Friday, July 11, 2008

Sumarblíða í dalnum

Silla, Sævar og Atli Örn komu og gistu hjá okkur eina nótt. Við heimsóttum eyðibýlið Bakkakot og skrifuðum auðvitað í gestabókina til að kvitta fyrir komu okkar.
Við grilluðum í arninum þessa líka fínu nautasteik og svínalund. Sólríkt á pallinum og 18° hita en dálítill vindur sem gerði þetta þolanlegt fyrir mig en hinir hefðu alveg þegið lognið.

Jói, Guðrún, Viktoría, Daníella og Jökull komu einn daginn í heimsókn en þau voru í bústað matsveina á Svignaskarði. Við fórum niður að vatni að vaða og Viktoría fangaði seiði sem gerði mikla lukku en því var síðan sleppt heilu og höldnu. Þetta er það eina sem veiðst hefur í vatninu hjá okkar fólki en Sævar og Atli reyndu í gær en höfðu ekki erindi sem erfiði en ánægjuna af því að reyna.


Feðginin eru mjög lík og sem betur fer varðveitir sonur minn barnið í sér og hefur gaman af að leika sér með hinum börnunum. Þau feðgin kepptu um hvort gæti vaðið lengra út en ekki urðu nein úrslit í þeirri keppni. Jói og Brandur sýndu aftur á móti snilldartakta við að fleyta kerlingum og lá við að steinarnir þeyttust yfir á bakkann hinum megin.

Jökull Máni naut sín vel í afa og ömmukoti og skoppaði um allt sæll og glaður.

Svo voru borðaðar grillaðar kjúklingabringur úti í sólinni. 23° hiti þennan daginn.

Jökull kominn á háaloftið. Nýi stiginn er algjört þarfaþing og bæði börn og fullorðnir njóta sín vel þarna uppi. Silla, Sævar og Atli sváfu á loftinu í nótt og voru mjög ánægð með aðstöðuna og ekki síður morgunverðinn sem fylgir alltaf með þegar gist er í Skógarbæ, framreiddur af húsbóndanum.

Við fórum og heimsóttum Jóa og fjölskyldu að Svignaskarði og þar töfraði kokkurinn minn fram ljúffengar steikur og meðlæti.

Við sækjum í meiri menningu í Borgarfirðinum heldur en hér í borginni. Leiksýningin Brák í Landnámssetrinu um daginn og á sunnudaginn fórum við á tónleika í Fossatúni. Þar sungu og spiluðu KK og Maggi Eriks fyrir okkur eins og þeim er einum lagið við góðar undirtektir áheyrenda. Sérstaklega var gaman að sjá hvað hópur þroskahamlaðs fólks naut sín vel og tók þátt í tónleikunum af heilum hug, sungið og klappað allan tímann og hafði KK á orði að nú vissi hann hvernig Bítlunum hefði liðið hér á árum áður. Við hin klöppuðum auðvitað líka en ekki með eins óheft og því spurning hver það er sem raunverulega er hamlaður.

Við hittumst nokkrar gellur úr Engjaskóla á Kaffi Flóru í síðustu viku og kjöftuðum pínulítið.
Við vorum bara 4 sem mættum, Elín, Guðný, Jóhanna og ég ásamt börnum Guðnýjar en fámennt er jafnan góðmennt er það ekki?

Jóhanna, samkennari minn, Siggi, Þórunn og Ólöf komu í heimsókn til okkar um síðustu helgi en þau voru í útilegu í Selskógi sem er hinum megin við vatnið. Ég skellti í pönnukökur enda alveg að verða eins og mamma þarna í sveitinni og skammast mín ekki fyrir það. Ekki leiðum að líkjast. Það er einhvern veginn svo miklu skemmtilegra að gera húsverkin í sveitinni heldur en hérna heima. Ég fæ svona sveitakonufíling sem enda er égsveitakona svona innst inni þótt langt sé síðan ég yfirgaf sveitina.
Við erum búin að vera rúma viku í dalnum og allan tímann var í kringum 20° hiti og sólskin alveg eins og var á þessum sama tíma í fyrra. Margt er búið að gera, klára að smíða í kringum nýja loftstigann, setja upp hillur, grisja skóginn og kurla greinar. Og ekki má gleyma jarðarberja-kassanum sem Brandur skellti upp í matjurtahorninu. Við uppgötvuðum hrossagaukshreiður við hliðina á pallinum og í því voru 4 egg sem við fylgdumst spennt með því það er svo gaman að fylgjast með ungunum. Einn daginn voru öll eggin brotin en engir ungar og mikil vonbrigði og óleyst gáta hvað varð af þeim. Fara hrossagauksungar strax á stjá eða var þarna kaldrifjaður morðingi á ferð? Við hjónakornin vorum ekki alveg sammála um það en hinn bjartsýni Brandur vildi auðvitað trúa því að ungarnir væru svona fljótir að koma sér út í lífið og vona ég bara ða hann hafi rétt fyrir sér.
Annars náði ég inn á milli sveitastarfanna að lesa nokkrar bækur og sauma út Snæfellsjökulinn minn. Fannst stundum betra að sitja inni í svalanum þegar hitinn var sem mestur um miðjan daginn. Ekki skrýtið þótt ég sé ekki mikið fyrir sólarlandaferðirnar. Ég las Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur en þar segir frá Naaju sem elst upp á Grænlandi á 15. öld og glímir við ýmsa erfiðleika eftir dauða móður sinnar og kynnist hinum fölu í Vestribyggð. Það er ótrúlega gaman að lesa bækurnar hennar Vilborgar. Henni tekst svo vel að lýsa lífsháttum fyrr á öldum og þótt þetta séu skáldsögur er augljóst að hún leggur mikla vinnu í að lesa sér til um staðhætti og aðstæður á þessum tímum sem hún fléttar síðan persónurnar sínar inn í. Ég er líka farin að leita uppi ævisögur sem eru misjafnar að gæðum. Fann ævisögu KK um daginn og það gerði tónleikana hans einhvern veginn persónulegri að vera búin að lesa um ævi hans sem var nú ansi skrykkjótt á köflum. En ævisögur eru kannski þegar allt kemur til alls mestu skáldsögurnar. Minnið hlýtur að vera gloppótt hjá fleirum en mér. Held að það yrði töluvert um skáldskap ef ég ætlaði að fara að skrifa ævisögu mína. auðvitað miklu snjallara að skrifa svona blogg jafnóðum fyrir börnin sem geta þá seinna meir lesið hvað móðir þeirra lifði nú skemmtilegu lífi eftir að hún hóf að blogga.
Því hér skrifa ég auðvitað bara um það skemmtilega en það neikvæða má bara gleymast.











1 comment:

frugalin said...

Takk fyrir okkur Sigrún mín, ég skil mjög vel að ykkur líði vel þarna, þetta er sko sumarbústaður með sál.