Thursday, October 18, 2007

Nóg að gera

Það er nóg að gera þessa dagana. Undirbúningur fyrir fimmtugsafmæli Maggýjar í fullum gangi.
Við fórum og skreyttum salinn í gær eftir söngæfingu með harmonikkuleikaranum, honum Óla sem er tónmenntakennari í Öskjuhlíðarskóla. Maggý fór svo í dag og bætti um betur og setti sinn stíl á hann.
Jökull varð 3ja ára þann 10. okt og veislan var haldin á laugardaginn og þar var mikið fjör og sá stutti alsæll með hækkandi aldur. Hann var samt dálítið feiminn þegar hann var að blása á kertin með alla þessa athygli á sér. Ég gaf honum svo aukagjöf, heila flugstöð, sem ég keypti í haust á flóamarkaði hjá Bergmáli. Hún var úr eigu Gísla Rúnars leikara og þess vegna orðin fjörgömul en mér sýndist sá stutti vera alsæll með hana og pabbinn líka.
Um kvöldið fór ég með Maggý, Kollu og Jóni á tónleika í Langholtskirkju sem voru til styrktar Krabbameinsfélaginu. Þar sungu Bergþór Pálsson og Bragi sonur hans, Arndís Halla og Auður Gunnarsdóttir. Ég hef nú takmarkað gaman af kvenkyns óperuröddum en Arndís Halla hafði þvílík hljóð að við komum öll vel eyrnahreinsuð heim. Arnar Jónsson og Guðrún Gísladóttir lásu upp úr bók eftir eiginkonu Eggerts Þorleifssonar (man ekki hvað hún heitir). Þetta voru örsögur, minningabrot úr lífi hennar og það var virkilega gaman að hlusta á þær, vil gjarnan eignast þessa bók.
Á sunnudagskvöldið fékk ég Jökul í pössun og við skemmtum okkur ágætlega saman.
Vikan hefur sem sagt verið góð, lítill tími til að láta sér leiðast og nóg að gera.
Nú standa yfir samræmd próf í skólanum sem mættu alveg fara að missa sig, veit ekki hvort þau svara þeim kostnaði sem lagður er í þau. En krakkarnir tóku þessu með ró og gerðu eins vel og þau gátu og það er fyrir öllu.
Núna er ég búin að leggja kjúklingastrimla í marineringu sem ég ætla svo að þræða upp á pinna og grilla annað kvöld og vonandi verður engum afmælisgestum meint af þeim.
Fram undan er svo nýi (gamli) lazyboystóllinn og sjónvarpsgláp. Ég ætla að reyna aftur að setja inn myndir en ég er búin að gera nokkrar tilraunir og þær fara alltaf eitthvað annað en á bloggsíðuna. Vonandi eru þær ekki á flakki á netinu.

No comments: