Monday, April 6, 2009

Páskafrí í Englandi

Í Safari Park

Þau fengu að halda á uglu.
Ég er viss um að þetta var brandugla því hún var svo hrifin af Brandi.

Og það syntu svanir á tjörninni.

Það þarf stundum að grípa tækifærið til að fá að knúsa þennan strák.

Gott leikvæði (reyndar gatan) fyrir framan húsið og alltaf fullt af börnum að leika sér.

Tívolíið í Hunstanton sem við fundum fyrir tilviljun
þegar við vorum að leita að sjónum fyrir Dóru.

Við ströndina, þarna var dálítið svalt eins og á Íslandi.
Rúnu leiðist ekki að stilla sér upp fyrir myndatöku.

Frænkur okkar með ungana sína í Safari Park.

Brandur fór í sólbað en fækkaði lítið fötum. Sólstrandarfötin voru skilin eftir heima, bjuggumst ekki við svona veðri í Englandi.

Frænkurnar voru mjög glaðar yfir að fá að vera saman.

Í lestinni á Stansted.

Við komum hingað til Englands miðvikudaginn 1. apríl. Dóra tók á móti okkur á Stansted og kom okkur heilum heim til Beck Row en þar býr hún núna. Þetta er næstum því úti í sveit, sveitabæir allt um kring. Veðrið hefur verið frábært það sem af er, sólskin og logn og mjög hlýtt, peysuveður alla daga. Við erum búin að fara í bíltúr út að ströndinni til að Dóra gæti séð sjóinn en hann hafði hún ekki séð síðan í fyrra sumar heima á Íslandi. Þar hittum við á Tívolí svo það glaðnaði yfir börnunum eftir setuna í bílnum.
Í gær fórum við svo í suðurátt, fórum í dýragarð, Safari Park, en þar eru flest dýrin frjáls úti í náttúrunni en mannfólkið lokað inni í bílunum sínum. Þetta er smásýnishorn af Afríku, mjög skemmtilegt svæði og ólíkt skemmtilegra að sjá dýrin frjáls heldur en innilokuð í búrum. Við borðuðum svo nesti í garðinum og svo fengu krakkarnir smáútrás fyrir hreyfiþörfina í Örkinni hans Nóa, sem er innileiksvæði, og fóru á svanabát út á litla tjörn. Þetta var sem sagt mjög skemmtilegur dagur og veðrið ótrúlega gott.
Í dag er rólegheitadagur, börnin úti að leika sér og við slökum á.

No comments: