

Yndislegur dagur, sólskin og hiti. Svaf yfir mig í morgun en komst á skikkanlegum tíma í vinnuna. Ég er ennþá að ljúka vorverkunum í skólanum og það er bara gaman að fara og hitta þá sem enn eru að vinna við lokatiltektirnar. Ég verð eitthvað fram í næstu viku að dútla við skýrslugerð og annað sem fylgir deildarstjórastörfunum. Ég vona svo að það komi einhver góð kona og taki við því næsta vetur og ég geti bara kennt eins og áður.
Þegar ég var búin í skólanum fór ég til Fjólu, fyrrverandi tengdamóður minnar og fékk hana með mér í bíltúr. Við fórum og heimsóttum vinkonu okkar á Grund, hana Rúnu, sem varð ákaflega glöð að sjá okkur enda kannski ekki margir sem heimsækja hana. Við fórum með hana í bíltúr um Vesturbæinn sem er hennar heimabyggð. Við fórum út í Gróttu og út í Örfirisey og fengum okkur kaffi og pönnukökur á Kaffivagninum og horfðum á bátana vagga við bryggjuna. Þetta var notaleg stund og við undum okkur vel saman, gömlu konurnar. Ég vona að það líði ekki langur tími þangað til ég geri þetta næst því þetta gerir mikið fyrir sálartetrið, bæði hjá mér og þeim. Við áttum okkur ekki alltaf á því að þótt tíminn líði hratt hjá okkur þá líður hann ekki jafnhratt hjá þeim sem eldri eru. Við eigum jú eftir að eldast líka og þá er það spurning hvort einhver má vera að því að gefa okkur af tíma sínum.
Það er ljúft að sigla inn í sumarfríið og eftir viku verður Brandur kominn í sumarfrí líka og þá verður gott að slappa af í Skorradalnum og hlaða batteríin. Alltaf gott að hafa eitthvað til að hlakka til.
No comments:
Post a Comment