








Við vorum bara 4 sem mættum, Elín, Guðný, Jóhanna og ég ásamt börnum Guðnýjar en fámennt er jafnan góðmennt er það ekki?
Jóhanna, samkennari minn, Siggi, Þórunn og Ólöf komu í heimsókn til okkar um síðustu helgi en þau voru í útilegu í Selskógi sem er hinum megin við vatnið. Ég skellti í pönnukökur enda alveg að verða eins og mamma þarna í sveitinni og skammast mín ekki fyrir það. Ekki leiðum að líkjast. Það er einhvern veginn svo miklu skemmtilegra að gera húsverkin í sveitinni heldur en hérna heima. Ég fæ svona sveitakonufíling sem enda er égsveitakona svona innst inni þótt langt sé síðan ég yfirgaf sveitina.

Við erum búin að vera rúma viku í dalnum og allan tímann var í kringum 20° hiti og sólskin alveg eins og var á þessum sama tíma í fyrra. Margt er búið að gera, klára að smíða í kringum nýja loftstigann, setja upp hillur, grisja skóginn og kurla greinar. Og ekki má gleyma jarðarberja-kassanum sem Brandur skellti upp í matjurtahorninu. Við uppgötvuðum hrossagaukshreiður við hliðina á pallinum og í því voru 4 egg sem við fylgdumst spennt með því það er svo gaman að fylgjast með ungunum. Einn daginn voru öll eggin brotin en engir ungar og mikil vonbrigði og óleyst gáta hvað varð af þeim. Fara hrossagauksungar strax á stjá eða var þarna kaldrifjaður morðingi á ferð? Við hjónakornin vorum ekki alveg sammála um það en hinn bjartsýni Brandur vildi auðvitað trúa því að ungarnir væru svona fljótir að koma sér út í lífið og vona ég bara ða hann hafi rétt fyrir sér.
Annars náði ég inn á milli sveitastarfanna að lesa nokkrar bækur og sauma út Snæfellsjökulinn minn. Fannst stundum betra að sitja inni í svalanum þegar hitinn var sem mestur um miðjan daginn. Ekki skrýtið þótt ég sé ekki mikið fyrir sólarlandaferðirnar. Ég las Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur en þar segir frá Naaju sem elst upp á Grænlandi á 15. öld og glímir við ýmsa erfiðleika eftir dauða móður sinnar og kynnist hinum fölu í Vestribyggð. Það er ótrúlega gaman að lesa bækurnar hennar Vilborgar. Henni tekst svo vel að lýsa lífsháttum fyrr á öldum og þótt þetta séu skáldsögur er augljóst að hún leggur mikla vinnu í að lesa sér til um staðhætti og aðstæður á þessum tímum sem hún fléttar síðan persónurnar sínar inn í. Ég er líka farin að leita uppi ævisögur sem eru misjafnar að gæðum. Fann ævisögu KK um daginn og það gerði tónleikana hans einhvern veginn persónulegri að vera búin að lesa um ævi hans sem var nú ansi skrykkjótt á köflum. En ævisögur eru kannski þegar allt kemur til alls mestu skáldsögurnar. Minnið hlýtur að vera gloppótt hjá fleirum en mér. Held að það yrði töluvert um skáldskap ef ég ætlaði að fara að skrifa ævisögu mína. auðvitað miklu snjallara að skrifa svona blogg jafnóðum fyrir börnin sem geta þá seinna meir lesið hvað móðir þeirra lifði nú skemmtilegu lífi eftir að hún hóf að blogga.
Því hér skrifa ég auðvitað bara um það skemmtilega en það neikvæða má bara gleymast.
1 comment:
Takk fyrir okkur Sigrún mín, ég skil mjög vel að ykkur líði vel þarna, þetta er sko sumarbústaður með sál.
Post a Comment