
Jói og fjölskylda voru hjá okkur um helgina og við gerðum margt skemmtilegt. Í dag lét ég loks verða af því að fara á jólasýningu í Árbæjarsafninu og það var sérstaklega gaman að hafa þau með okkur og skemmtilegt að sýna krökkunum alla þessa gömlu hluti sem við þekkjum úr okkar æsku. Viktoría, Daníella og Jökull voru með predikun í litlu kirkjunni og var hún örugglega ekkert síðri en margar aðrar sem fluttar hafa verið í dag í kirkjum landsins.
Þau skemmtu sér alla vega vel.

Það er langt síðan ég hef séð spunnið á rokk en þetta gerði hún móðir mín ennþá þegar ég var lítil og uppi í Skógarbæ er gamla snældan sem hún spann á fyrir mig, hvíta og svarta einspinnu, en það átti að tákna fyrstu kindina sem hún eignaðist sem var svört og hvít.

Þau urðu mjög hrifin af gömlu jólatrjánum og Jökull sagði að þetta væru alveg ofsalega falleg tré. Það sýnir að börnin hrífast ekki alltaf mest af því sem er stærst og dýrast. Ég man eftir svona jólatré í kotinu heima og sérstaklega man ég eftir því þegar það stóð í ljósum logum í fimmtugsafmælinu hans pabba á jóladag. Mamma var fljót að grípa ullarteppi og vefja því utan um logandi tréð og stökkva með það út á stétt meðan gestirnir og aðrir fjölskyldumeðlimir sátu ennþá stjarfir og hreyfðu hvorki legg né lið.

Brandur varð sérstaklega glaður þegar hann sá gamla sendilshjólið en á svona hjóli var hann sendill á Siglufirði þegar hann var patti. Flutti mjólkurbrúsa um borð í skipin og brauð heim til fólks.

Við kveiktum á aðventukransinum í gærkvöldi til að litli drengurinn minn gæti verið með og fengið að kveikja á kertunum. Þetta er siður sem við höfum haldið í gegnum árin þrátt fyrir mismunandi aðstæður og dvalarstaði og vonandi helst hann áfram í fjölskyldunni. Þetta er alltaf notaleg stund, spiluð jólatónlist og spjallað. Allt of sjaldan sem við gefum okkur tíma til þess.

Krakkarnir perluðu og var framleiðslan orðin drjúg þegar haldið var heim að lokinni skemmtilegri helgi í ömmu og afakoti.

Jói tók gítarinn með og spilaði fyrir okkur. Hann byrjaði að læra á gítar á Hólmavík 11 ára gamall og er farinn að rifja það upp aftur. Hann er orðinn góður strákurinn og ekki slæmt að fá gítarspilara í fjölskylduboðin. Ég fæ alltaf smáfiðring þegar ég sé gítar en þegar ég var 7 ára og póstverslun Hagkaups hófst, keypti mamma handa mér gítar og síðan setti hún mig í bréfaskóla Ólafs Gauks. Ég fékk mánaðarlega sendar litlar gular bækur með nótum og lögum og æfði mig grimmt. Það endaði með því að ég kunni ein fjögur fimm grip og gat spilað Gamla Nóa, Atti katti nóa og House of the rising sun með The Animals. Þetta var nú ekki mjög glæsileg frammistaða en gamlir nemendur mínir úr Ólafsvík minnast þess með glampa í augum að ¨það hafi verið svo gaman þegar ég sat og spilaði á gítarinn og þau sungu með¨ !!
Þessu er ég blessunarlega búin að gleyma.
No comments:
Post a Comment