Thursday, January 29, 2009

Ég átti afmæli í dag ....

Afmælisblómvöndurinn frá Brandi.
Kokkurinn minn getur verið stoltur af afmælismatnum sem ég fékk á Laugaási.
Á eftir fórum við heim og fengum okkur súkkulaðitertu sem
litla dóttir mín bakaði í dag fyrir mömmu sína.
Á meðan fræddi hún okkur um lýtalækningar og

sýndi okkur myndir sem björguðu mér frá ofáti.

Hún er mjög áhugasöm í hjúkrunarnáminu og
fæ ég stundum að finna fyrir því.

Það er mikið reynt að passa upp á heilsufarið á

þeirri gömlu.


Aðeins að sýna að það getur ennþá komið vetur á Íslandi. Það kyngdi niður snjó í gær í logni og í dag var allt svo fallegt í sólskininu að fólk gleymdi jafnvel að tala um kreppuna. Trén eru þakin snjó og það er svo sannarlega hægt að taka jólakortsmyndir núna. Tek betri á morgun.

Snædís og Beta ,,fósturdóttir¨ saddar og sælar í snjónum.



Dagurinn er búinn að vera yndislegur. Ég hef sjaldan fengið svona mikið af heillaóskum og faðmlögum í einu. Var föðmuð fram eftir degi af samstarfsfólki í skólanum og síðan tóku Önnurnar við og gáfu sér tíma til að heimsækja þá gömlu og færa henni gjafir, blómaskreytingu, sturtusápu og bodylotion. Snædís og Fannar gáfu mér Aveda sturtuskrúbb (og afmælismat á Laugaási) svo nú er ég farin að bíða eftir að komast undir sturtuna. Brandur lét senda mér þennan flotta blómvönd og Maggý gaf mér flotta peysu og kerti. Beta gaf mér kertastjaka og kerti og síðast en ekki síst gaf Jói mér þessa fínu afmælisveislu á Laugaási. Í morgun opnaði ég svo pakka frá Englendingunum mínum en hann er ég búin að horfa á síðan fyrir jól og taldi mig góða að vera búin að standast það að opna hann þangað til núna. Upp úr honum kom undurfallegt hjartahálsmen svo það er ekki ofsögum sagt að mínir góðu ættingjar og vinir hafa dekrað við mig í dag. Ég þakka fyrir mig og hvern nýjan dag og nýt þess að vera til þótt á seinni hlutann sé farið að síga. Ég bý við ríkidæmi, á stóra fjölskyldu og góðan og vandaðan vinahóp og hver getur beðið um meira.






Sunday, January 25, 2009

Skólabróðir kvaddur

Laugardagskvöld á Reykjaskóla, söngurinn um Pálínu og saumamaskínuna.
Þekkið þið mig þarna? Einu sinni var ég ung og sæt, nú er ég bara sæt-eða þannig.

Man ekki hvað leikritið hét en þarna er alla vega Stína Einars og að ég held Sigrún Ingþórs að skamma mig.

Ella Sigurgeirs og Alda örugglega að æfa söngatriði í kojunni.

Og að loknum prófum var haldið í 3ja daga skólaferðalag um Suðurland. Þarna erum við á Kambabrún. Mér er eftirminnilegast hvað grasið var grænt undir Eyjafjöllum og kýrnar komnar út á beit eftir að hafa skilið við Hrútafjörðinn gráan og gugginn eftir mikinn hafísvetur. Og svo var hafísinn snúinn aftur þegar við komum til baka. Hefðum getað gert aðra tilraun til að heimsækja Borðeyri.


Í gær, þann 24. janúar, var Friðrik Böðvarsson (Frikki Bö) skólabróðir minn frá Reykjaskóla jarðsettur. Hann er sá þriðji úr þessum árgangi sem fellur frá langt fyrir aldur fram. Áður höfðu kvatt þeir Bjarni Frímannsson og Aðalbjörn Grímsson.
Ég var í heimavist á Reykjaskóla veturinn 1968-69 og á þaðan margar af mínum bestu minningum. Þarna dvöldum við allan veturinn eins og ein fjölskylda, aðeins skroppið heim í jóla- og páskafrí og mig minnir að ég hafi beðið spennt eftir að komast aftur til baka í fjörið.
Skólastjórinn, Ólafur Kristjánsson, hélt uppi ströngum aga en þrátt fyrir það tókst okkur að framkvæma eitt og annað sem honum hugnaðist ekki alltaf. Seinni part vetrar lagðist hafís inn í Hrútafjörðinn og þótti okkur það ótrúlega spennandi. Einn sunnudaginn ákváðum við nokkrir vitleysingar að skreppa í heimsókn yfir fjörðinn, fara yfir að Borðeyri en þar átti einn af félögunum heima. Þetta var svo stutt að skunda bara yfir hafísinn og svo aftur til baka án þess að nokkur vissi af. Þegar út á miðjan fjörðinn var komið fóru jakarnir að hreyfast og bilið á milli þeirra að lengjast. Sem betur fer var einn úr hópnum uppalinn við sjó og kallaði til að okkar að það væri að koma flóð og við yrðum að fýta okkur til baka. Ef til vill rifjaðist það upp fyrir mér þarna að ég var ósynd með öllu, spenningurinn breyttist alla vega í hræðslu og það var þögull hópur sem stökk á milli jaka til að komast aftur í land og á rifinu sem við gengum á þurrum fótum nokkru áður, þurftum við að vaða sjóinn í hné. Úti á tanganum stóð okkar ástsæli skólastjóri með gjallarhorn að reyna að kalla hópinn í land og það var löng ræða á sal þennan sunnudaginn og við ekki mjög upplitsdjörf. Þegar ég seinna meir var farin sjálf að bera ábyrgð á nemendum skildi ég vel tilfinningar Ólafs þennan dag. En sem betur fer var okkur ætlað að eiga lengri framtíð fyrir okkur og engum varð meint af.
Ungmennum í dag myndi líklega finnast félagslíf okkar hafa verið með meira móti miðað við það sem tíðkast í skólum í dag. Á hverju laugardagskvöldi var ball og þar spilaði skólahljómsveitin allan veturinn fyrir dansi. Og það var ekkert rokk og ról, bara gömlu dansarnir, og við lifum á því enn í dag að hafa fengið æfingu og kennslu í þeim, enda mikið dansað þegar við hittumst en við höfum hist á fimm ára fresti síðan skólagöngu lauk og oftar fyrstu árin. Áður en böllin hófust voru alltaf leiksýningar og söngur og mikið æft í hverri einustu viku. Þann 1. desember og á árshátíðinni var mikið haft við, leikrit sett upp undir stjórn Bjarna kennara, Palli íþróttakennari æfði upp fimleikahóp og þeir sem gátu sungið fengu að láta ljós sitt skína. Ég var svo heppin að fá að vera í leikrítunum þar sem ég var hvorki liðtæk í söngnum né fimleikahópnum. Ég fékk t.d. það eftirsótta hlutverk að leika Gróu á Leiti en ég vona að hún hafi ekki haft áhrif á frásagnar-hæfileika mína í lífinu.
Í vor eru 40 ár síðan við kvöddumst með tárum á Reykjaskóla vorið 1969 og héldum út í lífið blaut á bak við eyrun. Við vorum samt nokkuð mörg sem fórum í Kennó og þeir sem fóru hingað suður héldu áfram hópinn nokkuð lengi. Það verður örugglega engin breyting á því meðan við höldum andlegri heilsu að hittast á fimm ára fresti og kannski væri skynsamlegt að hafa það bara oftar eftir að aldurinn færist yfir okkur.

Minningarorð um Auði Kristmundsdóttur

Auður Kristmundsdóttir
f. 26. maí 1951 d. 12. janúar 2009
Auður Kristmundsdóttir vinkona mín og samkennari til margra ára, kvaddi þann 12. janúar eftir langa og stranga baráttu við krabbamein. Ég kynntist Auði þegar ég byrjaði að kenna í Varmárskóla haustið 1979. Það fór ekki fram hjá neinum ef Auður var einhvers staðar nálægt. Hún var alltaf kát og hress og lét í sér heyra og hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum. Í huga mér er hún alltaf skellihlæjandi og oftar en ekki að sjálfri sér því það sem Auður kunni best var að segja sögur og þær voru oftar en ekki af henni sjálfri við ýmsar spaugilegar aðstæður. Það er ekki öllum gefið að hlæja að sjálfum sér, flestir eiga auðveldara með að hlæja að öðrum.
Við vorum töluvert saman á ákveðnu tímabili og studdum hvor aðra þegar þess þurfit með. Síðan skildu leiðir. Auður fór að ¨vinna¨ eins og sumir kalla það þegar kennarar fara að vinna við annað en kennslu. Hún fór að vinna að ferðamálum en ég hélt áfram að kenna og flakkaði dálítið um landið um tíma og þar með höfðum við lítið af hvor annarri að segja. Ég hef fylgst með baráttu Auðar við krabbameinið í gegnum sameiginlega vini en nú í haust fékk ég tækifæri til að ganga inn í þann vinahóp á ný sem ég hafði ekki haft samband við um nokkurt skeið. Í mörg ár hefur þessi hópur steikt saman laufabrauð fyrir jólin og nú í desember var mér boðin þátttaka í þessum skemmtilega laufabrauðsklúbbi. Þetta kvöld verður okkur öllum minnisstætt þar sem Auður var búin að fá þá niðurstöðu að ekkert væri meira hægt að gera fyrir hana og tímaspursmál hvenær hún kveddi þennan heim. Hún sagði okkur þetta hispurslaust og kvaddi okkur á þann hátt sem enginn hefði getað gert annar en hún. Hún sagðist ætla að eiga góð jól og áramót með fjölskyldunni, borða góðan mat og njóta þess að eiga góðan mann, börn, stjúpbörn og barnabörn en þau væru það sem hún mæti mest í lífinu og væri stoltust af. Þau hafa líka öll staðið við hlið hennar fram á síðasta dag og munu halda minningu hennar á lofti eins og við gerum öll sem þekktum hana. Það er ekki öllum gefið að geta hlegið við slíkar aðstæður en hún sagðist aldrei hafa leyft sér að vera með eitthvað vol og væl því það hjálpaði engum, hvorki henni sjálfri né þeim sem næst henni stæðu. Hún taldi það forréttindi að fá að vita að hverju stefndi og geta gengið frá sínum málum og kvatt alla á sinn hátt. Auður boðaði okkur svo allar til sín þegar hún fann að hverju stefndi og kvaddi ég hana í Austurbrúninni þar sem hún var umvafin nánustu ættingjum og vinum. Og enn gat hún hlegið og gert að gamni sínu. Hún hafði t.d. ekki haft tíma til að mála sig vegna gestagangs og sagðist því örugglega líta út eins og krabbameinssjúklingur. Það var skrýtin tilfinning að vera stödd þarna til að kveðja Auði að eilífu en samt gat hún ennþá hlegið og gert að gamni sínu og látið okkur líða eins og þetta væri bara venjulegt kaffiboð.
Auður var kvödd í Dómkirkjunni miðvikudaginn 21. janúar. Mótmælendur streymdu í miðbæinn með sína potta og pönnur en sýndu þá virðingu að flytja sig annað á meðan á athöfninni stóð. Ekki voru allir jafnsiðprúðir því í miðjum minningarorðum gengu nokkrir framhjá með bumbur sínar en sr. Hjálmar Jónsson fékk þá til að hætta svo það var hægt að ljúka athöfninni í friði og ró.
Þegar út var komið var Austurvöllur þéttskipaður mótmælendum og lögreglumönnum sem stóðu vörð um kirkjuna og við þessar óvenjulegu aðstæður kvöddum við Auði áður en hún lagði í sína hinstu för. Lögreglukórinn sem gat ekki sungið við athöfnina vegna mótmælanna stóð því vörð fyrir utan kirkjuna. Mótmælendur töluðu síðan fjálglega um það í fjölmiðlum að þeir hefðu sýnt aðstandendum þá virðingu að hafa verið með þögul mótmæli á meðan athöfnin stóð yfir en mér persónulega hefði fundist að þeir hefðu sýnt meiri virðingu með því að halda sig fjarri á meðan. En kannski hefði Auður sjálf haft lúmskt gaman af þessari uppákomu og hlegið að öllu saman og sögur hennar sjálfrar af þessari óvenjulegu jarðarför hefðu orðið mun skemmtilegri en mín frásögn. Ég óska þess að fjölskylda Auðar búi að þeim andlega styrk sem hún bjó yfir og miðlaði til annarra og geti haldið áfram sinni lífsbaráttu með minningu hennar að leiðarljósi.
Blessuð sé minning hennar.

Janúarhugleiðingar

Við rennum inn í nýtt ár með ýmsum nýjungum, t.d. blóðugum mótmælum í miðbænum. Við erum víst komin á 4. stig sorgarviðbragðanna þar sem reiðin brýst út. Flestir láta sér duga að berja í potta og pönnur enda ganga mótmælin undir heitinu Búsáhaldamótmælin. Fámennur hópur lætur það ekki duga og gengur fram í því að brjóta rúður, henda eggjum í lögreglumenn og hrópa vígorð. Því miður þarf lögreglan að taka við öllum óhróðrinum meðan þeir sem ábyrgðina bera fela sig bak við luktar dyr. Svipað og þegar afgreiðslumaðurinn á kassanum fær allar skammirnar um hækkað matarverð eða rangar verðmerkingar.
Þeir sem teygðu sig lengst yfir velsæmismörkin hentu mannasaur og gangstéttarhellum í lögregluna og þar með ofbauð hinum friðsamari mómæendum og slógu þeir skjaldborg um lögreglumennina eftir að búið var að flytja nokkra þeirra slasaða á bráðamóttökuna. Ég veit að það eru svartir sauðir innan lögreglunnar eins og innan allra annarra starfsstétta en ég er samt undrandi hvað þeir halda lengi ró sinni meðan menn lemja á hjálma þeirra og henda í þá mannasaur og hlandi, ég væri alla vega löngu sprungin og eins gott að ég er ekki lögreglumaður.
En eins og venjulega þarf oft að fara yfir markalínu siðferðisins til að þeir hófsamari rísi upp og það gerðist nú og hafa þeir fordæmt hina öfgafullu mótmælendur og ofbeldisaðferðir þeirra og í gær voru fjölmennustu mótmælin til þessa á Austurvelli en þau fóru friðsamlega fram.
Eftir þetta allt saman hefur einn stjórnarherranna lýst því yfir að hann ásamt öðrum beri ábyrgð á ástandinu og hefur sagt af sér núna í morgunsárið. Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra er því fyrstur til að axla ábyrgð á gjörðum sínum og vonandi fylgja fleiri í kjölfarið. Nú er bara að vona að það séu til einhverjir færari til að stýra okkur út úr þessu ástandi án þess að gera illt verra.
Væri ekki skynsamlegt að Alþingi auglýsti störf ráðherranna og veldi fólk sem hefur eitthvað annað en póltitíska skoðun fram að færa, hefði t.d. menntun og reynslu af því að stjórna fjármálum fyrirtækja án þess að hafa sett þau á hausinn. Ég myndi mæla með Önnu Margréti vinkonu minni í fjármálaráðuneytið. Hún myndi vera fljót að hreinsa til eins og svo margar aðrar hagsýnar húsmæður sem ekki eru orðnar spilltar í karlaheiminum og eru að reyna að feta í fótspor þeirra.
Nú óska ég þess að siðferði okkar Íslendinga færist aftur á eðlilegt stig, ekki bara í peningamælaum heldur einnig að við lærum að frelsi er einungis til góðs ef við notum það af skynsemi og meiðum engan. Ég las einhvers staðar þessa tilvitnum: Við berjumst fyrir frelsi og að fá að vera sjálfstæð þjóð. Næsta skref er að læra að umgangast frelsið.
Þeir sem stýra miðlum þessa lands þurfa að læra þessa lexíu því oft má satt kyrrt liggja eins og móðir mín sagði oft. Eins vildi ég gjarnan að börnum og unglingum þessa lands yrði hlíft við þeim sora sem oft er sýndur í sjónvarpi og jafnvel ekki varað við á miðjum sunnudagskvöldum. Þótt ég hljómi eins og húsmóðirin í Vesturbænum þá lít ég svo á að það sem fólk gerir jafnan í einrúmi og ekki fyrir augum almennings ætti að fá að vera þar á bak við luktar dyr. Ég tek undir með þeim sem sagði að honum liði oft eins og hann lægi á skráargatinu yfir ýmsu sjónvarpsefni og það fyndist honum ekki góð tilfinning. Sumir segja að við þessi viðkvæmu getum bara slökkt á sjónvarpinu ef okkur blöskrar eitthvað en mér finnst það ekki góð lausn því við sem vinnum með börn vitum hvaða áhrif svona sjónvarpsefni hefur á þau. Börn hafa siðferðiskennd og ef hún er brotin áður en þau hafa vit til að greina á milli þess sem er rétt og rangt þá eru þau svipt frelsinu til að vera saklaus börn og það hefur oft mjög slæm áhrif á uppvöxt þeirra og framvindu.
Læt ég nú lokið hugleiðingum um lífið og tilveruna hér á landi.

Saturday, January 10, 2009

Að loknu jólafríi

Þá eru jólin búin með tilheyrandi neyslu á mat og drykk. Ósköp gott að komast aftur inn í rútínuna og lofa auðvitað sjálfum sér öllu fögru, nú skal breyta um mataræði og fara út og hreyfa sig o.s.frv. Ekki alveg farin að standa við það en það kemur - kannski.
Fyrsta vinnuvikan að baki og það er eins og hún sé alltaf lengri en þær sem koma á eftir. Börn og fullorðnir að komast aftur í gang og baslast við að koma sólarhringnum aftur á rétt ról.
Brandur fór út á sjó á sunnudaginn var og er búinn að vera alla vikuna að leita að loðnu sem hefur augljóslega haldið jól einhvers staðar annars staðar en hér við land, ef marka má fréttir.
Veðrið hefur verið hlýtt og blautt en nú er kuldatíð fram undan, spáð hökugaddi og líklega þarf að fara að nota sköfu og kúst aftur, eins og það er nú skemmtilegt. Æ ég var búin að heita því að líta björtum augum á allt sem framundan væri. Hvað er kuldi og snjór miðað við það sem aðrar þjóðir þurfa að þola eins og t.d. í Palestínu og auðvitað víðar. Hvers vegna í ósköpunum þróast mannskepnan ekki í átt til náungakærleika og manngæsku? Skyldi sú stund upp renna að stríð verði ekki háð og horft verði til baka með hneykslun og spurt hvort það sé virkilega satt að maðurinn hafi í fortíðinni kastað sprengjum yfir hvern annan og þróað sífellt tæknilegri og öflugri tæki til að drepa? Við lesum í mannkynssögunni um kristna sem var kastað fyrir ljón og þetta var hin besta sunnudagsskemmtun fyrir siðspillta stjórnarherra og konur og hugsum að svona gerist nú ekki í dag.
Því miður er það blekking og tál þar sem einstaka fréttamenn reyna að koma boðum til umheimsins um hvað er að gerast í Afríku, Palestínu og Afganistan. Maðurinn þróar tæki og tól en því miður ekki sjálfan sig.
Við prísum okkur sæl hér á Íslandi að hafa ekki stríð og her en því miður eru hér háð einkastríð þar sem mannvonska og siðleysi ræður ríkjum. Einstaka mál rata í fjölmiðla og við fyllumst hneykslun í smátíma og svo gleymum við því bara og allir hugsa það sama - ég get ekkert gert í þessu, getur lögreglan ekki passað upp á þetta lið sem er að meiða hvert annað?
Nóg um það, þetta átti ekki að vera svona pistill.
Það sem að mér stendur er í þokkalegu standi, heilsufarslega og efnahagslega, alla vega ennþá og ég þakka fyrir það. Annar tengdasonurinn reyndar í Afganistan að gera við flugvélar og lítið hægt annað að gera en að biðja þess að hann komi heill til baka og að kona og börn þreyi þorrann á meðan. Okkar stóri ættbálkur er okkar auður og meðan hann heldur velli og kemst vel af þá er engin ástæða til að kvarta.

Friday, January 2, 2009

Gamlárskvöld í Skógarbæ

Við sáum fram á að vera bara tvö ein á gamlárskvöld og ákváðum því að skella okkur í Skorradalinn. Brandur kveikti í öllu sem hann gat kveikt í, nema skóginum sem betur fer. Eldur logaði í arninum, kyndlar allt um kring og kerti upp um alla veggi. Á miðnætti sendi hann eina rakettu á loft og kveikti í tveimur handblysum. Ég stóð eldvaktina, alltaf sama gungan, fegnust þegar allt er yfirstaðið og allir heilir á húfi.
Fáninn var dreginn að húni þegar við komum í dalinn um fimmleytið en þá var orðið ansi dimmt. Veðrið var frábært, blankalogn og skógurinn speglaðist í vatninu.