Sunday, January 25, 2009

Skólabróðir kvaddur

Laugardagskvöld á Reykjaskóla, söngurinn um Pálínu og saumamaskínuna.
Þekkið þið mig þarna? Einu sinni var ég ung og sæt, nú er ég bara sæt-eða þannig.

Man ekki hvað leikritið hét en þarna er alla vega Stína Einars og að ég held Sigrún Ingþórs að skamma mig.

Ella Sigurgeirs og Alda örugglega að æfa söngatriði í kojunni.

Og að loknum prófum var haldið í 3ja daga skólaferðalag um Suðurland. Þarna erum við á Kambabrún. Mér er eftirminnilegast hvað grasið var grænt undir Eyjafjöllum og kýrnar komnar út á beit eftir að hafa skilið við Hrútafjörðinn gráan og gugginn eftir mikinn hafísvetur. Og svo var hafísinn snúinn aftur þegar við komum til baka. Hefðum getað gert aðra tilraun til að heimsækja Borðeyri.


Í gær, þann 24. janúar, var Friðrik Böðvarsson (Frikki Bö) skólabróðir minn frá Reykjaskóla jarðsettur. Hann er sá þriðji úr þessum árgangi sem fellur frá langt fyrir aldur fram. Áður höfðu kvatt þeir Bjarni Frímannsson og Aðalbjörn Grímsson.
Ég var í heimavist á Reykjaskóla veturinn 1968-69 og á þaðan margar af mínum bestu minningum. Þarna dvöldum við allan veturinn eins og ein fjölskylda, aðeins skroppið heim í jóla- og páskafrí og mig minnir að ég hafi beðið spennt eftir að komast aftur til baka í fjörið.
Skólastjórinn, Ólafur Kristjánsson, hélt uppi ströngum aga en þrátt fyrir það tókst okkur að framkvæma eitt og annað sem honum hugnaðist ekki alltaf. Seinni part vetrar lagðist hafís inn í Hrútafjörðinn og þótti okkur það ótrúlega spennandi. Einn sunnudaginn ákváðum við nokkrir vitleysingar að skreppa í heimsókn yfir fjörðinn, fara yfir að Borðeyri en þar átti einn af félögunum heima. Þetta var svo stutt að skunda bara yfir hafísinn og svo aftur til baka án þess að nokkur vissi af. Þegar út á miðjan fjörðinn var komið fóru jakarnir að hreyfast og bilið á milli þeirra að lengjast. Sem betur fer var einn úr hópnum uppalinn við sjó og kallaði til að okkar að það væri að koma flóð og við yrðum að fýta okkur til baka. Ef til vill rifjaðist það upp fyrir mér þarna að ég var ósynd með öllu, spenningurinn breyttist alla vega í hræðslu og það var þögull hópur sem stökk á milli jaka til að komast aftur í land og á rifinu sem við gengum á þurrum fótum nokkru áður, þurftum við að vaða sjóinn í hné. Úti á tanganum stóð okkar ástsæli skólastjóri með gjallarhorn að reyna að kalla hópinn í land og það var löng ræða á sal þennan sunnudaginn og við ekki mjög upplitsdjörf. Þegar ég seinna meir var farin sjálf að bera ábyrgð á nemendum skildi ég vel tilfinningar Ólafs þennan dag. En sem betur fer var okkur ætlað að eiga lengri framtíð fyrir okkur og engum varð meint af.
Ungmennum í dag myndi líklega finnast félagslíf okkar hafa verið með meira móti miðað við það sem tíðkast í skólum í dag. Á hverju laugardagskvöldi var ball og þar spilaði skólahljómsveitin allan veturinn fyrir dansi. Og það var ekkert rokk og ról, bara gömlu dansarnir, og við lifum á því enn í dag að hafa fengið æfingu og kennslu í þeim, enda mikið dansað þegar við hittumst en við höfum hist á fimm ára fresti síðan skólagöngu lauk og oftar fyrstu árin. Áður en böllin hófust voru alltaf leiksýningar og söngur og mikið æft í hverri einustu viku. Þann 1. desember og á árshátíðinni var mikið haft við, leikrit sett upp undir stjórn Bjarna kennara, Palli íþróttakennari æfði upp fimleikahóp og þeir sem gátu sungið fengu að láta ljós sitt skína. Ég var svo heppin að fá að vera í leikrítunum þar sem ég var hvorki liðtæk í söngnum né fimleikahópnum. Ég fékk t.d. það eftirsótta hlutverk að leika Gróu á Leiti en ég vona að hún hafi ekki haft áhrif á frásagnar-hæfileika mína í lífinu.
Í vor eru 40 ár síðan við kvöddumst með tárum á Reykjaskóla vorið 1969 og héldum út í lífið blaut á bak við eyrun. Við vorum samt nokkuð mörg sem fórum í Kennó og þeir sem fóru hingað suður héldu áfram hópinn nokkuð lengi. Það verður örugglega engin breyting á því meðan við höldum andlegri heilsu að hittast á fimm ára fresti og kannski væri skynsamlegt að hafa það bara oftar eftir að aldurinn færist yfir okkur.

No comments: