Maggý hélt upp á fimmtugsafmælið sitt á laugardaginn eins og henni er einni lagið. Veislan var haldin í sal Framsóknarmanna í Kópavogi og þar var þétt setinn bekkurinn af ættingjum og vinum. Nóg af mat og drykk og skemmtiatriðum. Við vinkonurnar, sem köllum okkur Þúfutittlingana hennar Maggýjar, sungum með henni uppáhaldslagið hennar um þessar mundir sem heitir Lífið er svo stutt og er eftir Magnús Kjartansson. Textinn er um konu sem gengur illa að finna draumaprinsinn þótt nóg sé af allrahanda prinsum með bakpoka sem alltaf geta flutt. Hún getur líka alltaf flutt og fundið sér nýjan. Skrýtið!! Hann Óli í Öskjuhlíðarskóla spilaði undir á harmonikku en hann sá um tónlistina í veislunni með miklum glæsibrat. Við dönsuðum líka línudans og tókum að lokum upp3 herramenn, þá Hákon, Þorstein og Skúla, og kenndum þeim að dansa en þeir voru frekar lélegir nemendur en þeim mun skemmtilegri.
Ungarnir hennar Maggýjar voru líka með skemmtiatriði og slógu rækilega í gegn. Þau blístruðu, dönsuðu og sungu af mikilli innlifun og tóku sér góðan tíma á sviðinu. Sérstaklega naut Herra Janúar og fyrrum Herra Vesturland sín vel í þessu hlutverki og leiddist ekki athyglin. Þeir bræður sýndu meistaratakta í dansinum og tóku ýmis flókin og skemmtileg spor. Þau enduðu svo á Superman atriði sem náði öllum gestunum úr sætunum og var virkilega gaman að sjá hvað allir gleymdu sér við að klóra sér, veifa og fara á skíði, svo hressilega tóku sumir þátt að rauðvínsglös fengu að fjúka.
Helga Björk Kolludóttir og Jóns sá um veislustjórn og söng líka fyrir Maggý hið frábæra lag Leonards Cohen, Hallelúja með íslenskum texta. Hún stóð sig með prýði þótt ekki væri gott að hafa stjórn á skemmtikröftum. Það var kannski það sem gerði þetta allt svo skemmtilegt að allt var leikið af fingrum fram og bara aukaskemmtiatriði þegar eitthvað fór eins og það átti ekki að fara.
Um tvö voru fáir eftir en þeir skemmtu sér þeim mun betur og þurftum við að lokum að taka hljóðkerfið úr sambandi til að fá gítaristann, Jón hennar Helgu og bræðurna og vini þeirra til að hætta að syngja. Við ætluðum nefnilega að enda partýið á Catalinu sem var þarna rétt hjá. Þangað stormaði svo hersingin syngjandi (kannski ekki við fögnuð íbúa Hamraborgar) en Catalinumenn glöddust örugglega við komu okkar því þar var frekar fámennt áður en við komum, nokkrir Pólverjar sem glaðnaði held ég líka yfir við komu okkar. Þarna var fín músík við okkar hæfi og var dansgólfið hertekið og það glaðnaði örugglega líka yfir tónlistarmanninum sem þarna sat og spilaði og söng. Hann tók meira að segja aukalög fyrir okkur því við vorum svo skemmtileg.
Aðalskemmtiatriðið var samt frekar óundirbúið. Pínulítill Pólverji bauð mér upp í dans og upphófst þá mjög sérstakt dansatriði sem endaði með því að Pólverjinn teygði sig upp og reyndi að snúa mér allhressilega en þar sem hæðarmunur var töluverður tókst ekki betur til en svo að ég endaði á gólfinu og úti í vegg. Aumingja Pólverjinn varð mjög miður sín og hvarf að dansgólfinu eftir margar afsökunarbeiðnir en mér tókst að standa upp og komast í sætið og auðvitað fannst þessum góðu félögum mínum atriðið toppurinn á kvöldinu, allavega þegar ljóst var að gamla konan var óbrotin og heil á húfi. Eftir þetta óvænta skemmtiatriðivar haldið heim og allir rosalega ánægðir með afmælisveislu aldarinnar. Snemma á sunnudagsmorguninn fórum við svo og þrifum salinn, bárum heim allar gjafirnar og afganginn af matnum sem dugði til að metta 100 manna starfslið Öskjuhlíðarskóla á mánudeginum. Eftir það var sest við að horfa á allar myndirnar sem Hafsteinn tók í afmælinu og myndbandsupptöku af öllum skemmtiatriðunum (sem betur fer var upptökustjórinn ekki með á Catalinu) og endurupplifðum við allt gamanið og sáum að það var alveg rétt sem við höfðum haldið, allir höfðu skemmt sér rosalega vel.
Í dag er svo rigning og rok og allt fjúkandi út um allt en það er bara hressandi og gott að lauma sér í náttfötin og leggjast í Lazyboy og rifja upp skemmtilega helgi.
Monday, October 22, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment