Tíminn líður hratt-á gervihnattaröld. Orð að sönnu, mér finnst ég bara alltaf vera að vakna og fara á fætur. Nóg að gera og nóg til að gleðjast yfir. Brandur er búinn að gera allt sem stóð á framkvæmdalistanum hans fyrir desember. Búinn að smíða nýja skápa í eldhúsið, setja upp hillur í stofunni og fataskáp inni hjá afadrengnum. Hann var snöggur að klára þetta þegar hann fékk að vita á föstudaginn að hann fengi að fara á vegum Hafró til Danmerkur í viku. Hann lagði af stað í morgun með hinum bátsmanninum af Árna en þeir eru að fara til Hirtshals í einhvern tank þar sem þeir geta séð hvernig hin ýmsu veiðarfæri virka. Þeir voru ógurlega spenntir þegar ég keyrði þá í morgun.
Ester og Bjarki voru hjá okkur um helgina með stelpurnar. Þau voru í jólaverslunarferð og bíllinn var orðinn svo hlaðinn hjá þeim að það leit út fyrir að Bjarki yrði að hlaupa á eftir bílnum norður þegar þau fóru í gær. Jói og Guðrún komu á sunnudagskvöldið og við borðuðum forláta kjúklingarétt sem ég töfraði fram af minni alkunnu snilld -eða þannig.
Við keyptum okkur nýtt sjónvarp á laugardaginn í Max í Hafnarfirði. Þurftum að sækja það niður í Holtagarða í nýja lagerinn þeirra sem er enn í byggingu og varla hægt að snúa við á planinu innan um gáma og drasl. Tækið var sett upp og allir voða glaðir þar til Brandur fór að skoða miðana á því og þá reyndist þetta ekki vera tækið sem við keyptum heldur ódýrari týpa. Við urðum því að pakka því niður aftur og arka aftur af stað með það og eftir smápirring og miður skemmtilegar athugasemdir í Hafnarfirði fengum við rétta tækið og reyndist verlsunarstjórinn í Holtagörðum kunna á pirraða viðskiptavini svo við fórum ánægð heim með gripinn og smásárabót. Það er sem sagt allt að verða klárt fyrir jólin, bara eftir að kaupa nokkrar jólagjafir og baka 12 sortir af smákökum !! Og nú getum við farið að hlakka til að fá jólagestina okkar frá Englandi og það verður gaman að hafa alla saman aftur á jólunum.
Jólaljós spretta upp í gluggum og görðum og lýsa upp desembermyrkrið og vonandi geta sem flestir átt gleðileg og sönn jól.
Tuesday, December 11, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment