Monday, December 1, 2008

Og senn koma jólin...

Fyrsti sunnudagur í aðventu, upplagt að halda hann hátíðlegan á náttfötunum,
alla vega um kvöldið.
Ester, Bjarki, Ástrós og Hera Björk komu í verslunarferð til Reykjavíkur um helgina.
Bjarki og Hera tóku þátt í að kveikja á aðventukransinum meðan Ester og Ástrós fóru í bíó. Bjarki var orðinn dálítið þreyttur eftir búðarápið þótt hann sé duglegur með Bin þrjú eins og allir góðir eiginmenn eiga að gera: Brosa-Borga-Bera.

Snædís kveikir á spádómskertinu, hún er nú orðin ein um það að fá að kveikja, áður voru þau þrjú sem skiptust á ogrifust pínulítið um hvar þau væru í röðinni.
Ég þakka fyrir að halda henni ennþá heima því ég veit ekki alveg hvað verður um jólasiðina þegar hún verður ekki lengur á heimilinu til að halda mér við efnið.
Við mæðgur hjálpuðumst að við að búa til hefðbundinn jólakrans,
hann er í aðventulitunum að þessu sinni.
Hvernig er þetta með tímann, líður hann alltaf hraðar og hraðar? Bara mánuður síðan ég tók niður jólaskrautið og aftur komið að því að setja það upp á ný. Ég er reyndar ánægð með að sjá jólaljósin tendruð, ekki veitir af að lýsa upp myrkrið sem er orðið dálítið svart um þessar mundir.
Jólaljósin eru komin á svalirnar og ég kveiki á kertum um leið og ég kem heim úr vinnunni. Þau færa frið í húsið. Það verður fátt hér á jólunum þar sem Dóra mín heldur sín jól í Englandi núna með sinni stóru fjölskyldu. Jói, Guðrún og Jökull ætla að vera hjá okkur svo við verðum alla vega sex við jólaborðið og eitt lítið barn til að gleðjast með. Við erum reyndar öll mikil börn þegar jólin eru annars vegar og verðum það vonandi áfram.
Annars er allt í rólegheitum hér, Brandur í veikindaleyfi og hamast í sjúkraþjálfun og sundi meðan ég er í vinnunni. Ég kem svo heim og les blöðin á meðan hann býr til matinn. Mér finnst það ágæt verkaskipting enda býr hann til miklu betri mat heldur en ég.
Það er líf og fjör í skólanum, jólastressið alveg að fara með börnin og kannski okkur líka. Við finnum líka að ástandið í þjóðfélaginu er farið að hafa sín áhrif þótt við reynum að passa að hafa skólann kreppufrían. En við þurfum samt að leyfa þeim að ræða málin og útskýra hlutina fyrir þeim, því það sem fer verst með þau er að hlusta á þetta tal um kreppu og gjaldþrot en vita í rauninni ekkert hvað það er. Það er reyndar erfitt að útskýra það sem maður skilur ekki sjálfur.
En vonandi tekst okkur að komast upp úr þessum öldudal, það þýðir ekkert annað en að horfa björtum augum til framtíðar og lifa fyrir líðandi stund og muna að það er ekki allt best sem kostar mest.



No comments: