
Enn einn sólardagurinn að kvöldi kominn. Dóra segir að þetta sé orðið frekar óvenjulegt fyrir veðráttuna hér, rigningin er venjulegri.
Við keyrðum í dag til Bury St Edmunds og ætluðum að skoða þar Bury Cathedral, gamla kirkju með heilmikla sögu sem ég á eftir að afla mér vitneskju um, og fallega gamla garða sem eru þar í kring. En þarna var allt lokað og löggur út um allt svo við héldum að við værum komin inn í miðjan glæpavettvang og urðum voðalega spennt. Til að fá forvitni minni svalað spurði Dóra eina lögguna hvað væri um að vera. Ástæðan var ekki alveg eins spennandi, blessuð drottningin er að koma í heimsókn á morgun til að gefa gömlu fólki peninga en það gerir hún einu sinni á ári blessuð gamla konan og Bury varð sem sagt fyrir valinu núna. Það var því verið að loka öllu og fínkemba allt, meira að segja ræsishlemmarnir voru innsiglaðir.
Við Brandur ætlum að fara á morgun og vita hvort við fáum ekki smápening en við megum líklega ekki segja að við séum frá Íslandi því þá mun gamla fólkið líklega ráðast á okkur og reyna að ná því sem það tapaði í Icesave. Við keyrðum svo aftur heim og keyptum pizzu ofan í liðið og nú er Brandur límdur við sjónvarpið yfir leik Liverpool og Chelsea en þar langaði hann að vera þessa stundina en fékk ekki að fara. Dálítið langt að fara þangað svo hann verður bara að vera í stúkusæti hérna heima. Staðan er 1-1 núna og svipurinn farinn að þyngjast.
1 comment:
Liverpool tapaði að lokum og ekki léttist svipurinn þá en hann jafnaði sig um síðir.
Post a Comment