Monday, December 29, 2008

Jólaboð og fleira

Anna Margrét og Guðni buðu okkur í mat ásamt Önnu Eym og Þórarni.
Skemmtilegt kvöld í góðra vina hópi.
Við pössuðum Jökul Mána um helgina meðan foreldrarnir voru að vinna. Við skruppum í Skorradalinn að skoða aðstæður. Þar var allt í fínu lagi og nú er í athugun að vera þar á Gamlárskvöld og Brandur búinn að lofa sérstöku dekri ef ég vil far ameð honum.
Við fengum okkur kaffi í Borgarnesi og Jökull fékk þennan flotta trúðaís.


Jóladagur 25. desember

Í dag hefði pabbi minn orðið 99 ára ef honum hefði enst aldur til. Hann fæddist 25. desember 1909 í Fossárdal í Fróðárhrepp en afi og amma fluttu síðan með hann að Knerri í Breiðuvík þar sem hann bjó allan sinn aldur. Hann var oddviti í Breiðuvík í rúmlega 20 ár að mig minnir og það var hans líf og yndi að vinna í þeim málum. Búskapurinn var aldrei hans draumastarf en mamma og hann hófu sinn búskap hér í Reykjavík og vann hann þá hjá Kveldúlfi. Síðan veiktist afi og þar sem pabbi var einbirni varð hann að fara vestur og taka við búinu á Knerri. Þau byggðu þar lítið steinhús og þar sem þurfti að nýta þær spýtur sem til voru úr gamla torfbænum þá bjuggu þau á meðan í fjárhúsinu með Stellu nýfædda og hún segist hafa þá sérstöðu að hafa verið lögð í jötu eins og frelsarinn forðum. Í þessu litla húsi ólu þau okkur 5 systkinin upp og á loftinu bjuggu afi og amma. Afi dó 4. nóvember 1957 en amma dó 26. júlí 1966, níræð að aldri.
Pabbi fékk tvisvar sinnum heilablóðfall kominn á níræðisaldur og var síðustu 3 árin á St Fransiskusspítalanum í Stykkishólmi orðinn saddur lífdaga. Hann hafði alltaf mjög gaman af því að lesa en þessi síðustu ár gat hann ekki stytt sér stundir með því þar sem lestrargetan hvarf og eina ánægjan sem hann hafði var að fá að fara í reykherbergið og fá sér eina sígarettu ef einhver gaf sér tíma til að fara með honum. Pípuna gat hann ekki lengur reykt en hún var búin að vera partur af hans lífi frá unga aldri. Hann dó 28. júlí 1996 86 ára gamall.

Friday, December 26, 2008

Aðfangadagskvöld

Eftir rólegan og góðan aðfangadag var sest að jólaborðinu.
Við vorum sjö sem settumst að jólaborðinu að þessu sinni. Símasamband var við útlendingana í Englandi sem fengu að heyra í jólaklukkunum í gegnum símann. Síðar um kvöldið var svo heilsað upp á fjölskylduna á Siglufirði og í Noregi.

Jökull Máni fékk gítar frá foreldrum sínum. Hann hefur ótrúlega sönghæfileika, kann ógrynnin öll af textum og er mjög lagviss. Nú á hann að læra að spila undir pjakkurinn, með pabba sínum.


Hjónin stilltu sér upp við jólatréð.

Jökull sýndi strax góða takta með gítarinn.

Jói og Guðrún fengu fallega skreytta skál frá Jökli.

Jói er orðinn þrusugóður á gítarinn.

Snædís fékk fullt af góðum gjöfum, mest var gleðin yfir fallegum hring frá kærastanum sem var vel falinn í stórum kassa sem ýmislegt skrýtið kom upp úr áður en hringurinn kom í ljós.


Brandur fékk fína prjónahúfu frá Stellu og Hadda, nú verður hann ekki frosinn á eyrunum þegar hann gengur upp í Breiðholtslaug.


Og ég fékk gítar frá eiginmanninum.

Nú verð ég að finna gamla bréfaskólann frá Óla Gauk og rifja upp þessi þrjú grip sem ég kunni einu sinni.

Kannski höldum við Jói og Jökull jólatónleika að ári - hver veit.










