



Í Elliðaárdalnum á annan í jólum.
Þá er komið árið 2008, dagarnir farnir að lengjast og þótt jólaljósin séu að týna tölunni þá er gaman að horfa fram á bjartari tíma. Það hefur fækkað aftur í Grýtubakkanum. Dóra og hennar fjölskylda sneri aftur til Englands eftir Þrettándann eftir skemmtileg fjölskyldujól en í staðinn kom farfuglinn aftur frá Siglufirði svo það er sem betur fer alltaf eitthvað ungviði í húsinu sem heldur okkur við efnið. Við vorum 11 hér á Gamlárskvöld, vantaði Jóa og fjölskyldu sem héldu áramótin hátíðleg í Keflavík. Að loknu skaupi, sem við höfðum bara nokkuð gaman af, alla vega þeir sem höfðu fylgst með Lost, fóru allir, nema ég og kötturinn, upp í hæðina hér fyrir ofan til að skjóta upp flugeldum en Dóra og Robert höfðu stutt björgunarsveitirnar rækilega. Þar sem brennur voru ekki leyfðar vegna veðurs kveikti Brandur sína eigin brennu en neyðarblys sem hann skaut upp í vindinn fór ekki til himins heldur endaði niðri í skóginum. Nærstaddir náðu að slökkva áður en tjón hlaust af en hann fær líklega ekki að gleyma þessu í nánustu framtíð. Sem betur fer var ég bara hér inni og ¨missti¨ af uppátækinu en einhvern veginn hefur áhugi minn á þessari ljósasýningu minnkað með árunum og reyni ég að loka gluggum og hurðum til að minnka hávaðann og hugsa bara um að lifa af og ligg á bæn um að allir snúi heilir til baka. Það er líka ágæt ástæða til að fá að vera inni að verða hugsa um dýrið á heimilinu svo það lifi lætin af.
Á þrettándanum fóru Dóra og Robert með börnin upp í Mosfellsbæ til að fylgjast með álfabrennu á hennar bernskuslóðum og þau höfðu mjög gaman af því en við gömlu hjúin vorum bara heima og misstum því af lokaveislu í Álmholtinu sem við sáum fullseint að okkur var boðið í. Ég á eftir að sakna þess að heimsækja það hús en sem betur fer verður styttra að heimsækja þau núna í Byggðarendann og getur því húskötturinn tekið upp fyrri hætti. Vonandi hætta þau ekki við að flytja þegar þau lesa þetta.Nú er lífið komið í sitt vanahorf, skólinn byrjaður aftur og ég farin að vakna aftur fyrir hádegi. Það var dálítið erfitt til að byrja með að snúa sólarhringnum aftur við en tókst með harmkvælum.
Jóhanna, samstarfskona mín, varð fertug á laugardaginn og hún fékk óvænta afmælisveislu á föstudaginn sem manninum hennar og systur tókst að undirbúa heima hjá henni án þess að hún hefði hugmynd um. Ég vona að hún sé búin að jafna sig eftir sjokkið sem hún fékk þegar hún kom til dyra um fimmleytið, örþreytt eftir erfiða vinnuviku, og sá allt liðið úr Engjaskóla mætt á tröppunum syngjandi afmælissönginn. Ég vona samt að hún hafi skemmt sér jafnvel og við.
Nú hlakka ég til að takast á við næstu verkefni og svo verða örugglega komnir páskar áður en ég veit af og þá gerum við örugglega eitthvað skemmtilegt.
1 comment:
Takk fyrir síðast, já ég skemmti mér mjög vel á föstudaginn. Fínar myndir hjá þér Sigrún mín.
Post a Comment