Vigdís byrjaði kennsluferil sinn fyrir 40 árum í Laugargerði og því vel við hæfi að hún héldi upp á þessi tímamót með okkur þótt hún slyppi við að kenna okkur en hún kom haustið eftir að við hættum. Hún er flugfreyja og valdi það fram yfir kennslu en starfar sem forfallakennari í Engjaskóla með flugfreyjustarfinu.
Sigurður Helgason var fyrsti skólastjóri skólans frá 1965 - 1970. Það var virkilega gaman að hitta hann aftur eftir öll þessi ár en hann var dýrkaður og dáður og hefur verið okkar helsta fyrirmynd enda urðu 5 af þessum 15 nemenda hópi kennarar og starfa enn sem slíkir.


Sigrún Björk, Sesselja, Úrsúla, Kristín Björk, Ingi, Alda, Þórður,
Sigurður skólastjóri, Geir og Valgeir.
Við brunuðum í Skorradalinn á föstudagskvöldið, grilluðum nautasteik og fundum stressið leka af okkur í kyrrðinni og fuglasöngnum. Skógurinn er orðinn fulllaufgaður og dalurinn óskaplega fallegur að vanda. Á laugardeginum fórum við svo vestur á Snæfellsnes til að hitta gamla bekkjarfélaga úr Laugargerði en í vor eru 40 ár síðan við útskrifuðumst þaðan. Veðrið var gott, sólskin en dálítill vindur eins og sést á myndunum, hárgreiðslan hélst ekki alveg í skorðum.
Kristín Björk bekkjarfélagi okkar er skólastjóri í Laugargerði og tók því á móti okkur. Það var gaman að koma aftur í skólann og deila minningum en það var misjafnt hvað hver mundi, hvort það voru prakkarastrik eða eitthvað annað. Skrýtið hvað við mundum lítið eftir að hafa lært eitthvað. Svo fannst okkur undarlegt hvað skólinn var orðinn miklu minni en hann var, eða kannski höfum við stækkað eitthvað.
Eftir skemmtilegan dag og fyrirheit um að láta ekki líða önnur 40 ár þar til við hittumst næst þá fórum við aftur í Skorradalinn. Brandur ætlaði að bjóða mér að borða á gamla Nauthól sem nú er í Borgarnesi en leist ekkert á að borða innan um bjórdrykkjumenn (orðinn dálítið fanatískur kallinn) svo við keyptum okkur bara steik og grilluðum aftur í kotinu enda var það miklu notalegra. Við vorum svo nokkuð dugleg á sunnudeginum, stungum upp kartöflugarðinn (réttara sagt Brandur gerði það og ég horfði á), nutum þess að vera í sólinni og laufskrúðinu. Renndum svo í bæinn um kvöldmatarleytið og uppgötvuðum að alls staðar var moldrok nema í Fitjahlíðinni. Það var ansi hvasst undir Hafnarfjallinu og á Kjalarnesinu en við komumst heim heilu og höldnu. Þar voru Guðrún, Daníella og Jökull að bíða eftir að Jói kláraði að vinna svo við gátum aðeins farið í ömmu og afaleik svona í helgarlok.
No comments:
Post a Comment