Aðventan er búin að vera mjög skemmtileg og jólaleg. Snjórinn fékk að vera í friði í nokkra daga en í dag, aðfangadag, er hann farinn eftir rigningu og rok síðustu tvo daga. Þá förum við bara í Pollýönnuleik og gleðjumst yfir því að allir komist þangað sem þeir vilja helst vera yfir jólin. Reyndar skaust Pollýanna aftur upp á jólabókalistann og blasti við í öllum betri bókabúðum bæjarins eins og sagt er. Ég held ég fari í geymsluna og leiti að minni gömlu Pollýönnu sem ég kunni utan að sem barn eftir marga yfirlestra. Ekki veitir af visku hennar á tímum sem þessum. Best man ég eftir því hvernig hún brást við þegar kvenfélagskonurnar gáfu henni hækjur í jólagjöf þegar allt annað var búið. Þá átti hún erfitt með að finna eitthvað gleðilegt við slíka gjöf en hugsaði svo sem svo að hún gæti glaðst yfir því að þurfa ekki á þeim að halda. Vonandi getum við öll fundið eitthvað til að gleðjast yfir þrátt fyrir daprar jólagjafir frá stjórnendum þessa lands.
Á sunnudaginn fórum við í skötuveislu suður í Hafnarfjörð til Orra og Ínu. Dóra, mamma þeirra, var fóstursystir mömmu en þær ólust upp hjá fósturforeldrum vestur í Arnardal við Ísafjörð. Guðrún fósturmóðir þeirra var frænka mömmu en ég man ekki lengur hvað fósturfaðir þeirra hét. Þessi hjón áttu engin börn sjálf en ólu upp mörg fósturbörn. Þau sem litu á sig sem systkini voru mamma, Dóra, Ína (Össurína) og Karl. Amma mín, Sigríður Halldórsdóttir, var á leið í vinnumennsku með þrjár dætur sínar, mömmu sem var yngst tveggja ára, Eiríku og Jónínu sem var elst. Amma kom við hjá frænku sinni í Arnardal sem bauð henni að taka af henni yngsta barnið, Guðrúnu mömmu mína. Jónína sagði mér fyrir mörgum árum að það hefði verið sárt að skilja við systur sína grátandi og eflaust hefur það verið ömmu minni erfitt líka þótt hún hafi sennilega aldrei leyft sér að láta það í ljósi. Á þessum tímum urðu margar fátækar konur að byrgja inni allar tilfinningar því þær urðu ýmist að sjá á eftir börnum sínum á sveitina eða í dauðann. Hinar systurnar tvær fylgdu svo ömmu í mörg ár í vinnumennsku við misjafnan aðbúnað. Afi minn, Jón Ólafsson, var 30 árum eldri en amma og var orðinn blindur og óvinnufær á þessum tíma og varð eftir í Húnavatnssýslunni. Hann hafði áður farið með konu og fimm dætur til Kanada til að hefja nýtt líf en undi þar ekki og kom aftur heim en konan og dæturnar urðu eftir. Síðan hitti hann ömmu og eignaðist með henni þessar þrjár dætur. Mamma skrifaðist á við eina hálfsysturina, Jakobínu, og ég veit að eitt af barnabörnum hennar hefur komið hingað til að leita að ættingjum sínum og synir Jónínu fóru með hana í heimsókn til mömmu.
Mamma ólst upp í Arnardal ásamt fóstursystkinum sínum og bar þeim jafnan vel söguna. Hún hefði þurft að vinna eins og flest börn þurftu á þessum tíma en hún talaði alltaf vel um fóstru sína og fóstra. Mamma fór síðan sjálf í vinnumennsku þegar hún var 17 ára. Á sumrin var mamma vinnukona á Brettingsstöðum á Flatey á Skjálfanda og á veturna hjá Guðnýju og Jónatan Marteini sem var skósmiður á Akureyri. Sverrir Ragnarsson sem rekur JMJ á Akureyri er giftur Guðnýju barnabarni þeirra og þegar við Stella vorum á Akureyri í fyrra fórum við í búðina og töluðum við hann. Hann bauð okkur í kaffi heim til sín og Guðnýjar og þar hittum við gömlu konuna sem mamma hafði passað sem barn. Hún mundi óljóst eftir mömmu og einnig orgelinu sem mamma var búin að kaupa sér og byrjuð að læra á þegar hún fór í örlagaríka ferð vestur á Snæfellsnes sem endaði með því að hún fór aldrei aftur til Akureyrar og Guðný og Jónatan keyptu af henni orgelið. Fyrir það keypti hún sér saumavél sem hún taldi meiri þörf á að eiga til að geta saumað föt á barnahópinn sinn.
Eitt sumarið fór mamma sem sagt að heimsækja Eiríku systur sína sem bjó á Búðum á Snæfellsnesi og ætlaði að dvelja hjá henni í tvær vikur. Hún fór með skipi og var sett í land á Arnarstapa en þar fékk hún lánaðan hest og fékk mann úr sveitinni til að fylgja sér að Búðum. Á leiðinni sá hún hóp manna sem var að leggja veg um sveitina. Þar sá hún í fyrsta sinn pabba sem hlýtur að hafa litist vel á þessa aðkomustúlku enda sést á myndum að hún hefur verið falleg og fönguleg stúlka. Þetta leiddi til þess að mamma fór aldrei norður aftur og þessar tvær vikur urðu að ævilangri búsetu í Breiðuvík.
Mamma skrifaðist alltaf á við Guðnýju, húsmóður sína á Akureyri og sést á þeim bréfum að þar hefur verið meira um vináttu tveggja kvenna að ræða heldur en samband húsmóður og vinnukonu. Ég man eftir því að mamma lagði alltaf kapal á nýjársdag og spurði hvort hún ætti eftir að komast til Akureyrar aftur á ævinni. Mig minnir að hún hafi alltaf fengið neikvætt svar enda fór hún aldrei þangað aftur. Þegar Stella og Haddi vildu síðar meir fá hana með sér þangað í ferðalag neitaði hún, því þar væri enginn lengur til að heimsækja.
Ég veit að líf mömmu var ekki neitt sældarlíf og hún þurfti að berjast fram á síðasta dag. Aldrei sat hún auðum höndum enda kunni hún ekkert annað en að vinna hörðum höndum. Hún varð að vakna fyrst á morgnana og fara síðust að sofa. Hana langaði að læra en átti ekki möguleika á því en reyndi eins og hún gat að koma því inn hjá börnum sínum. Hún var ekki alltaf glöð yfir því að ég vildi liggja í sögubókum lon og don, vildi að ég læsi eitthvað uppbyggilegra. Sjálf hafði hún gaman af að lesa en eini tíminn sem hún hafði til þess var þegar hún lagðist inn á spítala en það voru einu ferðalögin sem hún fór í eftir að ég fór að muna eftir mér. Hún sagðist stundum lesa byrjunina og endinn á bókum til að fá aðeins nasasjón af því um hvað þær væru. Við sem kvörtum í dag yfir smámunum ættum að rifja upp hvað formæður okkar þurftu að upplifa og heyrðust samt sjaldan kvarta.
Á sunnudaginn fórum við í skötuveislu suður í Hafnarfjörð til Orra og Ínu. Dóra, mamma þeirra, var fóstursystir mömmu en þær ólust upp hjá fósturforeldrum vestur í Arnardal við Ísafjörð. Guðrún fósturmóðir þeirra var frænka mömmu en ég man ekki lengur hvað fósturfaðir þeirra hét. Þessi hjón áttu engin börn sjálf en ólu upp mörg fósturbörn. Þau sem litu á sig sem systkini voru mamma, Dóra, Ína (Össurína) og Karl. Amma mín, Sigríður Halldórsdóttir, var á leið í vinnumennsku með þrjár dætur sínar, mömmu sem var yngst tveggja ára, Eiríku og Jónínu sem var elst. Amma kom við hjá frænku sinni í Arnardal sem bauð henni að taka af henni yngsta barnið, Guðrúnu mömmu mína. Jónína sagði mér fyrir mörgum árum að það hefði verið sárt að skilja við systur sína grátandi og eflaust hefur það verið ömmu minni erfitt líka þótt hún hafi sennilega aldrei leyft sér að láta það í ljósi. Á þessum tímum urðu margar fátækar konur að byrgja inni allar tilfinningar því þær urðu ýmist að sjá á eftir börnum sínum á sveitina eða í dauðann. Hinar systurnar tvær fylgdu svo ömmu í mörg ár í vinnumennsku við misjafnan aðbúnað. Afi minn, Jón Ólafsson, var 30 árum eldri en amma og var orðinn blindur og óvinnufær á þessum tíma og varð eftir í Húnavatnssýslunni. Hann hafði áður farið með konu og fimm dætur til Kanada til að hefja nýtt líf en undi þar ekki og kom aftur heim en konan og dæturnar urðu eftir. Síðan hitti hann ömmu og eignaðist með henni þessar þrjár dætur. Mamma skrifaðist á við eina hálfsysturina, Jakobínu, og ég veit að eitt af barnabörnum hennar hefur komið hingað til að leita að ættingjum sínum og synir Jónínu fóru með hana í heimsókn til mömmu.
Mamma ólst upp í Arnardal ásamt fóstursystkinum sínum og bar þeim jafnan vel söguna. Hún hefði þurft að vinna eins og flest börn þurftu á þessum tíma en hún talaði alltaf vel um fóstru sína og fóstra. Mamma fór síðan sjálf í vinnumennsku þegar hún var 17 ára. Á sumrin var mamma vinnukona á Brettingsstöðum á Flatey á Skjálfanda og á veturna hjá Guðnýju og Jónatan Marteini sem var skósmiður á Akureyri. Sverrir Ragnarsson sem rekur JMJ á Akureyri er giftur Guðnýju barnabarni þeirra og þegar við Stella vorum á Akureyri í fyrra fórum við í búðina og töluðum við hann. Hann bauð okkur í kaffi heim til sín og Guðnýjar og þar hittum við gömlu konuna sem mamma hafði passað sem barn. Hún mundi óljóst eftir mömmu og einnig orgelinu sem mamma var búin að kaupa sér og byrjuð að læra á þegar hún fór í örlagaríka ferð vestur á Snæfellsnes sem endaði með því að hún fór aldrei aftur til Akureyrar og Guðný og Jónatan keyptu af henni orgelið. Fyrir það keypti hún sér saumavél sem hún taldi meiri þörf á að eiga til að geta saumað föt á barnahópinn sinn.
Eitt sumarið fór mamma sem sagt að heimsækja Eiríku systur sína sem bjó á Búðum á Snæfellsnesi og ætlaði að dvelja hjá henni í tvær vikur. Hún fór með skipi og var sett í land á Arnarstapa en þar fékk hún lánaðan hest og fékk mann úr sveitinni til að fylgja sér að Búðum. Á leiðinni sá hún hóp manna sem var að leggja veg um sveitina. Þar sá hún í fyrsta sinn pabba sem hlýtur að hafa litist vel á þessa aðkomustúlku enda sést á myndum að hún hefur verið falleg og fönguleg stúlka. Þetta leiddi til þess að mamma fór aldrei norður aftur og þessar tvær vikur urðu að ævilangri búsetu í Breiðuvík.
Mamma skrifaðist alltaf á við Guðnýju, húsmóður sína á Akureyri og sést á þeim bréfum að þar hefur verið meira um vináttu tveggja kvenna að ræða heldur en samband húsmóður og vinnukonu. Ég man eftir því að mamma lagði alltaf kapal á nýjársdag og spurði hvort hún ætti eftir að komast til Akureyrar aftur á ævinni. Mig minnir að hún hafi alltaf fengið neikvætt svar enda fór hún aldrei þangað aftur. Þegar Stella og Haddi vildu síðar meir fá hana með sér þangað í ferðalag neitaði hún, því þar væri enginn lengur til að heimsækja.
Ég veit að líf mömmu var ekki neitt sældarlíf og hún þurfti að berjast fram á síðasta dag. Aldrei sat hún auðum höndum enda kunni hún ekkert annað en að vinna hörðum höndum. Hún varð að vakna fyrst á morgnana og fara síðust að sofa. Hana langaði að læra en átti ekki möguleika á því en reyndi eins og hún gat að koma því inn hjá börnum sínum. Hún var ekki alltaf glöð yfir því að ég vildi liggja í sögubókum lon og don, vildi að ég læsi eitthvað uppbyggilegra. Sjálf hafði hún gaman af að lesa en eini tíminn sem hún hafði til þess var þegar hún lagðist inn á spítala en það voru einu ferðalögin sem hún fór í eftir að ég fór að muna eftir mér. Hún sagðist stundum lesa byrjunina og endinn á bókum til að fá aðeins nasasjón af því um hvað þær væru. Við sem kvörtum í dag yfir smámunum ættum að rifja upp hvað formæður okkar þurftu að upplifa og heyrðust samt sjaldan kvarta.
No comments:
Post a Comment