Sunday, December 14, 2008

Meira á aðventu

Varmárgellur röltu niður Skólavörðustíginn eins og vanalega á aðventu.
Ekki mjög jólalegar í klæðnaði, en sem betur fer bjartar í anda.
Við fundum JÓLAKJÓLINN hjá Eggerti feldskera. Þorðum samt ekki inn, vorum ekki vissar um hvort hann tæki við okkar kortum frekar en Darlings og Browns.
Ég keypti mér bara jólaslæðu frá henni Buddu og lífgaði aðeins upp á svarta litinn.


Ég tróð mér inn í laufabrauðsklúbbinn hjá Siggu Johnsen á Ásum
en í honum eru nokkrar hressar Varmárkellur. Ég reyni að njóta alls sem augnablikið býður mér upp á því ég veit ekki frekar en aðrir hvar ég mun dansa um næstu jól. Veit bara að það eru samverustundirnar með fjölskyldu og góðum vinum sem eru dýrmaætastar af öllu.

Að loknum laufabrauðsskurði og steikingu var sest að borðum og það er öruggt að enginn fór svangur heim að loknum málsverði hjá frú Sigríði Johnsen.

Þriðji í aðventu og góð helgi að baki. Brandur kláraði að smíða skápa í eldhússkotið og nú er orðið rosalega fínt hjá okkur, finnst okkur alla vega. Við fórum til Maggýjar á föstudaginn í útskriftarveislu Magna en hann var að útskrifast úr Lögregluskólanum og stóð sig frábærlega. Að öðru leyti gerði ég lítið annað en prjóna og hafa það náðugt. Mér finnst orðið best af öllu að vera heima í rólegheitum, er sem sagt að breytast í heimakæra húsmóður þótt ég láti húsmóðurverkin ekki endilega tala. Jólagjafirnar eru farnar til Noregs og Englands og þá finnst mér lítið eftir. Strákarnir hans Roberts fóru í gær með stóra ferðatösku fulla af varningi sem Íslendingurinn í Englandi pantaði til að fá smá íslensk jól. Venst því sennilega seint að hafa ekki alla krakkana í kringum mig um jólin en verð víst að sætta mig við það að þau eiga sitt líf og komast ágætlega af án mín.
Síðasta kennsluvikan fyrir jól framundan, kirkjuferð á morgun og ýmislegt annað skemmtilegt á döfinni.



No comments: