






Þá er skólaárið senn á enda. Börnin farin í frí en við eigum eftir nokkra daga enn í frágang og fundahöld áður en við göngum út í sumarið. Við útskrifuðum börnin á föstudaginn og um kvöldið hlupum við út um víðan völl eins og kýrnar þegar þeim er hleypt út á vorin.
Við byrjuðum reyndar á því að aka upp í Mosfelldal til að skoða rósarækt í Dalsgarði. Við fundum reyndar ekki þann sem ætlaði að taka á móti okkur enda reyndist hann vera á myndlistar-sýningu í Reykjavík og hafði steingleymt okkur. Konan hans hún Helena, sem kenndi með mér forðum í Varmárskóla, sagði okkur bara að gera okkur heimakomin sem við vorum reyndar búin að gera áður en ég náði í hana. Við borðuðum nesti á hlaðinu og skoluðum því niður með ávaxtasafa í frábæru veðri, skoðuðum rósirnar og annað grænmeti sem þarna er að finna. Því næst var keyrð Hafravatnsleiðin, nauðsynlegt að kynna sveitina fyrir öllum borgarbörnunum. Endastöðin var við Reynisvatn en þar eyddum við kvöldinu í tjaldi sem reyndist vera hinn ákjósanlegasti partýstaður. Við nefndarkonur, ég, María og Matthildur, sendum liðið út í ratleik og á meðan grilluðum við lambakjöt ofan í liðið. Fyrir viku skiptum við öllum upp í hópa og enginn fékk að velja sér félaga heldur dreifðum við mannskapnum sem mest því nú skyldi verða hópefli af bestu gerð. Þetta tókst mjög vel, liðin bjuggu sér til búninga, fundu nöfn á hópinn og æfðu ¨fagn¨. Hugmyndaflugið var mikið og nöfn eins og Náttúrubörn, Pinkies, Sólskinsbörn og fleiri skemmtileg litu dagsins ljós. Hóparnir kepptu svo í ratleik og reyndist það mörgum erfitt, alla vega stoppaði ekki síminn hjá okkur meðan verið var að leita að réttu stöðvunum. Á meðan grilluðum við með viðeigandi brasi, fyrst inni, þar til tjaldið var að fyllast af reyk. Þá ákváðum að bera grillin út, logandi, annað datt í sundur meðan hitt logaði upp í rjáfur en karlmenni mikið sem ríkti yfir staðnum bjargaði okkur á síðustu stundu áður en við kveiktum í okkur sjálfum og kofanum. Kjötið hvarf samt ofan í mannskapinn, misjafnlega brennt og eldað, en við fengum samt mikið lof fyrir eldamennskuna.
Þegar allir voru mettir hófst keppni í að leysa vísnagátur og urðu þar mikil heilabrot en sá hópur sem vann var með 6 rétt af 7 og var það vel af sér vikið.
Að lokum upphófst myndasýning en í ratleiknum urðu allir að taka hópmyndir á öllum stöðvum til að sanna að þeir hefðu fundið þær. Myndirnar voru settar í tölvu og sýndar á vegg með hjálp skjávarpa (þetta var allt svo svakalega vel skipulagt hjá okkur). Það sást vel á myndunum að fólk hafði skemmt sér vel á ferð sinni í kringum vatnið og sýndu þær mikið hugmyndaflug og frumleika. Það var erfitt fyrir nefndina að velja úr en að lokum komumst við að samkomulagi um að Náttúrubörnin hefðu sýnt mestu hæfileikana og fundið allar stöðvarnar og fengu þau vegleg verðlaun, barmnælur með mismunandi áletrunum eins og Bad Girl og Frisky o. fl.
Að lokum var stiginn dans fram yfir miðnætti og komu margir á óvart með því að sýna frábæra takta á dansgólfinu, nefni engin nöfn. Þegar búið var að taka til var haldið heim til Möttu með allt draslið og sest niður til að ná sér niður áður en fólk hélt heim í háttinn.
Laugardagurinn fór svo fyrir lítið enda nauðsynlegt að hvíla sig eftir svona meiri háttar skemmtun. Í dag renndi ég svo í Skorradalinn, setti niður kartöflur og plantaði sumarblómum og undi mér vel í sólskini og blíðu og smágróðrarskúrum. Maggý kom í kaffi á leið sinni heim frá Ólafsvík og það er ekki laust við að ég sé búin að fá smálit í andlitið eftir daginn.
1 comment:
Það voru reyndar tútturnar sem unnu ratleikinn en sagan er skemmtilegri eins og þú skrifar hana.
Jóhanna náttúrubarn
Post a Comment