Saturday, November 24, 2007

Húsmæðraorlof í Hálsasveit

Bara svona til að komast í jólaskap dálítið snemma.

Piparkökubakstur fyrir síðustu jól.

Kandís litli hennar Maggýjar undi sér vel með
okkur, enda eini karlmaðurinn.


Rúna Annell, Roman Anton og Kara Björk í Skógarbæ.

Jökull Máni og Viktoría Rós í heimsókn hjá ömmu og afa.

Við erum stundum eins og tvíburar frænkurnar
sérstaklega í nýju íslensku búingunum frá Stellu.


Jökull Máni flottur í tauinu.


Helgina 9.-11. nóvember fórum við Maggý í sumarbústað KÍ í Hálsasveit í Borgarfirði. Þetta var svo sannarlega húsmæðraorlof eins og það getur best verið. Við keyptum tilbúna heilsurétti sem aðeins þurfti að hita og Maggý var svo nösk í innkaupunum að við þurftum ekki að fara með neitt heim aftur. Okkur gekk dálitið illa að finna bústaðinn, sem er í landi Signýjarstaða, vorum ekki búnar að skoða kortið nægilega vel. Við byrjuðum því á því að fara heim að bænum, keyrðum eftir nýjum vegi sem var ekki upp á sitt besta en komum þá að hálfbyggðu útihúsi og leist ekki á að hafa ekki þak yfir höfuðið yfir helgina. Við bönkuðum því upp á á bænum og stórfalleg heimasæta sagði okkur að fara aðeins lengra og þá fyndum við bústaðinn. Þegar við vorum komnar þangað var ansi erfitt að sjá hvaða bústaður væri sá rétti því þeir voru allir frekar langt frá vegi og þurftum við þvi að keyra heim að þeim til að sjá númerin. Við römbuðum samt á þann rétta og komumst þá að raun um að bústaðurinn var splunkunýr en við héldum að hann væri gamall þar sem þetta var eini bústaðurinn sem var laus þessa helgi. Líklega var það vegna þess að þarna er ekki heitur pottur. En þetta er virkilega fallegt hús með fallegum húsbúnaði og mjög hlýlegur. Ekki spillti fyrir að það er langt á milli húsa og ekki var sála í hinum. Þarna ríkti því algjör kyrrð og friður og það var það sem við vorum að sækjast eftir.
Við lentum samt í smáerfiðleikum með að fá vatn í kranana en eftir nokkrar hringingar náðum við í eiganda bústaðarins sem er lögreglumaður á Akranesi og hann leiðbeindi okkur með að finna hvar skrúfað var frá vatninu. Eftirlitsmaðurinn hafði sem sagt eitthvað gleymt sér en hann kom seinna um kvöldið og tékkaði á okkur.
Eftir heilsusamlegam kvöldverð settumst með prjónana fyrir framan sjónvarpið á náttfötunum, sem við vorum reyndar í þangað til við fórum heim.
Helgin leið svo við prjónaskap og lestur og Kandís, litli hundurinn hennar Maggýjar, fékk meira að segja nýja ullarpeysu svo hann gæti farið með mér út að reykja.
Veðrið var yndislegt, logn og smáfrost og við vorum mjög ánægðar með húsmæðraorlofið.
Ég á örugglega eftir að fara aftur í þennan fallega bústað og það væri örugglega yndislegt að vera þarna yfir jólin.
Þegar við komum heim skelltum við okkur í sparifötin en Maggý bauð okkur Þúfutittlingunum í Borgarleikhúsið að sjá leikritið Dagur vonar. Við vorum mjög ánægðar með leikritið og ég man ekki eftir að hafa fyrr tárast í leikhúsi en tilþrifin voru slík að ég hef sjaldan séð áhrifameiri sýningu.
Síðasta helgi var aftur á móti ömmuhelgi. Jökull Máni fékk að vera hjá ömmu bæði laugardag og sunnudag meðan mamma og pabbi voru að vinna. Við undum okkur vel saman og ég gat ekki séð að honum leiddist neitt þótt við værum bara hérna heima í rólegheitum. Nýja þvottavélin mín fékk óspart að sanna sig en sú gamla brann yfir viku áður. Það er alltaf svo gaman að fá nýja vinnukonu á heimilið.
Í skólanum er jólastressið aðeins farið að segja til sín, ekki bara hjá börnunum heldur hjá okkur fullorðna fólkinu líka. Við þurfum að gæta þess að láta ekki áreitið hafa áhrif á okkur heldur njóta þess að vera til. Reyndar er ég komin af stað með jólahreingerningar, búin að taka eldhúsið í gegn, fékk reyndar utanaðkomandi hjálp til að koma mér í gang en öll hjálp er alltaf vel þegin. Nú er mánuður til jóla og þetta verða gleðileg jól þar sem öll fjölskyldan verður hér samankomin á aðfangadagskvöld og langt síðan það hefur gerst. Við hlökkum mikið til að hafa útlagana okkar aftur hérna á jólum.
Jói, Guðrún, Viktoría og Jökull komu í heimsókn í morgun og fengu nýbakaðar jólasmákökur úr Bónus. Þau eru að fara um næstu helgi til Boston og voru að fá lánaðar töskur undir allan varninginn sem þau ætla að kaupa. Vonandi verða tollararnir góðir við þau þegar þau koma til baka.

No comments: