
Í dag hefði pabbi minn orðið 99 ára ef honum hefði enst aldur til. Hann fæddist 25. desember 1909 í Fossárdal í Fróðárhrepp en afi og amma fluttu síðan með hann að Knerri í Breiðuvík þar sem hann bjó allan sinn aldur. Hann var oddviti í Breiðuvík í rúmlega 20 ár að mig minnir og það var hans líf og yndi að vinna í þeim málum. Búskapurinn var aldrei hans draumastarf en mamma og hann hófu sinn búskap hér í Reykjavík og vann hann þá hjá Kveldúlfi. Síðan veiktist afi og þar sem pabbi var einbirni varð hann að fara vestur og taka við búinu á Knerri. Þau byggðu þar lítið steinhús og þar sem þurfti að nýta þær spýtur sem til voru úr gamla torfbænum þá bjuggu þau á meðan í fjárhúsinu með Stellu nýfædda og hún segist hafa þá sérstöðu að hafa verið lögð í jötu eins og frelsarinn forðum. Í þessu litla húsi ólu þau okkur 5 systkinin upp og á loftinu bjuggu afi og amma. Afi dó 4. nóvember 1957 en amma dó 26. júlí 1966, níræð að aldri.
Pabbi fékk tvisvar sinnum heilablóðfall kominn á níræðisaldur og var síðustu 3 árin á St Fransiskusspítalanum í Stykkishólmi orðinn saddur lífdaga. Hann hafði alltaf mjög gaman af því að lesa en þessi síðustu ár gat hann ekki stytt sér stundir með því þar sem lestrargetan hvarf og eina ánægjan sem hann hafði var að fá að fara í reykherbergið og fá sér eina sígarettu ef einhver gaf sér tíma til að fara með honum. Pípuna gat hann ekki lengur reykt en hún var búin að vera partur af hans lífi frá unga aldri. Hann dó 28. júlí 1996 86 ára gamall.
No comments:
Post a Comment