Við rennum inn í nýtt ár með ýmsum nýjungum, t.d. blóðugum mótmælum í miðbænum. Við erum víst komin á 4. stig sorgarviðbragðanna þar sem reiðin brýst út. Flestir láta sér duga að berja í potta og pönnur enda ganga mótmælin undir heitinu Búsáhaldamótmælin. Fámennur hópur lætur það ekki duga og gengur fram í því að brjóta rúður, henda eggjum í lögreglumenn og hrópa vígorð. Því miður þarf lögreglan að taka við öllum óhróðrinum meðan þeir sem ábyrgðina bera fela sig bak við luktar dyr. Svipað og þegar afgreiðslumaðurinn á kassanum fær allar skammirnar um hækkað matarverð eða rangar verðmerkingar.
Þeir sem teygðu sig lengst yfir velsæmismörkin hentu mannasaur og gangstéttarhellum í lögregluna og þar með ofbauð hinum friðsamari mómæendum og slógu þeir skjaldborg um lögreglumennina eftir að búið var að flytja nokkra þeirra slasaða á bráðamóttökuna. Ég veit að það eru svartir sauðir innan lögreglunnar eins og innan allra annarra starfsstétta en ég er samt undrandi hvað þeir halda lengi ró sinni meðan menn lemja á hjálma þeirra og henda í þá mannasaur og hlandi, ég væri alla vega löngu sprungin og eins gott að ég er ekki lögreglumaður.
En eins og venjulega þarf oft að fara yfir markalínu siðferðisins til að þeir hófsamari rísi upp og það gerðist nú og hafa þeir fordæmt hina öfgafullu mótmælendur og ofbeldisaðferðir þeirra og í gær voru fjölmennustu mótmælin til þessa á Austurvelli en þau fóru friðsamlega fram.
Eftir þetta allt saman hefur einn stjórnarherranna lýst því yfir að hann ásamt öðrum beri ábyrgð á ástandinu og hefur sagt af sér núna í morgunsárið. Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra er því fyrstur til að axla ábyrgð á gjörðum sínum og vonandi fylgja fleiri í kjölfarið. Nú er bara að vona að það séu til einhverjir færari til að stýra okkur út úr þessu ástandi án þess að gera illt verra.
Væri ekki skynsamlegt að Alþingi auglýsti störf ráðherranna og veldi fólk sem hefur eitthvað annað en póltitíska skoðun fram að færa, hefði t.d. menntun og reynslu af því að stjórna fjármálum fyrirtækja án þess að hafa sett þau á hausinn. Ég myndi mæla með Önnu Margréti vinkonu minni í fjármálaráðuneytið. Hún myndi vera fljót að hreinsa til eins og svo margar aðrar hagsýnar húsmæður sem ekki eru orðnar spilltar í karlaheiminum og eru að reyna að feta í fótspor þeirra.
Nú óska ég þess að siðferði okkar Íslendinga færist aftur á eðlilegt stig, ekki bara í peningamælaum heldur einnig að við lærum að frelsi er einungis til góðs ef við notum það af skynsemi og meiðum engan. Ég las einhvers staðar þessa tilvitnum: Við berjumst fyrir frelsi og að fá að vera sjálfstæð þjóð. Næsta skref er að læra að umgangast frelsið.
Þeir sem stýra miðlum þessa lands þurfa að læra þessa lexíu því oft má satt kyrrt liggja eins og móðir mín sagði oft. Eins vildi ég gjarnan að börnum og unglingum þessa lands yrði hlíft við þeim sora sem oft er sýndur í sjónvarpi og jafnvel ekki varað við á miðjum sunnudagskvöldum. Þótt ég hljómi eins og húsmóðirin í Vesturbænum þá lít ég svo á að það sem fólk gerir jafnan í einrúmi og ekki fyrir augum almennings ætti að fá að vera þar á bak við luktar dyr. Ég tek undir með þeim sem sagði að honum liði oft eins og hann lægi á skráargatinu yfir ýmsu sjónvarpsefni og það fyndist honum ekki góð tilfinning. Sumir segja að við þessi viðkvæmu getum bara slökkt á sjónvarpinu ef okkur blöskrar eitthvað en mér finnst það ekki góð lausn því við sem vinnum með börn vitum hvaða áhrif svona sjónvarpsefni hefur á þau. Börn hafa siðferðiskennd og ef hún er brotin áður en þau hafa vit til að greina á milli þess sem er rétt og rangt þá eru þau svipt frelsinu til að vera saklaus börn og það hefur oft mjög slæm áhrif á uppvöxt þeirra og framvindu.
Læt ég nú lokið hugleiðingum um lífið og tilveruna hér á landi.
No comments:
Post a Comment