

Takið vel eftir nýju flottu hjólabuxunum mínum, tek þetta með stæl!!
Eftir að hafa lesið bloggið hennar Önnu finnst mér ekkert vera að gerast í mínu lífi, en ég er á lífi og það er fyrir öllu. Brandur kom í land á föstudaginn og ég brunaði með hann í Hafnarfjörð að kaupa hjól eftir að hafa prufuleyrt nýja hjólið hennar Önnu. Fyrir rest ákvað ég að vera skynsöm og keypti mun ódýrara hjól þar sem mér leist ekki á að ég kynni á fótbremsuna á dýra hjólinu og myndi steypast fram yfir mig ef ég bremsaði bara að framan. Því næst var farið í BYKO og keypt hjólagrind á bílinn og við vorum ákaflega ánægð með okkur þegar við brunuðum í Skorradalinn með tvö hjól meðferðis. Snædísi leist ekki mjög vel á kaupin og spurði mig hvort ég þekkti ekki sjálfa mig betur en þetta!! Svo nú verð ég að afsanna þau orð og vera dugleg að hjóla.
Á laugardaginn eftir að hafa komið garðhúsgögnum og öðru á sinn stað fórum við í hjóltúr með nesti. Við hjóluðum inn fyrir Fitjar, stórgrýttan torfæruveg og það gekk ágætlega að okkar mati. Brosið fór ekki af mér allan tímann og mér leið eins og ég væri aftur orðin 10 ára. Við borðuðum nesti við litla á og fylgdumst með stóru fiðrildi synda af krafti á móti straumnum og það komst á land. Á leiðinni til baka kom helliskúr en það var allt í lagi, gott að fá smábað þar sem Brandur er ekki enn búinn að fá leyfi til að stækka kofann fyrir sturtu.
Um kvöldið kom Maggý í kvöldmat en hún var á leiðinni í sumarbústaðinn á Signýjarstöðum sem hún hélt að hún mætti fara í á laugardeginum. Fyrst ætlaði hún á Mr Skallagrímsson í Landnámssetrinu en þeirri sýningu var aflýst vegna þess að Brynja Benediktsdóttir, móðir Benedikts, varð bráðkvödd. Hún kom því til okkar í staðinn. Tómas og vinir hans voru í brúðkaupi uppi í Húsafelli og ætluðu að gista hjá henni í bústaðnum. En þegar þeir voru búnir að koma sér fyrir og skrifa í gestabókina birtust hjón sem sögðust vera búin að leigja bústaðinn yfir nóttina. Þau voru ekki sátt, enginn Mr Skallagrímsson og 3 mjög stæðilegir körfuboltastrákar í bústaðnum þeirra. Eftir nokkuð þras þar sem maðurinn var við það fara yfir um á þessum hremmingum sínum (vonandi að það komi aldrei neitt vera fyrir aumingja manninn) þá leystum við málið, keyrðum Gullvagninn upp í Húsafell fyrir körfuboltagæjana og settum Maggý á svefnloftið hjá okkur. Þetta varð því hin mesta skemmun fyrir okkur og ég vona að hjónin á Signýjarstöðum hafi átt gott kvöld líka, alla vega skrifuðu þau það í gestabókina og tóku vel á móti Maggý í gær eftir hádegið. Í gærkvöldi bauð Maggý okkur svo í grillað lambalæri og þar hittum við nýju kærustuna hans Tomma, hana Önnu Maríu, og Eydísi dóttur hennar sem er mikið fötluð en yndisleg lítil stúlka. Svo sóttum við Gullvagninn í Húsafell og keyrðum hann heim til sín í Skógarbæ og fórum svo heim vegna þess að Brandur er að ljúka störfum í dag fyrir sumarfrí.
Hvað var ég eignlega að öfunda Önnu hérna í byrjun, það er fullt að gerast hjá mér líka og svo finnst mér voða gott að gera ekki neitt eins og Auður Haralds sagði forðum ¨Hvers vegna þarf maður alltaf að vera að gera eitthvað?¨
No comments:
Post a Comment