Saturday, September 1, 2007

1. september

Það hefur verið nóg að gera þessa viku eins og þá síðustu. Enginn tími til að láta sér leiðast.
Ég vona að nú sé búið að sníða flesta vankanta af í skólanum og flestar stundatöflur komnar í lag. Fólk skrifaði undir vinnuskýrslur í gær svo vonandi eru allar breytingar yfirstaðnar. Ég er vonandi að komast inn í nýja starfið, búin að þreyta frumraun í að standa upp á starfsmannafundi og lifði það af. Varð auðvitað eldrauð í framan en hugsaði bara hvað það væri gott til varnar hrukkumyndun og sýnir að ég er ekki dauð úr öllum æðum. Í gærkvöldi var partý til að hrista hópinn saman fyrir veturinn en ég var alveg búin á því og fannst ég bara þurfa næði til að leggjast fyrir framan sjónvarpið semég og gerði.
Seinnipart dags hef ég svo farið til Maggýjar sem var furðu brött daginn eftir lyfjagjöfina, fölsk orka vegna steranna, en var svo mjög slæm miðvikudag og fimmtudag. Í gær var hún svo miklu brattari og við fórum í Rúmfatalagerinn til að kaupa nýja rúllugardínu og fleira og síðan fórum við í matvörubúð og hún gat keypt eitthvða sem hana langaði til að borða svo þetta er allt að koma í bili. Sem betur fer fer hún á tveggja vikna fresti fyrstu 3 skiptin svo hún fær lengri tíma til að jafna sig á milli svona fyrst. Stella og Haddi komu með Magna á þriðjudaginn svo hún hefur haft fullt af fólki í kringum sig. Magni fékk inngöngu í Lögregluskólann í gær svo hann verður hér til áramóta en hann tók sér frí frá körfuboltanum í Hólminum til að geta verið til staðar fyrir mömmu sína meðan þetta gengur yfir. Við kláruðum að taka það sem eftir var í Rjúpufellinu á fimmtudag svo nú er það frá og tilheyrir fortíðinni og bara horft til framtíðar.
Snædís og Fannar fóru norður í sveitina til ömmu hans Fannars í gærkvöldi og verða þar um helgina og Örvar fór norður á Siglufjörð svo það er rúmt um okkur Púka núna en frekar dauflegt. Brandur er kominn eitthvað norður í haf, búinn að draga Bjarna Sæm til Akureyrar en hann missti stýrið í upphafi vikunnar og var dreginn til Ísafjarðar. Þeir á Árna þurftu því að stökkva óvænt út á sjó til að klára verkefnið þeirra.
Spilaklúbburinn hittist heima hjá Önnu Margréti á miðvikudaginn, alltaf jafngaman og gott að hittast og spila og borða saman, gefur lífinu lit. Ég hvorki vann né tapaði, var í miðjumoðinu eins og við köllum það. En það er gott að geta hist og spjallað og hlegið hver að annarri og gleymt okkur smástund.

No comments: