettíma og Maggý hengdi alla ullorsokkana sem hún var búin að prjóna á snúru utan á húsið. Við skreyttum húsið í dönskum stíl eins og flestir Hólmarar voru búnir að gera, rauð og hvít jólasería, rauðar rellur og danskir fánar og svo töluðum við auðvitað dönsku alla helgina, eða þannig. Það var nú ekki mikil örtröð í kleinusölunni enda vorum við ekki í aðalgönguleiðinni þótt við værum rétt við miðbæinn. Þegar leið á daginn leist Siggu ekkert á umsvifin og batt á sig körfu sem við fylltum af kleinum og Maggý setti glös og kaffikönnu í tösku og svo örkuðu þær af stað í bæinn að selja gestum og gangandi. Ég varð eftir og passaði húsið enda enginn sölumaður eins og allir vita, held að ég hafi selt 4 kleinur eða svo. Þær seldu grimmt vinkonurnar og Brandur fylgdi þeim eftir og filmaði þær án þeirrar vitundar. Um kvöldið fannst samt Stellu systur minni við lítið hafa borið úr býtum og heimtaði að fara með körfuna út á tjaldstæði. Haddi keyrði hana þangað því ekki þorði ég að fara með henni og vinkonurnar orðnar lúnar. Stella kom heim eftir korter og búin að selja 100 kleinur og það er augljóst að sölumannshæfileikarnir eru henni í blóð bornir en örverpið hefur ekki fengið mikið af þeim. Um kvöldið ákváðum við Brandur að skella okkur til Ólafsvíkur og pöntuðum gistingu í Hruna því ekki leist okkur á að sofa aftur á vindsænginni sem við sváfum á fyrri nóttina. Þar var tekið vel á móti okkur og héldum við vöku fyrir þeim fram eftir nóttu og var húsmóðirin í Hruna orðin ansi framlág þegar við leyfðum henni loksins að fara að sofa. Eftir staðgóðan morgunverð í boði þeirra hjóna fórum við niður í Lindarholt og tókum hús á Stellu og Hadda og fengum ennþá meira að borða. Veðrið var mjög gott alla helgina en samt albest á sunnudeginum, glampandi sól og heiðskír himinn og ákváðum við því að keyra yfir Jökulháls,
Mér fannst tími til kominn að ég kæmist upp að Jökli þar sem ég bjó við rætur hans fram að tvítugu en aldrei farið upp að honum áður. Nú væri ekkert til fyrirstöðu að fara þar sem við værum komin á jeppa en ég uppgötvaði fljótt að það þarf engan jeppa til að fara þarna yfir, rennifæri og lítill Jaris fór á undan okkur yfir. Útsýnið var stórfenglegt ofan af hálsinum og ég er ekki frá því að við höfum grillt í austurströnd Ameríku í vestri!!!
Þessi ferð toppaði sumarið sem hefur þó verið mjög skemmtilegt og nú get ég alla vega státað af því að hafa komið upp að Jökli. Hann er nú samt orðinn svipur hjá sjón, því hann hefur minnkað mikið síðan ég átti heima á þessum slóðum. Næsta sumar ætlum við svo að fara aftur og fara þá upp frá Arnarstapa til að sjá betur útsýnið til norðurs, kannski sé ég þá Norðurpólinn ef vel viðrar.
Vikan sem nú er á enda er búin að vera annasöm enda ekki á hverju hausti sem ég fæ deildarstjórastöðu í hausinn þegar ég mæti til vinnu. Ég þurfti að vekja upp fullt af sofandi heilasellum til að ná að skipuleggja sérkennsluna og koma mér inn í það að þurfa að hugsa um eitthvað annað en sjálfa mig en vonandi er þetta að mestu komið af stað og sem flestir sáttir.
Það er reyndar erfitt að gera öllum til hæfis og sérstaklega kennurum.
Vikan fór líka í flutninga með Maggý en hún fékk nýju íbúðina sína á mánudaginn og vinir og vandamenn hjálpuðust að við þrífa og flytja með henni. Á morgun byrjar hún í lyfjameðferð og við vinkonur hennar erum búnar að stofna stuðningshóp í kringum hana sem kallast Þúfutittlingarnir og ætlum að skiptast á við að hjálpa henni í gegnum hana. Hún stendur þetta örugglega af sér eins og allt annað en sem betur fer á hún traustan og góðan vinahóp sem stendur með henni í stríðu og blíðu. Núna erum við að fara að sækja hana austur að Sólheimum en þar er hún búin að vera síðan á fimmtudag í boði Bergmáls sem er líknarfélag sem Kolbrún Karlsdóttir frænka okkar stjórnar.

Thursday, August 16, 2007

16. ágúst

Þá er vinnudagur 2 á enda. Það er nóg að gera við að skipuleggja sérkennsluna og heilinn fullnýttur eftir daginn. Eftir svona frí þarf maður að þjálfa sig upp í að hugsa á ný eða réttara sagt skipuleggja hugsanir sínar. Í morgun hélt Lone Jensen fyrirlestur um það hvernig við getum haft það skemmtilegt í vinnunni. Vakti mann til umhugsunar um hvað það er mikilvægt að hafa gaman af því sem maður er að gera og að velja sér viðhorf sem vænlegt er til árangurs. Hún byrjaði á því að segja eftirfarandi brandara vegna þess að hún er dönsk og talar ekki alveg kórrétta íslensku.
Íslendingur og Dani hittust á bar og drakk Íslendingurinn ótæpilega eins og hans var von og vísa. Dananum leiddist þetta og hafði orð á því honum fyndist Íslendingurinn orðinn ógeðslega fullur. Íslendingurinn játti því og sagði: En kæri vinur á morgun verð ég orðinn eðlilegur aftur en þú verður ennþá Dani!!
Og nú ætlum við að vera alveg ofboðslega skemmtileg í vinnunni í vetur, dansa conga í frímínútum, henda hlaupköllum hvert í annað og mæta alltaf með rétt viðhorf á morgnana, brosandi út að eyrum og ekkert væl um léleg laun, erfiða nemendur eða annað sem við venjulega látum fara í taugarnar á okkur. En svo er annað mál hvernig við verðum þegar við komum heim til okkar heittelskaða á kvöldin, kannski verðum við þá búin að fá nóg af skemmtilegheitunum og verðum að fá útrás á fjölskyldumeðlimunum. En sem betur fer hef ég þó alltaf spilaklúbbinn af og til til að skeyta skapi mínu á.
Í gærkvöldi var spilað í Álmholtinu hjá Önnu Eym. Þar var kínverskt þema í gangi og var undirrituð klædd í kínverskan slopp strax við komu. En ekki veit ég hvort geitungurinn sem læddi sér í sherryglasið hennar Önnu var kínverskur eður ei en alla vega beit hann vel frá sér þegar Anna ætlaði að stela sherryinu frá honum. Upphófust mikil læti sem geitungurinn slapp ekki lifandi frá en sem betur fer gerði Anna það þótt um tíma minnti hún mjög á eina af okkar elstu teiknimyndapersónum hann Andrés önd. Eftir leit á netinu um geitungabit var vel fylgst með hvort hún fengi tárabjúg, nefrennsli eða andþyngsli en sem betur fer bar ekki á slíku. En spilamennskan gekk ekki sem skyldi hjá henni og gott að geta kennt æðvængjunni um. Ég slapp sem betur fer við geitunginn sem elti mig um allan garðskálann og reyndi að ná frá mér sherryinu mínu og dugði ekki einu sinni að ota að honum baneitruðum sígarettureyk sem hingað til hefur þó reynst ágætis vörn gegn ýmsum aðskotadýrum.
Það sem eftir lifði kvölds skemmtum við okkur ágætlega, sumir betur en aðrir, þ.e.a.s. þeir sem unnu, þeir tapsáru sleiktu sárin fram eftir nóttu en hugguðu sig við að tap í spilum vísar á óendanlega hamingju í ástamálunum.
Í dag fór ég á fund hjá Maggý frænku minni en þar var verið að skipuleggja för okkar og siggu á Grund á danska daga í Stykkishólmi en þar ætlum við gerast sölukonur miklar, selja ullarsokka, kleinur og kaffi en samt aðallega skemmta okkur og tala dönsku út í eitt. Skemmtilegir gestir fá svo kannski gammel dansk og vísnasöng á bak við. Var það ekki þannig hjá dönsku kaupmönnunum í gamla daga? Salan fer fram í húsinu hans Magna (Maggýjarsonar)og erum við með sérstakt leyfi frá sýslumanni enda Magni lögga og leigjandi hússins líka lögga. Við verðum því undir sérstakri lögregluvernd allan tímann. Brandur fær að koma með og vera kaffikarl og sendill eða hvað annað sem okkur dettur í hug að munstra hann í, hann er öllu vanur a.m.k. síðan hann giftist mér. Nóg að sinni kæru lesendur ef þið hafið nennt að lesa svona langt.

Wednesday, August 15, 2007

15. ágúst Sumarleyfi lokið

Þá er sumarleyfinu lokið og fyrsti vinnudagurinn á enda. Alltaf gaman að hitta vinnufélagana aftur en þvi miður er vinkona mín og yfirmaður í sérkennslunni hún Kristín Björk búin að ráða sig sem skólastjóra vestur á Snæfellsnesi. Ef enginn sækir um stöðuna hennar verð ég líklega að taka við og það er svo semengin óskastaða því mér lætur betur að sinna bara minni kennslu og þurfa ekki að hafa áhyggjur af öðrum en sjálfri mér. Annars er allt gott og blessað, enn einn sólskinsdagurinn í viðbót á þessu sólríka sumri og allir glaðir og kátir. Við fórum í Skorradalinn um síðustu helgi. við tíndum slatta af bláberjum og nutum svo bara lífsins laus við allt stress. Við buðum svo Maggý og vinum okkar Kollu og Jóni í mat á mánudagskvöldið. Þurftum að koma út lambalæri sem var búið að bíða í ísskápnum síðan um Verslunarmannahelgi eftir að vera borðað. Á eftir var skyr með bláberjum og rjóma vo þjóðlegra gat þetta ekki verið.
Nú er bara að fara ða undirbúa sig fyrir næstu helgi en við Maggý ætlum að fara á danska daga í Stykkishólmi, búa heima hjá Magna og selja þar ullarsokka og kleinur. Það verður örugglega mikið fjör eins og alltaf þegar Maggý er annars vegar.
Í kvöld verður spilað hjá Önnu Eymunds í Álmholtinu svo það er nóg að gera.

Tuesday, August 14, 2007

Sú gamla byrjuð að blogga

Þá er gamla konan byrjuð að blogga. Alltaf gaman að læra eitthvað nýtt. Síðasti dagur sumarfrísins í dag og ennþá sumar og sól og ég búin að vera innipúki í allan dag, bjó til berjasultu, saumaði út og tók á móti gestum. Þetta sumar hefur verið einstakt og mjög skemmtilegt.