Saturday, October 13, 2007

Húsmæðraorlof í Kaupmannahöfn







Um síðustu helgi fór ég í helgarferð til Kaupmannahafnar með Önnu Margréti og Siggu Haralds. Við hittum Ninnu þar en hún var í vinnuferð, á ráðstefnu norrænna sérkennara. Við lentum um hádegi á föstudag og drifum okkur á Hotel Tiffany sem er staðsett rétt hjá járnbrautarstöðinni. Gamalt og notalegt, fengum morgunverðinn í ísskápinn og ný rúnnstykki á hurðarhúninn á morgnana. Þar sem þetta var menningarreisa en ekki verslunarferð drifum við okkur á Strikið til að skoða menninguna en ekki í búðir. Veðrið var himneskt, 15 stiga hiti og glaðasólskin. Mannlífið var fjölbreytt, ungt fólk sem hafði valið kannski miður góða leið í lífinu og eyddi því í gluggaskotum með álpappír og sprautur í hendi, listafólk að leika og spila fyrir fólk í von um að fá smáaur fyrir lífsnauðsynjum, rónar að rísa upp úr sínu næturfleti og svo allt hitt ¨venjulega¨fólkið sem maður tekur kannski ekkert sérstaklega eftir. Við settumst inn á veitingastað og fengum okkur smörrebröd og bjór og héldum svo áfram að rölta þar til tími var kominn til að fá sér kvöldverð og þá snöruðum við okkur inn á Böf og ost og fengum okkur dýrindis krónhjartarsteik, sérstaklega fyrir Þórarinn. Ekki var nú úthaldið mikið því við vorum komnar heim á hótel upp úr 9 og sofnaðar fyrir 10, alla vega sumar.
Á laugardagsmorguninn var ég vakin og þá var búið að útbúa morgunverðarborð enda vön því að fá slíka þjónustu á morgnana og þess vegna alveg sjálfsagt að veita mér hana. Síðan var arkað af stað og nú var stefnan tekin á markað við Israelsgade. Þar var fjörugt mannlíf, margir eigulegir munir og margt að skoða. Ég stóðst ekki forláta saumakassa úr tré, gamlan en vel með farinn og ekki var verra að hann var fullur af gömlu saumadóti frá fyrri eiganda og því algjör fjársjóður. Ég fékk ekki poka utan um gripinn og seljandinn sagði mér að nú hefði ég bara eignast nýmóðins handtösku svo ég spókaði mig með saumakassann i hendinni það sem eftir lifði dags og fannst ekkert athugavert við það en hafði á orði að sennilega hefði ég ekki gert þetta á Laugaveginum hér í borg. Svona verður maður slakur í útlöndum og fullur sjálfstrausts. Þegar við vorum búnar að fá nóg af þessu og búnar að fjárfesta í mörgum eigulegum gripum, jólaskeiðum, hringum, nælum, armböndum, klukkum og fleiru, fórum við aftur á Strikið. Kíktum aðeins í búðir en aðaláherslan var lögð á að borða og fá sér gott hvítvín. Sátum í sólinni fyrir utan eitthvað kaffihús og liðkuðum málbeinið. Að því loknu fórum við aðeins í H og M og þukluðum aðeins á nokkrum flíkum og stormuðum svo heim á hótel að gera okkur klárar fyrir kvöldverð og losa okkur við saumakassann og hitt dótið.
Við borðuðum á Peder Okse með Ninnu, Heiðveigu og Ragnheiði úr Mosó og nú var það villiandarsteik sem mér fannst nú frekar lítilmótleg eftir krónhjartarsteikina kvöldið áður. En salatbarinn var fínn og félagsskapurinn góður og það er fyrir öllu. Um miðnættið röltum við heim, komum við á einum bar og hlustuðum á tónlist og hlógum og skemmtum okkur. Síðan var strikið tekið heim og enn voru vinir okkar í gluggaskotunum að nota sína leið til að skemmta sér en það sem var merkilegt að við fundum ekki fyrir ótta að vera að ganga þarna einar í gegnum skuggahliðar mannlífsins en ég myndi ekki þora að gera þetta hér heima. Við fundum heldur ekki fyrir þessum hraða og stressi sem er hér heima, en kannski vorðum við bara svona slakar og gerðum okkur ekki grein fyrir neinum hættum.
Á sunnudagsmorgun voru rúnnstykkin komin á húninn og borðuð með bestu lyst og svo drifum við okkur út á flugvöll, allt of snemma, en gátum rölt þar um og keypt svolítið af jólagjöfum.
Lentum um hálfþrjú í Keflavík í glaðasólskini, kátar og hressar og alsælar með húsmæðraorlofið.
Ég keyrði svo Siggu heim og kom við hjá Önnu Eym með smásárabót fyrir að komast ekki með og þar endaði ég í þríréttuðum kvöldverði a la Þórarinn. Ekki slæmur endir á frábærri helgi.
Vinnuvikan var svo framundan og ég mætti með öll batterí hlaðin á mánudagsmorgun og hellti mér út í vinnuna og svo var vikan liðið áður en ég vissi af. Nú á ég von á Maggý og nokkrum vinkonum í súpu og bænastund svo nú verð ég að hætta þessu.

1 comment:

Anna said...

Ég læt mig ekki vanta þegar næsta húsmæðraorlof verður tekið!! hvort sem það verður innanlands eða utanlands. Við gætum líka tekið í spil :)
Anna.