Wednesday, July 30, 2008

Dagsferð um Snæfellsnes

Séð yfir Breiðuvíkina frá Jökulhálsinum. Við ákváðum að keyra Jökulhálsinn en Jói og Guðrún höfðu aldrei farið þá leið áður og við Brandur að fara í annað sinn. Veðrið var dásamlegt, 22° hiti efst uppi og útsýnið stórfenglegt.
Daníella og Jökull voru sett í skottið og nutu sín vel þar og voru í góðu skapi allan daginn þrátt fyrir 500 km keyrslu.

Daníella og Jökull við Sönghelli með Jökulinn í baksýn. Hann fer minnkandi með hverju árinu.

Jói inni í Sönghelli. Við Jökull sungum og könnuðum hljómburðinn sem er frábær.

Brandur kannaði allan hellinn og merkingarnar sem margar hverjar eru orðnar ansi gamlar eins og SK 1954 bar með sér. Þá hef ég verið 1s árs svo þetta er líklega ekki eftir mig enda kom ég þarna fyrst í fyrra þótt ég hafi átt heima þarna í sveitinni fram á fullorðinsár.

Hellnar í baksýn.
Við fórum í dagsferð um Snæfellsnes með Jóa og fjölskyldu. Tilgangurinn var að kanna aðstæður í félagsheimilinu í Ólafsvík en við erum að fara í brúðkaupið hans Hermanns frænda sem þann 9. ágúst og Jói sér um matinn. Þetta var yndislegur dagur, allt upp í 25°hiti og sólskin. Við fórum fyrst um sunnanvert nesið og keyrðum yfir Jökulháls yfir til Ólafsvíkur og þar var mikil umferð, bæði akandi, hjólandi og gangandi fólk á ferð. Í Ólafsvík var ekki síðra veður og gaman að hitta Hadda og Stellu, borða nýbakaðar pönnukökur og skoða bæinn. Við keyrðum svo norðanvert nesið heim, í gegnum Grundarfjörð og fórum niður í Stykkishólm. Það er svo gaman að vera á ferð í svona góðu veðri, líflegt um að litast, allir úti að viðra sig eða laga til í kringum sig. Við verðum svo allt öðruvísi í svona veðri, skapgóð og félagslynd.




Monday, July 28, 2008

Stutt stopp í borginni

Nýja myndavélin prófuð. Það sést hvað húsmóðirin er orðin afslöppuð í sumarfríinu,
nennir ekki einu sinni að greiða sér, hvað þá setja á sig andlit.

Snædís og Maggý með Þarf sem er augljóslega glaður að vera
kominn aftur heim til mömmu og sleppir ekki af henni loppunum.

Jökull með nýja tattúið en það þvæst sem betur fer af.

Jökull, Viktoría og Jói í heimsókn meðan Guðrún og Daníella stiknuðu í Serbíu.

¨Hvað get ég eiginlega gert hérna heima? Hvenær förum við aftur upp í Skorradal?¨




Sumar á Sigló

Útsýni yfir Siglufjörð af einum snjóflóðavarnargarðinum.
Ég komst hálfa leið upp í Siglufjarðarskarð, akandi en þorði ekki lengra. Fer lengra næst.

Svava, Atli, Ástrós og afi á torginu í glampandi sól og 20° hita að loknu pylsuáti í boði Sparisjóðsins.

Örvar, sjómaðurinn ungi, nýkominn úr róðri, ræðir málin við afa sinn um aflann.

Ólöf, Svava og Atli fylgjast með.

Gömlu vinirnir, Valur og Brandur hittust á torginu og rifjuðu upp gamla tíma.



Litla barnið Ester og pabbi á göngu á snjóvarnargarðinum.

Góðar gönguleiðir á snjóvarnargörðunum.
Kínamúr Siglfirðinga sem verndar bæinn fyrir náttúruöflunum.

Á leiðinni heim skoðuðum við okkur um í Haganesvík sem skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni.

Í Ketilásnum gerðu Stormar stormandi lukku en þar var dansleikur á laugardagskvöldið fyrir 45 ára og eldri í anda hippatímans eins og sést. Mikil gleði og fagnaðarfundir enda margir að hittast eftir áratuga aðskilnað. Við fórum með Ninnu og hennar ættingjum og vinum þar sem okkar aðstandendur sýndu ekki mikinn áhuga og reyndar undir aldri. Þarna var mikið fjör og hinir síungu hljómsveitarmenn í Stormum höfðu augljóslega ekki síður gaman af að rifja upp gamla tíma.

Við vorum á Siglufirði í 5 daga í góðu yfirlæti hjá börnunum hans Brands. Veðrið var dásamlegt, sólskin og 20°stiga hiti allan tímann. Það var dekrað við okkur á alla lund enda lak af okkur streitan og við ætluðum varla að þora að fara suður aftur í borgarstressið. Við fórum í gönguferðir, á rúntinn, grilluðum og nutum þess að vera með börnunum. Það eru forréttindi að fá að alast upp á svona stað, enda heyri ég alla tala um að fara heim til Siglufjarðar þótt þeir hafi jafnvel flutt þaðan á barnsaldri. Það eru 150 hús í bænum sem eru sumarhús, kannski ekki góð þróun fyrir bæinn en sýnir hvað margir leita heim á ný og vilja halda tengslum við bæinn sinn þótt þeir búi orðið annars staðar. Enda augljóst að þarna er gott að vera.





Sunday, July 20, 2008

Góðir dagar í Skógarbæ

Ester, Bjarki, Ástrós og Hera litu við á leiðinni til Eyja.

Þótt bærinn sé ekki stór þá erum við mjög stolt af honum.

Annað sjónarhorn.


Mér fannst passa að láta þennan svepp vaxa á birkitréð einn daginn.

Hera Björk og afi Brandur.

Ástrós Ósk og afi Brandur.
Við erum búin að vera í dalnum síðan á miðvikudag og notið sólar og afslöppunar eins og oft áður. Brandur puðar reyndar allan daginn og virðist líka það vel, finnur alltaf eitthvað til að laga og bæta. Ég dunda mér við lestur, útsaum og föndur. Við erum búin að grisja skóginn töluvert bæði til að fá meira rými í kringum bústaðinn og til að fjarlægja ljót og hálfdauð tré sem skyggðu á önnur fallegri. Mest af því fer í kurlarann til endurvinnslu og annað í eldivið í arininn. Við þorum reyndar ekki að kveikja upp í honum því það er allt orðið skrælnað af þurrki og ekki vert að stuðla að skógareldum í dalnum.
Ester og fjölskylda kom í heimsókn á fimmtudagskvöldið en þau voru á leið til Eyja.
Anna Margrét, Jóhanna, Hans Jakob, Anna Margrét og vinurinn Andri Páll komu í heimsókn í gær. Það er alltaf svo gaman þegar einhverjir mega vera að því að líta við.
Allir velkomnir í Skógarbæ.








Friday, July 11, 2008

Sumarblíða í dalnum

Silla, Sævar og Atli Örn komu og gistu hjá okkur eina nótt. Við heimsóttum eyðibýlið Bakkakot og skrifuðum auðvitað í gestabókina til að kvitta fyrir komu okkar.
Við grilluðum í arninum þessa líka fínu nautasteik og svínalund. Sólríkt á pallinum og 18° hita en dálítill vindur sem gerði þetta þolanlegt fyrir mig en hinir hefðu alveg þegið lognið.

Jói, Guðrún, Viktoría, Daníella og Jökull komu einn daginn í heimsókn en þau voru í bústað matsveina á Svignaskarði. Við fórum niður að vatni að vaða og Viktoría fangaði seiði sem gerði mikla lukku en því var síðan sleppt heilu og höldnu. Þetta er það eina sem veiðst hefur í vatninu hjá okkar fólki en Sævar og Atli reyndu í gær en höfðu ekki erindi sem erfiði en ánægjuna af því að reyna.


Feðginin eru mjög lík og sem betur fer varðveitir sonur minn barnið í sér og hefur gaman af að leika sér með hinum börnunum. Þau feðgin kepptu um hvort gæti vaðið lengra út en ekki urðu nein úrslit í þeirri keppni. Jói og Brandur sýndu aftur á móti snilldartakta við að fleyta kerlingum og lá við að steinarnir þeyttust yfir á bakkann hinum megin.

Jökull Máni naut sín vel í afa og ömmukoti og skoppaði um allt sæll og glaður.

Svo voru borðaðar grillaðar kjúklingabringur úti í sólinni. 23° hiti þennan daginn.

Jökull kominn á háaloftið. Nýi stiginn er algjört þarfaþing og bæði börn og fullorðnir njóta sín vel þarna uppi. Silla, Sævar og Atli sváfu á loftinu í nótt og voru mjög ánægð með aðstöðuna og ekki síður morgunverðinn sem fylgir alltaf með þegar gist er í Skógarbæ, framreiddur af húsbóndanum.

Við fórum og heimsóttum Jóa og fjölskyldu að Svignaskarði og þar töfraði kokkurinn minn fram ljúffengar steikur og meðlæti.

Við sækjum í meiri menningu í Borgarfirðinum heldur en hér í borginni. Leiksýningin Brák í Landnámssetrinu um daginn og á sunnudaginn fórum við á tónleika í Fossatúni. Þar sungu og spiluðu KK og Maggi Eriks fyrir okkur eins og þeim er einum lagið við góðar undirtektir áheyrenda. Sérstaklega var gaman að sjá hvað hópur þroskahamlaðs fólks naut sín vel og tók þátt í tónleikunum af heilum hug, sungið og klappað allan tímann og hafði KK á orði að nú vissi hann hvernig Bítlunum hefði liðið hér á árum áður. Við hin klöppuðum auðvitað líka en ekki með eins óheft og því spurning hver það er sem raunverulega er hamlaður.

Við hittumst nokkrar gellur úr Engjaskóla á Kaffi Flóru í síðustu viku og kjöftuðum pínulítið.
Við vorum bara 4 sem mættum, Elín, Guðný, Jóhanna og ég ásamt börnum Guðnýjar en fámennt er jafnan góðmennt er það ekki?

Jóhanna, samkennari minn, Siggi, Þórunn og Ólöf komu í heimsókn til okkar um síðustu helgi en þau voru í útilegu í Selskógi sem er hinum megin við vatnið. Ég skellti í pönnukökur enda alveg að verða eins og mamma þarna í sveitinni og skammast mín ekki fyrir það. Ekki leiðum að líkjast. Það er einhvern veginn svo miklu skemmtilegra að gera húsverkin í sveitinni heldur en hérna heima. Ég fæ svona sveitakonufíling sem enda er égsveitakona svona innst inni þótt langt sé síðan ég yfirgaf sveitina.
Við erum búin að vera rúma viku í dalnum og allan tímann var í kringum 20° hiti og sólskin alveg eins og var á þessum sama tíma í fyrra. Margt er búið að gera, klára að smíða í kringum nýja loftstigann, setja upp hillur, grisja skóginn og kurla greinar. Og ekki má gleyma jarðarberja-kassanum sem Brandur skellti upp í matjurtahorninu. Við uppgötvuðum hrossagaukshreiður við hliðina á pallinum og í því voru 4 egg sem við fylgdumst spennt með því það er svo gaman að fylgjast með ungunum. Einn daginn voru öll eggin brotin en engir ungar og mikil vonbrigði og óleyst gáta hvað varð af þeim. Fara hrossagauksungar strax á stjá eða var þarna kaldrifjaður morðingi á ferð? Við hjónakornin vorum ekki alveg sammála um það en hinn bjartsýni Brandur vildi auðvitað trúa því að ungarnir væru svona fljótir að koma sér út í lífið og vona ég bara ða hann hafi rétt fyrir sér.
Annars náði ég inn á milli sveitastarfanna að lesa nokkrar bækur og sauma út Snæfellsjökulinn minn. Fannst stundum betra að sitja inni í svalanum þegar hitinn var sem mestur um miðjan daginn. Ekki skrýtið þótt ég sé ekki mikið fyrir sólarlandaferðirnar. Ég las Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur en þar segir frá Naaju sem elst upp á Grænlandi á 15. öld og glímir við ýmsa erfiðleika eftir dauða móður sinnar og kynnist hinum fölu í Vestribyggð. Það er ótrúlega gaman að lesa bækurnar hennar Vilborgar. Henni tekst svo vel að lýsa lífsháttum fyrr á öldum og þótt þetta séu skáldsögur er augljóst að hún leggur mikla vinnu í að lesa sér til um staðhætti og aðstæður á þessum tímum sem hún fléttar síðan persónurnar sínar inn í. Ég er líka farin að leita uppi ævisögur sem eru misjafnar að gæðum. Fann ævisögu KK um daginn og það gerði tónleikana hans einhvern veginn persónulegri að vera búin að lesa um ævi hans sem var nú ansi skrykkjótt á köflum. En ævisögur eru kannski þegar allt kemur til alls mestu skáldsögurnar. Minnið hlýtur að vera gloppótt hjá fleirum en mér. Held að það yrði töluvert um skáldskap ef ég ætlaði að fara að skrifa ævisögu mína. auðvitað miklu snjallara að skrifa svona blogg jafnóðum fyrir börnin sem geta þá seinna meir lesið hvað móðir þeirra lifði nú skemmtilegu lífi eftir að hún hóf að blogga.
Því hér skrifa ég auðvitað bara um það skemmtilega en það neikvæða má bara gleymast.