Sunday, February 3, 2008

Bolludagur á morgun.

Kara Björk með nýjasta listaverkið sitt.

Ég hef gefið blogginu frí ansi lengi, ekki þar með sagt að ekkert hafi verið um að vera en í augnablikinu er alzheimerinn á svo háu stigi að ég man eiginlega ekkert hvað ég hef verið að gera undanfarnar vikur. Síðasta vika var þó nokkuð annasöm, passaði Jökul um síðustu helgi og hjálpaði svo Önnu Eym smávegis við flutninga. Það er gott að fá að hjálpa fólki öðru hverju að flytja því þá verð ég staðfastari í að vera áfram á mínum stað. Nú er ég búin að vera hér í Grýtubakkanum í rúm 5 ár og er því að toppa þá tímalengd sem ég hef verið á hverjum stað eftir tvítugt. Dóra sagði einhvern tíma að við hefðum flutt svo ört að hún hefði aldrei náð að festa rætur neins staðar. Ég minnti hana á að það væri aðeins jurtir sem hefðu rætur og það gerði mann bara víðsýnni að breyta til öðru hverju. Hún hefur tekið þá áminningu alvarlega og elur sín börn upp í víðsýni og aðlögunarhæfni, lætur ekki landið duga heldur fer á milli heimsálfa, blessunin.
Ég finn núna að aðlögunarhæfnin hjá mér fer minnkandi, ekkert spennandi að skipta um íverustað né vinnustað, stekk ekki lengur til þegar eitthvað annað býðst. Kannski líka oðrin of gömul til að bjóðast eitthvað spennandi, enda orðin hálfsextug og ætti að vera farin að róast. Ég átti sem sagt afmæli í vikunni og fékk góða gesti og góðar gjafir sem ég var samt að reyna að afþakka þar sem ég ætti nú þegar of mikið af öllu. En það hlýjar gömlu hjarta að finna að maður á góða fjölskyldu og vini sem sýna manni artarsemi og hlýhug.
Ég fékk svo að hafa barnabörnin um helgina, veit reyndar ekki hvort mér verður treyst fyrir þeim aftur þar sem ég sofnaði ansi fast við að svæfa þann litla og vaknaði kl sex í morgun í öllum fötum og dömurnar tvær höfðu því fengið að passa sig sjálfar allt kvöldið. En það slapp fyrir horn og allir í góðu lagi.
Í dag var það bollubakstur því allt í einu er bara kominn bolludagur og ég sem var bara rétt að enda jólin. Mér finnst tíminn líða orðið einum of hratt að mínu mati, verð örugglega orðin 100 ára áður en ég veit af. Eins og konan sagði, mér finnst ég bara alltaf vera að vakna.
Veðrið hefur verið stillt og gott síðustu daga, mikið frost, 12 – 15° en sólríkt og logn.
Nú er farið að hlýna aftur og þá byrja sennilega umhleypingarnir aftur. En dagurinn er orðinn lengri, ennþá bjart og klukkan að verða 6 svo það hlýtur að fara að birta í sálinni líka. Brandur fór út á sjó á föstudaginn eftir að hafa verið í landi síðan í byrjun desember og nú verð ég bara að sjá um mig sjálf næstu vikurnar, enginn morgunmatur og verð að skafa sjálf. Það er samt sennilega hollt fyrir mig að rifja það upp öðru hverju svo ég haldi ekki að ég sé einhver prinsessa á bauninni.
Ný vinnuvika framundan, bolludagur, sprengidagur, öskudagur og árshátíð á föstudaginn og nóg að hlakka til. Upp með góða skapið.

1 comment:

frugalin said...

Til hamingju með afmælið elsku Sigrún mín. Þú ert perla.