Aðfangadagur

Aðventan er búin að vera mjög skemmtileg og jólaleg. Snjórinn fékk að vera í friði í nokkra daga en í dag, aðfangadag, er hann farinn eftir rigningu og rok síðustu tvo daga. Þá förum við bara í Pollýönnuleik og gleðjumst yfir því að allir komist þangað sem þeir vilja helst vera yfir jólin. Reyndar skaust Pollýanna aftur upp á jólabókalistann og blasti við í öllum betri bókabúðum bæjarins eins og sagt er. Ég held ég fari í geymsluna og leiti að minni gömlu Pollýönnu sem ég kunni utan að sem barn eftir marga yfirlestra. Ekki veitir af visku hennar á tímum sem þessum. Best man ég eftir því hvernig hún brást við þegar kvenfélagskonurnar gáfu henni hækjur í jólagjöf þegar allt annað var búið. Þá átti hún erfitt með að finna eitthvað gleðilegt við slíka gjöf en hugsaði svo sem svo að hún gæti glaðst yfir því að þurfa ekki á þeim að halda. Vonandi getum við öll fundið eitthvað til að gleðjast yfir þrátt fyrir daprar jólagjafir frá stjórnendum þessa lands.
Á sunnudaginn fórum við í skötuveislu suður í Hafnarfjörð til Orra og Ínu. Dóra, mamma þeirra, var fóstursystir mömmu en þær ólust upp hjá fósturforeldrum vestur í Arnardal við Ísafjörð. Guðrún fósturmóðir þeirra var frænka mömmu en ég man ekki lengur hvað fósturfaðir þeirra hét. Þessi hjón áttu engin börn sjálf en ólu upp mörg fósturbörn. Þau sem litu á sig sem systkini voru mamma, Dóra, Ína (Össurína) og Karl. Amma mín, Sigríður Halldórsdóttir, var á leið í vinnumennsku með þrjár dætur sínar, mömmu sem var yngst tveggja ára, Eiríku og Jónínu sem var elst. Amma kom við hjá frænku sinni í Arnardal sem bauð henni að taka af henni yngsta barnið, Guðrúnu mömmu mína. Jónína sagði mér fyrir mörgum árum að það hefði verið sárt að skilja við systur sína grátandi og eflaust hefur það verið ömmu minni erfitt líka þótt hún hafi sennilega aldrei leyft sér að láta það í ljósi. Á þessum tímum urðu margar fátækar konur að byrgja inni allar tilfinningar því þær urðu ýmist að sjá á eftir börnum sínum á sveitina eða í dauðann. Hinar systurnar tvær fylgdu svo ömmu í mörg ár í vinnumennsku við misjafnan aðbúnað. Afi minn, Jón Ólafsson, var 30 árum eldri en amma og var orðinn blindur og óvinnufær á þessum tíma og varð eftir í Húnavatnssýslunni. Hann hafði áður farið með konu og fimm dætur til Kanada til að hefja nýtt líf en undi þar ekki og kom aftur heim en konan og dæturnar urðu eftir. Síðan hitti hann ömmu og eignaðist með henni þessar þrjár dætur. Mamma skrifaðist á við eina hálfsysturina, Jakobínu, og ég veit að eitt af barnabörnum hennar hefur komið hingað til að leita að ættingjum sínum og synir Jónínu fóru með hana í heimsókn til mömmu.
Mamma ólst upp í Arnardal ásamt fóstursystkinum sínum og bar þeim jafnan vel söguna. Hún hefði þurft að vinna eins og flest börn þurftu á þessum tíma en hún talaði alltaf vel um fóstru sína og fóstra. Mamma fór síðan sjálf í vinnumennsku þegar hún var 17 ára. Á sumrin var mamma vinnukona á Brettingsstöðum á Flatey á Skjálfanda og á veturna hjá Guðnýju og Jónatan Marteini sem var skósmiður á Akureyri. Sverrir Ragnarsson sem rekur JMJ á Akureyri er giftur Guðnýju barnabarni þeirra og þegar við Stella vorum á Akureyri í fyrra fórum við í búðina og töluðum við hann. Hann bauð okkur í kaffi heim til sín og Guðnýjar og þar hittum við gömlu konuna sem mamma hafði passað sem barn. Hún mundi óljóst eftir mömmu og einnig orgelinu sem mamma var búin að kaupa sér og byrjuð að læra á þegar hún fór í örlagaríka ferð vestur á Snæfellsnes sem endaði með því að hún fór aldrei aftur til Akureyrar og Guðný og Jónatan keyptu af henni orgelið. Fyrir það keypti hún sér saumavél sem hún taldi meiri þörf á að eiga til að geta saumað föt á barnahópinn sinn.
Eitt sumarið fór mamma sem sagt að heimsækja Eiríku systur sína sem bjó á Búðum á Snæfellsnesi og ætlaði að dvelja hjá henni í tvær vikur. Hún fór með skipi og var sett í land á Arnarstapa en þar fékk hún lánaðan hest og fékk mann úr sveitinni til að fylgja sér að Búðum. Á leiðinni sá hún hóp manna sem var að leggja veg um sveitina. Þar sá hún í fyrsta sinn pabba sem hlýtur að hafa litist vel á þessa aðkomustúlku enda sést á myndum að hún hefur verið falleg og fönguleg stúlka. Þetta leiddi til þess að mamma fór aldrei norður aftur og þessar tvær vikur urðu að ævilangri búsetu í Breiðuvík.
Mamma skrifaðist alltaf á við Guðnýju, húsmóður sína á Akureyri og sést á þeim bréfum að þar hefur verið meira um vináttu tveggja kvenna að ræða heldur en samband húsmóður og vinnukonu. Ég man eftir því að mamma lagði alltaf kapal á nýjársdag og spurði hvort hún ætti eftir að komast til Akureyrar aftur á ævinni. Mig minnir að hún hafi alltaf fengið neikvætt svar enda fór hún aldrei þangað aftur. Þegar Stella og Haddi vildu síðar meir fá hana með sér þangað í ferðalag neitaði hún, því þar væri enginn lengur til að heimsækja.
Ég veit að líf mömmu var ekki neitt sældarlíf og hún þurfti að berjast fram á síðasta dag. Aldrei sat hún auðum höndum enda kunni hún ekkert annað en að vinna hörðum höndum. Hún varð að vakna fyrst á morgnana og fara síðust að sofa. Hana langaði að læra en átti ekki möguleika á því en reyndi eins og hún gat að koma því inn hjá börnum sínum. Hún var ekki alltaf glöð yfir því að ég vildi liggja í sögubókum lon og don, vildi að ég læsi eitthvað uppbyggilegra. Sjálf hafði hún gaman af að lesa en eini tíminn sem hún hafði til þess var þegar hún lagðist inn á spítala en það voru einu ferðalögin sem hún fór í eftir að ég fór að muna eftir mér. Hún sagðist stundum lesa byrjunina og endinn á bókum til að fá aðeins nasasjón af því um hvað þær væru. Við sem kvörtum í dag yfir smámunum ættum að rifja upp hvað formæður okkar þurftu að upplifa og heyrðust samt sjaldan kvarta.

Skötuveislur og fleira

Orri frændi með mig í sveitinni.
Á Þorláksmessu borðuðum við vel kæsta skötu a la Brandur með spilaklúbbnum mínum og mökum þeirra. Þetta er orðinn bráðskemmtilegur siður sem allir hlakka til og vonandi tekst Sigurði G ekki að fá það bannað að elda skötu í fjölbýlishúsum fyrir næstu jól.

Margt annað mætti þá banna fyrst finnst mér.
Við kíktum á jólaþorpið í Hafnarfirði í yndislegu veðri.




Ína, Marteinn, ég og Orri.

Orri og Ína buðu okkur og Marteini í skötuveislu í Hafnarfirði. Dóra mamma þeirra og mamma ólust upp saman sem fóstursystur í Arnardal við Ísafjörð. Þetta er í annað sinn sem þau bjóða okkur og gaman að ná aftur tengslum við þau en Orri var í sveit heima þegar ég var lítil og passaði mig.


Við Snædís fórum saman í bæinn fyrir jólin og áttum góða stund saman. Enduðum á að fá okkur pizzu á Pizza Company.

Ég held að hún hafi bara haft gaman af að eyða stund með gömlu konunni í bænum.

Snædís bakaði kökur og bjó til sælgæti sem hún gaf fósturmömmum sínum, Svönu og Steinu.









Wednesday, December 17, 2008

Jólasöngur í Engjaskóla

Á aðventunni syngjum við saman á sal einu sinni í viku. Þessi dagur var rauður dagur og þess vegna eru allir svona jólalegir. Margir litlir jólasveinar á ferðinni með litlar rauðar skotthúfur.

Sunday, December 14, 2008

Meira á aðventu

Varmárgellur röltu niður Skólavörðustíginn eins og vanalega á aðventu.
Ekki mjög jólalegar í klæðnaði, en sem betur fer bjartar í anda.
Við fundum JÓLAKJÓLINN hjá Eggerti feldskera. Þorðum samt ekki inn, vorum ekki vissar um hvort hann tæki við okkar kortum frekar en Darlings og Browns.
Ég keypti mér bara jólaslæðu frá henni Buddu og lífgaði aðeins upp á svarta litinn.


Ég tróð mér inn í laufabrauðsklúbbinn hjá Siggu Johnsen á Ásum
en í honum eru nokkrar hressar Varmárkellur. Ég reyni að njóta alls sem augnablikið býður mér upp á því ég veit ekki frekar en aðrir hvar ég mun dansa um næstu jól. Veit bara að það eru samverustundirnar með fjölskyldu og góðum vinum sem eru dýrmaætastar af öllu.

Að loknum laufabrauðsskurði og steikingu var sest að borðum og það er öruggt að enginn fór svangur heim að loknum málsverði hjá frú Sigríði Johnsen.

Þriðji í aðventu og góð helgi að baki. Brandur kláraði að smíða skápa í eldhússkotið og nú er orðið rosalega fínt hjá okkur, finnst okkur alla vega. Við fórum til Maggýjar á föstudaginn í útskriftarveislu Magna en hann var að útskrifast úr Lögregluskólanum og stóð sig frábærlega. Að öðru leyti gerði ég lítið annað en prjóna og hafa það náðugt. Mér finnst orðið best af öllu að vera heima í rólegheitum, er sem sagt að breytast í heimakæra húsmóður þótt ég láti húsmóðurverkin ekki endilega tala. Jólagjafirnar eru farnar til Noregs og Englands og þá finnst mér lítið eftir. Strákarnir hans Roberts fóru í gær með stóra ferðatösku fulla af varningi sem Íslendingurinn í Englandi pantaði til að fá smá íslensk jól. Venst því sennilega seint að hafa ekki alla krakkana í kringum mig um jólin en verð víst að sætta mig við það að þau eiga sitt líf og komast ágætlega af án mín.
Síðasta kennsluvikan fyrir jól framundan, kirkjuferð á morgun og ýmislegt annað skemmtilegt á döfinni.



Sunday, December 7, 2008

Á aðventu

Jói og fjölskylda voru hjá okkur um helgina og við gerðum margt skemmtilegt. Í dag lét ég loks verða af því að fara á jólasýningu í Árbæjarsafninu og það var sérstaklega gaman að hafa þau með okkur og skemmtilegt að sýna krökkunum alla þessa gömlu hluti sem við þekkjum úr okkar æsku. Viktoría, Daníella og Jökull voru með predikun í litlu kirkjunni og var hún örugglega ekkert síðri en margar aðrar sem fluttar hafa verið í dag í kirkjum landsins.
Þau skemmtu sér alla vega vel.
Það er langt síðan ég hef séð spunnið á rokk en þetta gerði hún móðir mín ennþá þegar ég var lítil og uppi í Skógarbæ er gamla snældan sem hún spann á fyrir mig, hvíta og svarta einspinnu, en það átti að tákna fyrstu kindina sem hún eignaðist sem var svört og hvít.

Þau urðu mjög hrifin af gömlu jólatrjánum og Jökull sagði að þetta væru alveg ofsalega falleg tré. Það sýnir að börnin hrífast ekki alltaf mest af því sem er stærst og dýrast. Ég man eftir svona jólatré í kotinu heima og sérstaklega man ég eftir því þegar það stóð í ljósum logum í fimmtugsafmælinu hans pabba á jóladag. Mamma var fljót að grípa ullarteppi og vefja því utan um logandi tréð og stökkva með það út á stétt meðan gestirnir og aðrir fjölskyldumeðlimir sátu ennþá stjarfir og hreyfðu hvorki legg né lið.


Brandur varð sérstaklega glaður þegar hann sá gamla sendilshjólið en á svona hjóli var hann sendill á Siglufirði þegar hann var patti. Flutti mjólkurbrúsa um borð í skipin og brauð heim til fólks.

Við kveiktum á aðventukransinum í gærkvöldi til að litli drengurinn minn gæti verið með og fengið að kveikja á kertunum. Þetta er siður sem við höfum haldið í gegnum árin þrátt fyrir mismunandi aðstæður og dvalarstaði og vonandi helst hann áfram í fjölskyldunni. Þetta er alltaf notaleg stund, spiluð jólatónlist og spjallað. Allt of sjaldan sem við gefum okkur tíma til þess.

Krakkarnir perluðu og var framleiðslan orðin drjúg þegar haldið var heim að lokinni skemmtilegri helgi í ömmu og afakoti.

Jói tók gítarinn með og spilaði fyrir okkur. Hann byrjaði að læra á gítar á Hólmavík 11 ára gamall og er farinn að rifja það upp aftur. Hann er orðinn góður strákurinn og ekki slæmt að fá gítarspilara í fjölskylduboðin. Ég fæ alltaf smáfiðring þegar ég sé gítar en þegar ég var 7 ára og póstverslun Hagkaups hófst, keypti mamma handa mér gítar og síðan setti hún mig í bréfaskóla Ólafs Gauks. Ég fékk mánaðarlega sendar litlar gular bækur með nótum og lögum og æfði mig grimmt. Það endaði með því að ég kunni ein fjögur fimm grip og gat spilað Gamla Nóa, Atti katti nóa og House of the rising sun með The Animals. Þetta var nú ekki mjög glæsileg frammistaða en gamlir nemendur mínir úr Ólafsvík minnast þess með glampa í augum að ¨það hafi verið svo gaman þegar ég sat og spilaði á gítarinn og þau sungu með¨ !!
Þessu er ég blessunarlega búin að gleyma.






Monday, December 1, 2008

Og senn koma jólin...

Fyrsti sunnudagur í aðventu, upplagt að halda hann hátíðlegan á náttfötunum,
alla vega um kvöldið.
Ester, Bjarki, Ástrós og Hera Björk komu í verslunarferð til Reykjavíkur um helgina.
Bjarki og Hera tóku þátt í að kveikja á aðventukransinum meðan Ester og Ástrós fóru í bíó. Bjarki var orðinn dálítið þreyttur eftir búðarápið þótt hann sé duglegur með Bin þrjú eins og allir góðir eiginmenn eiga að gera: Brosa-Borga-Bera.

Snædís kveikir á spádómskertinu, hún er nú orðin ein um það að fá að kveikja, áður voru þau þrjú sem skiptust á ogrifust pínulítið um hvar þau væru í röðinni.
Ég þakka fyrir að halda henni ennþá heima því ég veit ekki alveg hvað verður um jólasiðina þegar hún verður ekki lengur á heimilinu til að halda mér við efnið.
Við mæðgur hjálpuðumst að við að búa til hefðbundinn jólakrans,
hann er í aðventulitunum að þessu sinni.
Hvernig er þetta með tímann, líður hann alltaf hraðar og hraðar? Bara mánuður síðan ég tók niður jólaskrautið og aftur komið að því að setja það upp á ný. Ég er reyndar ánægð með að sjá jólaljósin tendruð, ekki veitir af að lýsa upp myrkrið sem er orðið dálítið svart um þessar mundir.
Jólaljósin eru komin á svalirnar og ég kveiki á kertum um leið og ég kem heim úr vinnunni. Þau færa frið í húsið. Það verður fátt hér á jólunum þar sem Dóra mín heldur sín jól í Englandi núna með sinni stóru fjölskyldu. Jói, Guðrún og Jökull ætla að vera hjá okkur svo við verðum alla vega sex við jólaborðið og eitt lítið barn til að gleðjast með. Við erum reyndar öll mikil börn þegar jólin eru annars vegar og verðum það vonandi áfram.
Annars er allt í rólegheitum hér, Brandur í veikindaleyfi og hamast í sjúkraþjálfun og sundi meðan ég er í vinnunni. Ég kem svo heim og les blöðin á meðan hann býr til matinn. Mér finnst það ágæt verkaskipting enda býr hann til miklu betri mat heldur en ég.
Það er líf og fjör í skólanum, jólastressið alveg að fara með börnin og kannski okkur líka. Við finnum líka að ástandið í þjóðfélaginu er farið að hafa sín áhrif þótt við reynum að passa að hafa skólann kreppufrían. En við þurfum samt að leyfa þeim að ræða málin og útskýra hlutina fyrir þeim, því það sem fer verst með þau er að hlusta á þetta tal um kreppu og gjaldþrot en vita í rauninni ekkert hvað það er. Það er reyndar erfitt að útskýra það sem maður skilur ekki sjálfur.
En vonandi tekst okkur að komast upp úr þessum öldudal, það þýðir ekkert annað en að horfa björtum augum til framtíðar og lifa fyrir líðandi stund og muna að það er ekki allt best sem kostar mest.



Tuesday, October 28, 2008

Og tíminn líður hratt á útrásaröld...

Sigurður Helgason skólastjórinn minn frá Laugargerði er látinn 78 ára gamall. Hann hefur alltaf verið mér mjög kær og betri fyrirmynd var ekki hægt að fá á fyrstu árum skólagöngunnar. Það er ekki tilviljun hvað margir úr mínum bekk urðu kennarar og margir hafa reynt fyrir sér sem skólastjórar. Við bárum mikla virðingu fyrir honum, hann þurfti ekki að hækka sig til að við hlustuðum, hann skammaðist aldrei og talaði þannig að mark var á því tekið. Svo gat hann leikið við okkur og skemmt sér með okkur og ekki minnkaði virðingin við það.
Fyrir mér var hann hátt yfir aðra hafinn og þegar ég fullorðnaðist og uppgötvaði að hann var mannlegur eins og við hin og gerði mistök eins og aðrir þá var svolítið erfitt að viðurkenna það í fyrstu. Með auknum þroska lærði ég það að enginn er fullkominn og allir eiga sínar veiku og sterku hliðar en við elskum þá ekki minna fyrir það. Blessuð sé minning hans.
Heill mánuður liðinn síðan ég skrifaði síðast. Lítið um að vera í mínu lífi, kannski sem betur fer. Vinn og sef og hef það bara ágætt. Fór reyndar til Akureyrar í tvo daga. Lét mig hafa það að fara á þing skólastjórnenda en ég tilheyri víst þeim hópi í augnablikinu, borga alla vega félagsfjöldin þangað. Það er alltaf gott að koma til Akureyrar og gista á KEA sem ég hef reyndar ekki gert áður. Hélt ég þekkti engan en hitti svo töluvert af fólki frá gamalli tíð, gamla bekkjarfélaga úr Kennó og gamla kunningja frá bæði Ólafsvík og Hólmavík. Stundum gott að hafa búið víða og kynnst mörgu góðu fólki.
Ég var í vetrarfríi um liðna helgi + laugardag og mánudag. Fór í algjöra slökun heima hjá mér, fór varla út fyrir dyr og aldrei þessu vant leið mér bara vel í félagsskap sjálfrar mín og leiddist ekkert. Þreif, þvoði, prjónaði og las til skiptis og naut þess að vera til.
Reyndar hef ég tekið stórt skref í átt til bættrar heilsu, hætti að reykja fyrir hálfum mánuði og þakka það heimi læknavísindanna og heimasætunni sem hefur verið afskaplega dugleg að halda að mér upplýsingum sem hún sogar í sig í hjúkrunarnáminu. Hún veit orðið allt um skaðsemi reykinga og vill mjög gjarnan eiga mömmu sína eitthvað áfram án súrefniskúts.
Í dag byrjaði ég svo í Rope Yoga sem ég hélt að væri svona frekar létt líkamsrækt fyrir þá sem eru lítið fyrir að hreyfa sig. Annað kom á daginn og er strax farin að finna fyrir aumum kviðvöðvum og get verið glöð með það, þeir eru þá alla vega til staðar ennþá einhvers þarna þótt djúpt sé á þeim. Ég ætla að halda galvösk áfram ef ég get staulast í næsta tíma og kannski kemst ég í kjólinn fyrir jólin.
Ég ætla ekki að tjá mig neitt um það fjármálahrun sem hér hefur dunið yfir, læt öðrum það eftir sem hafa meira vit á. Verð samt að segja að ekki kom mér þetta á óvart, er búin að bíða eftir þessum ósköpum í svona tvö ár. Brandur er til vitnis um það enda afskaplega stoltur af því að eiga svona gáfaða konu sem sá þetta allt fyrir. Verst að hún var ekki gáfaðri en það að ekki gerði hún neitt til að sýna þeim sem stjórna hvað þeir væru afskaplega vitlausir að halda að þessi smáþjóð gæti bara allt í einu baðað sig í milljörðum og keypt allt sem hana lysti út á kredit. Við létum líka leiða okkur með í dansinn og keyrum nú um á þessari fínu myntkörfu en hún dugar okkur kannski næstu 20 árin alla vega meðan launin dugar fyrir afborgunum og við fáum einhver laun. Nú ef ekki þá gefum við hann bara einhverjum bláfátækum auðmanni og flýjum til Vesturheims. Leitum á náðir ættingjanna sem voru svo heppnir að forfeður þeirra lögðu á sig að flýja þáverandi kreppu og búa sér til nýtt líf vestan hafs. Ekki veit ég hvort það líf var auðvelt, alla vega sneri afi minn til baka, konu- og barnalaus, og fékk sér nýja konu hérna heima, hana ömmu mína og hélt áfram baslinu hér á sinni heittelskuðu móðurjörð. Fyrri eiginkonan settist að í Vesturheimi með sínar fimm dætur og lítið meira veit ég um þeirra hafi. en ég er þakklát afa mínum fyrir að halda tryggð við ættjörðina því annars sæti ég ekki hér og skrifaði.


Sunday, August 31, 2008

Þórsmerkurferð

Kort af Þorsmörk. Dökku línurnar eru þær leiðir sem við gengum.
Við fórum í alvöru fjallatrukk frá Hópferðamiðstöðinni með traustum bílstjóra svo allur minn kvíði fauk út í veður og vind og hjartað sló ekki feilpúst þegar við fórum yfir árnar.

Fríður hópur við lónið sem við fórum yfir og ég afþakkaði að nota göngubrúna, kjarkurinn orðinn ótrúlega mikill enda kom ég sjálfri mér og öðrum mikið á óvart í þessari ferð.

Vörubíllinn sem aðstoðar við að fara yfir Krossá.
Ég held ég myndi ekki leggja í þetta á jepplingnum.

Komin í Merkursel í Húsadal. Matta og Stína brostu út að eyrum
eins og reyndar allir gerðu alla ferðina.


Við fórum strax í göngu yir í Langadal. Fararstjórinn,Ingibjörg Ragnars, tók mig á sálfræðinni og neitaði að skilja mig eftir í berjamó. Sagði að þetta væri stutt ganga fyrir alla og ég gæti bara snúið við ef ég gæfist upp. Sem betur fer þorði ég ekki annað en hlýða og þetta varð að fjögurra tíma göngu sem ég hefði ekki viljað missa af. Kom sjálfri mér mjög mikið á óvart og komst alla leið og ég sem kemst varla upp úr Elliðaárdalnum eftir 15 mínútna göngutúr.

Við Snorraríki en þar faldi einhver Snorri sig fyrir óvinum fyrir margt löngu. Þrír ofurhugar klifruðu upp og sýndu ótrúlega takta. Ég lét það eiga sig, vildi ekki vekja of mikla athygli.

Matta fór létt með að fara í spor eiginmannsins sem glittir í á bak við hana.
Jón Ingi fór fyrstur upp en sést ekki inn i myrkrinu.

Komin í Langadal og þar ætlaði ég að snúa við og fannst ég bara búin að sýna þrekvirki að komast þangað en enn beitti Ingibjörg sálfræðinni og sagði að það væri létt
ganga upp í Slyppugil og enn hlýddi ég, sem betur fer.

Af og til var áð til að kasta mæðinni og það bjargaði mér.
Reyndar varð þetta alltaf léttara eftir því sem leið á gönguna.

Komin upp úr Slyppugilinu og Matta ennþá brosandi út að eyrum.
Við ætluðum aðra leið til baka en fundum hana ekki svo við gengum sömu leið, bara uppi í staðinn fyrir niðri í gilinu og enduðum á sama stað, í Langadal. Þarna uppi sáum við vítt og breitt og fjallahringurinn er stórkostlegur og mikil litadýrð. Veðrið var yndislegt, logn, smáúði annað slagið og reyndar smáhaglél líka og svo skein sólin inn á milli. Gat ekki verið betra.

Er það furða að tröllasögur hafi orðið til?

Sönnun fyrir því að ég fór upp. Þarna var ég komin í gott form og steinhætt að væla um að ég gæti þetta ekki. Held að sjálfstraustið hafi vaxið um helming þarna upp frá.

Vi lögðum af stað heim um hádegið í dag og þegar við vorum komin aftur yfir Krossá var farið upp í Stakkholtsgjá og tekinn ¨léttur¨ göngutúr inn í gjána til að ná úr sér harðsperrunum eftir löngu gönguna í gær.

Það þurfti að vaða yfir ána á nokkrum stöðum og við þurftum að rifja upp gamla takta við að stikla á steinum. Sveitamaðurinn í mér vaknaði á ný og kom mér yfir án þess að ég dytti í ána.

Hvar ætli sé best að fara yfir?

Komin inn að fossi sem fellur niður innst í gjánni. Þessari á ég að þakka að hafa nú látið gamlan draum rætast að komast í Þórsmörk. Þetta er sem sagt Ingibjörg Ragnars sem tók mig á sálfræðinni og hlustaði ekki á vælið í mér, kom mér af stað í gönguna og hvatti mig áfram.
Verð henni ævinlega þakklát því þarna tókst mér að sanna fyrir sjálfri mér að sennilega get ég meira en ég hélt að ég gæti. Og áfram nú stelpa!

Haustferðin okkar í Engjaskóla var sem sagt ferð í Þórsmörk. Þetta var ákveðið í vor og skálinn pantaður og þá ætluðu allir að fara. Þegar á reyndi reyndust margir uppteknir við annað en þessi 17 hraustmenni létu það ekki á sig fá og fóru samt og við sjáum ekki eftir því, enginn hefði viljað missa af þessu. Þetta var besta hópefli sem hægt er að fá, allir að hjálpast að og styðja hvern annan. Eftir gönguferðina á laugardag var grillað, eiginmennirnir þrír í hópnum sáu um það og reyndust hinir mestu grillmeistarar. Eftir matinn var byrjað að syngja og djamma en þá fór að siga á seinni hlutann hjá mér og mikill lúi gerði vart við sig. Ég var því komin á dýnuna upp úr tíu og lét hinum eftir að skemmta sér. Sé svolítið efir því að hafa ekki haft þol í djammið en það er ekki hægt að gera allt. Ég var líka mjög ánægð með það þegar ég vaknaði í morgun eldhress þótt það væri reyndar dálítið erfitt fyrst að rísa upp af dýnunni. En það lagaðist og eftir morgunmat var allt skúrað út og við drifum okkur út í sólina sem nú skein glatt og varla skýhnoðri á himni. Gangan inn Stakkholtsgjá var ekki síðri heldur en gangan í gær. Þarna er óskaplega fallegt og fossinn innst í gjánni er mikil náttúruperla. Það var því ánægður og svolítið lúinn hópur sem skilaði sér í bæinn aftur um fimmleytið. Búið að treysta vinaböndin og byggja upp sjálfstraust hjá sumum, alla vega mér, og nú get ég varla beðið eftir næstu haustferð og þá verður sko ekkert væl.