Saturday, January 10, 2009

Að loknu jólafríi

Þá eru jólin búin með tilheyrandi neyslu á mat og drykk. Ósköp gott að komast aftur inn í rútínuna og lofa auðvitað sjálfum sér öllu fögru, nú skal breyta um mataræði og fara út og hreyfa sig o.s.frv. Ekki alveg farin að standa við það en það kemur - kannski.
Fyrsta vinnuvikan að baki og það er eins og hún sé alltaf lengri en þær sem koma á eftir. Börn og fullorðnir að komast aftur í gang og baslast við að koma sólarhringnum aftur á rétt ról.
Brandur fór út á sjó á sunnudaginn var og er búinn að vera alla vikuna að leita að loðnu sem hefur augljóslega haldið jól einhvers staðar annars staðar en hér við land, ef marka má fréttir.
Veðrið hefur verið hlýtt og blautt en nú er kuldatíð fram undan, spáð hökugaddi og líklega þarf að fara að nota sköfu og kúst aftur, eins og það er nú skemmtilegt. Æ ég var búin að heita því að líta björtum augum á allt sem framundan væri. Hvað er kuldi og snjór miðað við það sem aðrar þjóðir þurfa að þola eins og t.d. í Palestínu og auðvitað víðar. Hvers vegna í ósköpunum þróast mannskepnan ekki í átt til náungakærleika og manngæsku? Skyldi sú stund upp renna að stríð verði ekki háð og horft verði til baka með hneykslun og spurt hvort það sé virkilega satt að maðurinn hafi í fortíðinni kastað sprengjum yfir hvern annan og þróað sífellt tæknilegri og öflugri tæki til að drepa? Við lesum í mannkynssögunni um kristna sem var kastað fyrir ljón og þetta var hin besta sunnudagsskemmtun fyrir siðspillta stjórnarherra og konur og hugsum að svona gerist nú ekki í dag.
Því miður er það blekking og tál þar sem einstaka fréttamenn reyna að koma boðum til umheimsins um hvað er að gerast í Afríku, Palestínu og Afganistan. Maðurinn þróar tæki og tól en því miður ekki sjálfan sig.
Við prísum okkur sæl hér á Íslandi að hafa ekki stríð og her en því miður eru hér háð einkastríð þar sem mannvonska og siðleysi ræður ríkjum. Einstaka mál rata í fjölmiðla og við fyllumst hneykslun í smátíma og svo gleymum við því bara og allir hugsa það sama - ég get ekkert gert í þessu, getur lögreglan ekki passað upp á þetta lið sem er að meiða hvert annað?
Nóg um það, þetta átti ekki að vera svona pistill.
Það sem að mér stendur er í þokkalegu standi, heilsufarslega og efnahagslega, alla vega ennþá og ég þakka fyrir það. Annar tengdasonurinn reyndar í Afganistan að gera við flugvélar og lítið hægt annað að gera en að biðja þess að hann komi heill til baka og að kona og börn þreyi þorrann á meðan. Okkar stóri ættbálkur er okkar auður og meðan hann heldur velli og kemst vel af þá er engin ástæða til að kvarta.

No comments: