Þá er veturinn farinn að minna á sig. Hvítur kollur á Esjunni og Hengillinn og Bláfjöllin hvít. Það snjóaði á Hellisheiði í gær þótt það rigndi duglega hér niðri í byggð. Vikan var tíðindalítil, engin stórafrek, bara unnið og sofið. Við vorum heima um helgina, þrif og þvottar tóku mestan tíma og smáprjónaskapur. Við Maggý skruppum á flóamarkað hjá líknarfélaginu Bergmáli en þar stóð Kolla frænka galvösk og seldi geymsludót frá Eddu Björgvins. Ég fjárfesti í heilli flugstöð sem Gísli Rúnar hafði eignast sem barn og nú er bara að ákveða hvort ég hef herlegheitin hér heima eða leyfi skjólstæðingum mínum í Engjaskóla að leika sér að þeim. Eftir flóamarkaðinn fórum við Brandur í Skorradalinn og gegnum frá fyrir veturinn, ísskápurinn tæmdur og vatnið tekið af. Það er því ekki hætta á að það verði frostskemmdir þar á næstunni.
Það var ansi kalt að koma í kotið, 5° hiti og þótt ég færi í ullarhempuna frá Álafossi þá náði ég ekki upp hita meðan við stoppuðum þar. Ég held að mér hafi ekki orðið kalt síðan í fyrravetur, þetta er búið að vera svo frábært sumar. En hér í Grýtubakkanum er vel heitt og mér er því farið að hlýna aftur innvortis. Nú er bara að gera sig kláran fyrir næstu vinnuviku, andlega sem líkamlega og muna að takast á við allt með jákvæðu hugarfari. Bara að muna að syngja hástöfum alla leið í vinnuna og koma sér í gott skap.
Sunday, September 16, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment