
Heimför var áætluð á annan í páskum og áttum við að fara í loftið kl 20:30. Við lögðum af stað með góðum fyrirvara um hálfsex. Nágrannakonan tók Roman og Rúnu að sér og svo var lagt af stað. Ég hafði á orði þegar við ókum út úr Beck Row að hingað ætti ég sennilega ekki eftir að koma aftur þar sem Dóra flytur til Þýskalands eftir eitt ár. Þegar við höfðum ekið í 5 mínútur hægðist verulega á umferðinni og augljóst að eitthvað hafði gerst á hraðbrautinni A14. Við heyrðum svo í útvarpinu að það hefði orðið slys nálægt Newmarket. Við sátum síðan föst á hraðbrautinni í þrjá og hálfan klukkutíma og misstum auðvitað af vélinni heim. Þegar við gátum loksins snúið við tók það okkur 13 mínútur að keyra aftur heim til Beck Row sem ég hélt að ég myndi ekki sjá aftur. Þetta var dálítið spennuþrungin ferð en við reyndum að gera grín að öllu saman og lífga upp á samveruna með pissuferðum upp í skóg eða bara milli hurða og held ég að Viktoría hafi haft frá nógu að segja þegar hún komst í skólann aftur.
Við urðum að bóka nýja ferð heim næsta dag og þá tókst okkur að komast alla leið vandræðalaust. Þetta varð dálítið dýrara en við reiknuðum með og smáa letrið hjá tryggingunum sá til þess að við urðum að sitja uppi með það en eins og Brandur segir, ekki orð umþað meir. Þetta hefði getað verið verra, ekki lentum við alla vega í slysinu.
En okkur fannst samt skrýtið hvað þetta tók allt langan tíma. Bíll valt inn á bensínstöð við hraðbrautina kl hálfþrjú og tveir dóu í slysinu. Lögreglan lokaði þá strax öllum þremur akreinum brautarinnar og beindi umferðinni inn í Newmarket og hún opnaði hana ekki aftur fyrr en kl níu um kvöldið. Það tók því rúma sex klukkutíma að athafna sig á slysstað. Umferðin komst svo ekki í eðlilegt horf fyrr en um miðnætti. Gott að búa á Íslandi þrátt fyrir allt.
No comments:
Post a Comment