Sunday, January 25, 2009

Minningarorð um Auði Kristmundsdóttur

Auður Kristmundsdóttir
f. 26. maí 1951 d. 12. janúar 2009
Auður Kristmundsdóttir vinkona mín og samkennari til margra ára, kvaddi þann 12. janúar eftir langa og stranga baráttu við krabbamein. Ég kynntist Auði þegar ég byrjaði að kenna í Varmárskóla haustið 1979. Það fór ekki fram hjá neinum ef Auður var einhvers staðar nálægt. Hún var alltaf kát og hress og lét í sér heyra og hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum. Í huga mér er hún alltaf skellihlæjandi og oftar en ekki að sjálfri sér því það sem Auður kunni best var að segja sögur og þær voru oftar en ekki af henni sjálfri við ýmsar spaugilegar aðstæður. Það er ekki öllum gefið að hlæja að sjálfum sér, flestir eiga auðveldara með að hlæja að öðrum.
Við vorum töluvert saman á ákveðnu tímabili og studdum hvor aðra þegar þess þurfit með. Síðan skildu leiðir. Auður fór að ¨vinna¨ eins og sumir kalla það þegar kennarar fara að vinna við annað en kennslu. Hún fór að vinna að ferðamálum en ég hélt áfram að kenna og flakkaði dálítið um landið um tíma og þar með höfðum við lítið af hvor annarri að segja. Ég hef fylgst með baráttu Auðar við krabbameinið í gegnum sameiginlega vini en nú í haust fékk ég tækifæri til að ganga inn í þann vinahóp á ný sem ég hafði ekki haft samband við um nokkurt skeið. Í mörg ár hefur þessi hópur steikt saman laufabrauð fyrir jólin og nú í desember var mér boðin þátttaka í þessum skemmtilega laufabrauðsklúbbi. Þetta kvöld verður okkur öllum minnisstætt þar sem Auður var búin að fá þá niðurstöðu að ekkert væri meira hægt að gera fyrir hana og tímaspursmál hvenær hún kveddi þennan heim. Hún sagði okkur þetta hispurslaust og kvaddi okkur á þann hátt sem enginn hefði getað gert annar en hún. Hún sagðist ætla að eiga góð jól og áramót með fjölskyldunni, borða góðan mat og njóta þess að eiga góðan mann, börn, stjúpbörn og barnabörn en þau væru það sem hún mæti mest í lífinu og væri stoltust af. Þau hafa líka öll staðið við hlið hennar fram á síðasta dag og munu halda minningu hennar á lofti eins og við gerum öll sem þekktum hana. Það er ekki öllum gefið að geta hlegið við slíkar aðstæður en hún sagðist aldrei hafa leyft sér að vera með eitthvað vol og væl því það hjálpaði engum, hvorki henni sjálfri né þeim sem næst henni stæðu. Hún taldi það forréttindi að fá að vita að hverju stefndi og geta gengið frá sínum málum og kvatt alla á sinn hátt. Auður boðaði okkur svo allar til sín þegar hún fann að hverju stefndi og kvaddi ég hana í Austurbrúninni þar sem hún var umvafin nánustu ættingjum og vinum. Og enn gat hún hlegið og gert að gamni sínu. Hún hafði t.d. ekki haft tíma til að mála sig vegna gestagangs og sagðist því örugglega líta út eins og krabbameinssjúklingur. Það var skrýtin tilfinning að vera stödd þarna til að kveðja Auði að eilífu en samt gat hún ennþá hlegið og gert að gamni sínu og látið okkur líða eins og þetta væri bara venjulegt kaffiboð.
Auður var kvödd í Dómkirkjunni miðvikudaginn 21. janúar. Mótmælendur streymdu í miðbæinn með sína potta og pönnur en sýndu þá virðingu að flytja sig annað á meðan á athöfninni stóð. Ekki voru allir jafnsiðprúðir því í miðjum minningarorðum gengu nokkrir framhjá með bumbur sínar en sr. Hjálmar Jónsson fékk þá til að hætta svo það var hægt að ljúka athöfninni í friði og ró.
Þegar út var komið var Austurvöllur þéttskipaður mótmælendum og lögreglumönnum sem stóðu vörð um kirkjuna og við þessar óvenjulegu aðstæður kvöddum við Auði áður en hún lagði í sína hinstu för. Lögreglukórinn sem gat ekki sungið við athöfnina vegna mótmælanna stóð því vörð fyrir utan kirkjuna. Mótmælendur töluðu síðan fjálglega um það í fjölmiðlum að þeir hefðu sýnt aðstandendum þá virðingu að hafa verið með þögul mótmæli á meðan athöfnin stóð yfir en mér persónulega hefði fundist að þeir hefðu sýnt meiri virðingu með því að halda sig fjarri á meðan. En kannski hefði Auður sjálf haft lúmskt gaman af þessari uppákomu og hlegið að öllu saman og sögur hennar sjálfrar af þessari óvenjulegu jarðarför hefðu orðið mun skemmtilegri en mín frásögn. Ég óska þess að fjölskylda Auðar búi að þeim andlega styrk sem hún bjó yfir og miðlaði til annarra og geti haldið áfram sinni lífsbaráttu með minningu hennar að leiðarljósi.
Blessuð sé minning hennar.

No comments: