Saturday, February 23, 2008

Helgarfrí

Svava Stefanía og Atli Örn, Sillu og Sævarsbörn á frjálsíþróttamóti í Reykjavík um daginn. Um síðustu helgi kom hún aftur með pabba sínum og stóð sig með prýði. Ester kom líka með Ástrósu sem varð Íslandsmeistari í innanhússfótbolta. Þetta er mikið íþróttafólk.

Þessi vika hefur verið frekar viðburðalítil. Brandur kom reyndar aftur heim á þriðjudaginn og fer aftur að leita að loðnu á morgun, sunnudag. Þetta er svona ¨hideandseek¨ leikur sýnist mér. Hvort verður það loðnan eða fiskifræðingarnir sem vinna leikinn.
Ég fór með Maggý í Stykkishólm á sunnudaginn á æsispennandi leik Snæfells og Skallagríms. Snæfell var yfir allan leikinn en spennan var mikil í lokin þar sem munurinn var lítill. En Magni og félagar höfðu það við litlar vinsældir fjallmyndarlegs þjálfara Skallagríms sem lét dómarana fá það óþvegið í lokin.
Við keyrðum síðan heim í svartaþoku og myrkri og ég fann að ég er orðin ansi óvön að keyra við þessi skilyrði og var orðin ansi þreytt þegar ég kom heim. Svona er að vera orðin svona mikið blessað borgarbarn. Dreifbýlistaktarnir alveg að hverfa ,því miður, þori varla upp í Mosfellsbæ ef það snjóar pínulítið.
Svo var bara að takast á við vinnuna og blessaða skjólstæðingana sem láta hafa misjafnlega mikið fyrir sér. Mannekla og tímaskortur að hrjá alla en það verður nú mikil guðsblessun að fá svona mikla peninga næstu 3 mánuði til að sætta sig við álagið sem fylgir því að sitja eftir á hugsjóninni einni saman þegar hinir yngri leita á ný mið. Eða er ég orðin of gömulog kjarklaus til að þora að skipta um starfsvettvang?
Reyndar hef ég ekki enn fundið það starf sem ég vildi heldur sinna, sem betur fer finn ég mig enn í starfinu þótt dagamunur sé á starfsgleðinni. Finnst reyndar að það sé orðinn landlægur sjúkdómur að vera í kvörtunardeildinni alla daga yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Ég held að mörgum þætti það lítilfjörlegt sem við höfum að kvarta yfir og flest er það sjálfskapað.
Ríkur maður er ekki endilega sá sem á mikið, heldur sá sem þráir minna, las ég einhvers staðar og held að það sé mikið til í því. Eigum við ekki alveg nóg af drasli þótt við þurfum ekki alltaf að vera að bæta við til að gleðja sálina? Sú gleði endist yfirleitt svo stutt hvort sem er.
Best ég hætti núna áður en ég verð orðin eins og Össur. Læt honum eftir borgarstjórnarbloggið þótt ég eigi erfitt með að skilja af hverju þetta fólk getur ekki bara unnið saman eins og fólk og eytt skattpeningunum okkar í eitthvað annað en að skipta um meirihluta á nokkurra daga fresti.
Getum við ekki bara kosið fók eins og í sveitinni í gamla daga og hætt að hafa þessa blessaða stjórnmálaflokka til að flækja málin? Og hana nú.

No comments: