Sunday, September 9, 2007

Skorradalur

Við fórum í kotið okkar um helgina, nærri mánuður síðan við vorum þar síðast og gott að komast í frið og ró. Það rigndi hraustlega á laugardaginn og notalegt að heyra regnið dynja á þakinu. Í dag var aftur á móti yndislegt veður, logn og hlýtt. Við tókum upp kartöflur, fengum líklega svipað upp eins og við settum niður en gaman að því samt. Við tíndum líka slatta af hrútaberjum og nú er búið að sulta og leggja í jólavínið.
Vikan sem leið var ólíkt slakari en sú þar á undan. Skipulag komið á og stressið að minnka. Maggý leið vel þessa viku og á föstudagskvöldið var matarboð hjá Siggu því það er nauðsynlegt að hafa eitthvað til að hlakka til meðan meðferðin stendur yfir. Við enduðum á Kringlukránni en ég var ekki í miklu stuði, músíkin ekki dansvæn að mínu mati og fórum við því snemma heim. Maggý fer á morgun í annað sinn og vonandi verður hún hressari núna en síðast.
Brandur kom í land á fimmtudagskvöldið og þar sem ég var að passa Jökul fékk hann að koma með og hann var yfir sig glaður að fá að sjá skipið hans afa og mátti ég hafa mig alla við að halda í við hann á hlaupum um skipið. Hann er orðinn frár á fæti sá litli sem nálgast nú 3ja ára afmælisdaginn sinn. Úff hvað tíminn er fljótur að líða. Það er eins gott að njóta líðandi stundar og geyma ekki til morguns það sem maður hefði getað gert í gær.
Snædís er byrjuð í hjúkrunarnáminu og hæstánægð, fór í nýnemaferð á föstudaginn og kom heim niðurrignd úr Heiðmörkinni. Örvar Andri fór norður þriðju helgina í röð svo ekki þvælist hann mikið fyrir okkur um helgar. Sennilega finnst honum gott að losna við gamla settið og tuðið.
Þá er bara að setja sig í stellingar fyrir næstu vinnuviku og muna að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi og syngja hástöfum á leið í vinnuna eins og Edda Björgvins sagði okkur að gera en hún hélt fyrirlestur í Engjaskóla á þriðjudaginn um það hvernig við gætum þjálfað okkur í að vera skemmtileg og kát. Ég söng hástöfum með Ragga Bjarna alla leiðina morguninn eftir og þann næsta líka og ég er ekki frá því að þetta virki. Reyni aftur á morgun.

No comments: