Thursday, April 23, 2009

Reykjaskólamót í Laugagerði

Við Alda bíðum eftir að vera boðið upp.
Lói, Dóri og Þóra Einars bíða eftir morgunmatnum.

Við gömlu búðina á Skógarnessnesi.

Öddi Ragnars stýrði veislunni með myndarbrag.

Rabbi Ben og Maggi Sig sungu af innlifun.

Í fjörunni á Skógarnessnesi.

Lói á Hóli, Stína Einars og Unnur ræða málin í fullri alvöru.

Helga Gunnars les sendibréf sem hún skrifaði heim fyrir 40 árum. Skemmtilegur frásagnarstíll og gagnlegar upplýsingar eins og að peysan okkar brúna og fallega kostaði heilar 600 krónur og hefur örugglega komið við pyngjuna hjá okkur á þeim tíma.

Skúli Páls komst ennþá í gamla fimleikabúninginn og sýndi það og sannaði.
Það eru ekki margir sem eiga þennan ennþá og komast í hann.


Ég veit ekki hvað það er sem gerir okkur Reykskælinga svona frábæra en þannig er það bara. Í vor eru 40 ár síðan ég útskrifaðist frá Reykjaskóla ásamt 58 öðrum nemendum. Við höfum hist á fimm ára fresti síðan og ég hef aðeins einu sinni misst af móti.
Við höfum hist á Reykjaskóla, Sögu, Munaðarnesi, Hvammstanga, Staðarflöt, Mótel Venusi og núna hittumst við í Laugagerði, mínum gamla heimavistarskóla, en þar er Kristín Björk skólastjóri. Við Unnur fórum vestur á föstudagskvöldið til að missa ekki af neinu. Það voru þó nokkrir mættir til að taka forskot á sæluna. Kristín Björk var búin að raða okkur niður á herbergin og ég fékk að vera á mínu gamla herbergi nr. 313 ásamt Unni en Alda fékk ekki að vera með okkur þar sem ekki var pláss fyrir kallinn hennar hann Jóa og hann vildi víst ekki vera einn á herbergi.
Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir og komin í heimavistarfílinginn fórum við niður í matsal og þar var setið fram á nótt og hlegið að öllum minningunum sem streyma fram á stundum sem þessum. Þótt ekki væri sunquick djús og matarkex á borðum þá urðum við aftur 16 ára og ekki degi eldri. Skúli Páls var meira að segja svo mikill unglingur að hann átti ennþá gömlu brúnu útskriftarpeysuna og fimleikabúninginn og það sem meira var hann komst vel í hann eins og hann sýndi og sannaði.
Flestir fóru að sofa á skikkanlegum tíma þrátt fyrir ungan aldur en einhverjir náðu þó að sjá birta af degi á ný.
Við Unnur vöknuðum snemma og fórum í gönguferð niður að Kolviðarnesi. Lói á Hóli, sem var þó nýsofnaður, var kominn á ról og slóst í hópinn.
Eftir morgunverð var aðeins slakað á en eftir hádegið var mótið sett og dagskrá kynnt. Við fórum síðan í smájeppaferð og ég held að ég hafi verið eina konan sem sat undir stýri. Við fórum niður að Hausthúsum en þar ólst Alda upp og hún sagði okkur frá staðnum og uppvexti sínum þar. Þessi jörð, eins og svo margar aðrar, er komin í hendur athafnamanna en Guðmundur Brimari (vinalausi) á hana í dag. Síðan var haldið áfram út að Skógarnesi en þar tók bóndinn á móti okkur og fylgdi hann okkur síðan út í Skógarnessnes (þetta er ekki prentvilla). Þarna eru miklar hvítar sandfjörur og á fjöru er hægt að keyra út í Hausthúsaeyjarnar. Þegar ég var í Laugagerði fékk ég einu sinni að dvelja heima hjá Öldu eina helgi og þá var einmitt farið með okkur á dráttarvél út í eyjarnar. Það fannst mér mikið ævintýri enda átti ég heima uppi í fjalli en ekki við sjó.
Á leiðinni út á nesið þurfti að fara í smátorfærur yfir sandhólana. Nokkrir þurftu að spóla sig upp og urðu frekar fúlir þegar kellingin í hópnum gaf bara í og hentist yfir. Það tókst ekki alveg eins vel í bakaleiðinni og þá held ég að þeir hafi orðið sáttari við mig.
Að lokum var keyrt út að gömlum kaupstað. Þar standa ennþá rústir gömlu búðarinnar og annarra húsa. Við vorum hissa á að það skyldi hafa verið reist búð þarna langt niðri í fjöru en þegar bóndinn var búinn að rifja upp með okkur að það hefðu ekki alltaf verið vegir í sveitinni, heldur reiðleiðir, þá skildum við þetta. Á þeim tíma var aðeins hægt að ríða meðfram sjónum eða lengst uppi í fjalli, flóarnir voru ekki færir nema í frostum á vetrum.
Á heimleiðinni sýndu Kristín Björk og Öddi okkur reiðhöllina í Söðulsholti en þar eru þau með hestana sína. Þegar heim var komið tók við undirbúningur fyrir kvöldið. Í dag tekur það heldur styttri tíma heldur en á Reykjum en þar fór allur dagurinn í undirbúning. Þá voru það rúllurnar og túberingarnar og eilífðartíma tók að láta eyelinerinn verða eins báðum megin. Svo vorum við held ég aldrei í okkar eigin fötum, heldur lánuðum við hver annarri og aumingja þær sem áttu fínni föt en hinar, þær fengu örugglega aldrei að vera í sínum eigin fötum. En í þetta sinn voru allir í sínum eigin fötum og enginn eyeliner. Við byrjuðum á því að hittast í matsalnum og þar minntumst við látinna félaga og skólastjóra, Ólafs Kristjánssonar, sem var einmitt jarðsettur á föstudaginn 96 ára að aldri. Bjarni Frímanns, Alli Gríms og Frikki Bö eru farnir frá okkur en eru örugglega með okkur í anda og minningin um þá lifir.
Öddi Ragnars var búinn að búa til heimildamynd sem sýnd var á sal en þar rifjuðu nokkrir félagar upp það sem þeim var minnisstæðast frá dvölinni á Reykjum. Síðan var spiluð félagsvist og unnu Alda og Öddi Ragnars til verðlauna, fengu súkkulaðikökur eins og þær sem við fengum alltaf á Reykjum þegar við áttum afmæli.
Að félagsvistinni lokinni hófst hátíðakvöldverður. Kokkurinn sem rekur Hótel Eldborg í Laugagerði á sumrin, lagði mikið á sig til að opna hótelið þessa einu helgi fyrir okkur og tókst það vel hjá honum. Undir borðum voru skemmtiatriði, þar á meðal vorum við Maggi Sig með endurminningar okkar í nokkrum bindum. Maggi stóð sig vel að vanda og ég er viss um einhverjir eiga ennþá í vandræðum með harðsperrurnar í brosvöðvunum. Ég er ekki alveg eins vön að troða upp og þurfti að fá stuðning frá mínum gömlu og góðu herbergissystrum og vinkonum, þeim Öldu og Kristínu Björk, en þær hjálpuðu mér að halda við handritið þar sem handskjálfti var mikill og erfitt að lesa upp úr því á fleygiferð. En mér tókst að lesa þetta allt til enda og vona ég að enginn hafi haft meint af.
Að loknum kvöldverði hóf hljómsveit Marínós Björnssonar að leika undir dansi eins og hún hefur gert á flestum mótum frá upphafi. Dansinn dunaði til rúmlega þrjú og aldrei var tekin pása nema þegar söngvarinn henti frá sér mikrafóninum og tók þátt í dansinum. Það var mikið fjör og það virtist enginn vera búinn að gleyma danssporunum sem Siggi Hákonar kenndi okkur forðum. Eins og venjulega gátu sumir haldið lengur út en aðrir en það er liðin tíð að ég gangi síðust til náða eða sé sópað út með ruslinu. Í þeim málum er ég ekki sextán ára lengur.
Á sunnudagsmorguninn vöknuðu allir mishressir en vöknuðu þó. Að morgunverði loknum, sem lét aðeins bíða eftir sér vegna þess að The ‘’Cocks’’ (lokalbrandari) fóru eitthvað seint að sofa, urðum við að pakka saman og þrífa eftir okkur og að því loknu var kvaðst með söknuði en ákveðið að hittast aftur að þremur árum liðnum í stað fimm svo við yrðum ennþá réttu megin við sextugt þegar við hittumst næst og þekkjum örugglega hvert annað ennþá.
Ég hlakka mikið til að hitta þessa frábæru félaga aftur og það mætti vera einu sinni á ári þess vegna. Hláturinn lengir lífið segir máltækið og mitt lengdist örugglega um mörg ár þessa einu helgi.

Annar í páskum-smáævintýri

Heimför var áætluð á annan í páskum og áttum við að fara í loftið kl 20:30. Við lögðum af stað með góðum fyrirvara um hálfsex. Nágrannakonan tók Roman og Rúnu að sér og svo var lagt af stað. Ég hafði á orði þegar við ókum út úr Beck Row að hingað ætti ég sennilega ekki eftir að koma aftur þar sem Dóra flytur til Þýskalands eftir eitt ár. Þegar við höfðum ekið í 5 mínútur hægðist verulega á umferðinni og augljóst að eitthvað hafði gerst á hraðbrautinni A14. Við heyrðum svo í útvarpinu að það hefði orðið slys nálægt Newmarket. Við sátum síðan föst á hraðbrautinni í þrjá og hálfan klukkutíma og misstum auðvitað af vélinni heim. Þegar við gátum loksins snúið við tók það okkur 13 mínútur að keyra aftur heim til Beck Row sem ég hélt að ég myndi ekki sjá aftur. Þetta var dálítið spennuþrungin ferð en við reyndum að gera grín að öllu saman og lífga upp á samveruna með pissuferðum upp í skóg eða bara milli hurða og held ég að Viktoría hafi haft frá nógu að segja þegar hún komst í skólann aftur.
Við urðum að bóka nýja ferð heim næsta dag og þá tókst okkur að komast alla leið vandræðalaust. Þetta varð dálítið dýrara en við reiknuðum með og smáa letrið hjá tryggingunum sá til þess að við urðum að sitja uppi með það en eins og Brandur segir, ekki orð umþað meir. Þetta hefði getað verið verra, ekki lentum við alla vega í slysinu.
En okkur fannst samt skrýtið hvað þetta tók allt langan tíma. Bíll valt inn á bensínstöð við hraðbrautina kl hálfþrjú og tveir dóu í slysinu. Lögreglan lokaði þá strax öllum þremur akreinum brautarinnar og beindi umferðinni inn í Newmarket og hún opnaði hana ekki aftur fyrr en kl níu um kvöldið. Það tók því rúma sex klukkutíma að athafna sig á slysstað. Umferðin komst svo ekki í eðlilegt horf fyrr en um miðnætti. Gott að búa á Íslandi þrátt fyrir allt.

Sunday, April 12, 2009

Páskadagur í Beck Row

Í Bury St Edmunds þar sem allt var lokað vegna komu drottningarinnar.

Engilsaxneska þorpið í West Stowe.

Dóra notaði talandi leiðsögutæki til að komast á leiðarenda en ég vildi
heldur nota gamla góða kortið til að sjá hvar ég var stödd hverju sinni. Þarna erum við komin út úr rigningunni í kringum Norwich og næstum komin til Great Yarmouth.

Ég þorði í Parísarhjólið, kjarkurinn síeykst.

Frænkurnar grófu hvor aðra í sandinn sem fylgdi okkur svo
alla leið heim og hjá þeim upp í rúm.

Brandur fékk svo að slá garðinn til að komast í smásumarfíling.

Páskadagur runninn upp. Amma var búin að fela páskaegg hér og þar um húsið og upphófst mikil leit snemma í morgun. Rúna vakti ömmu sína með tárin í augunum því hún og mamma hennar fundu ekki neitt svo amma varð að fara og gefa vísbendingar þangað til öll eggin fundust.
Málshættirnir voru af ýmsum toga, ég fékk Vandratað er meðalhófið (orð að sönnu), Dóra fékk Best er sígandi lukka og Kara fékk Betra er blátt (blávatn) en ekkert og Viktoría fékk Sá á fund sem finnur ef enginn er eigandinn, Roman fékk Fleira er matur en feitt kjöt og svo finn ég ekki málsháttinn hennar Rúnu. Brandur deildi páskaegginu og málshættinum með mér.
Kara bjó til dýrindis páskamorgunverð fyrir okkur og eftir páskaeggjaát og leti fór Brandur út að slá blettinn til að fá smáforskot á íslenska sumarið sem bíður eftir okkur heima.
Í fyrradag fórum við og skoðuðum englilsaxneskt þorp í West Stow. Þar hafa verið byggð nokkur hús í gömlum stíl og fer ekki mikið fyrir þægindunum frekar en í gömlu torfkofunum okkar. Þarna var leiksvæði sem krakkarnir fengu smáútrás í og síðan var haldið heim.
Í gær var tekin stefnan í austur í átt að ströndinni til Great Yarmouth. Þegar við vorum komin hálfa leið keyrðum við inn í úrhellisrigningu svo það sást varla út um framrúðuna og þá fór nú að fara um framsætisfarþegann. Á hraðbraut og sjá ekki út er ekki alveg á óskalistanum. Áfram var samt haldið þangað til við komum austur fyrir Norwich, þá stytti skyndilega upp og við tók glaðasólskin og hiti.
Great Yarmouth er strandbær og þar er búið að byggja upp alls konar afþreyingu fyrir peningaglaða túrista. Börnin undu sér samt vel við leik í sandinum með skóflur og fötur og suðuðu ekki neitt um að fá að fara í Parísarhjólið né vatnsrennibrautir. Við Brandur stálumst í Parísarhjólið til að fá að sjá aðeins yfir landið og útsýnið var mjög fallegt yfir borgina og út á sjóinn. Síðan var brunað heim til að ná því að fara í bíó með börnin sem búið var að lofa þeim en vegna umferðartafa þá náðum við því ekki heldur fengu þau bara video og popp heima í staðinn. Við Brandur fórum á Bird in Hand (krá hér rétt hjá) og ég ætlaði að gera vel við hann en maturinn var nú ekki til að hrópa húrra yfir, frekar ólystugur svo ekki sé meira sagt.
En þetta er síðasti dagurinn okkar hér, við höldum heim á morgun eftir gott frí og samveru með barni og barnabörnum. Vonandi tekur íslenska vorið vel á móti okkur með rigningu og tilheyrandi og vonandi er vetur konungur búinn að sleppa takinu.

Wednesday, April 8, 2009

Sól, sól, sól og aftur sól

Það var búið gera allt voða fínt fyrir drottninguna.

Börnin tróðu sér inn í símaklefa.


Enn einn sólardagurinn að kvöldi kominn. Dóra segir að þetta sé orðið frekar óvenjulegt fyrir veðráttuna hér, rigningin er venjulegri.
Við keyrðum í dag til Bury St Edmunds og ætluðum að skoða þar Bury Cathedral, gamla kirkju með heilmikla sögu sem ég á eftir að afla mér vitneskju um, og fallega gamla garða sem eru þar í kring. En þarna var allt lokað og löggur út um allt svo við héldum að við værum komin inn í miðjan glæpavettvang og urðum voðalega spennt. Til að fá forvitni minni svalað spurði Dóra eina lögguna hvað væri um að vera. Ástæðan var ekki alveg eins spennandi, blessuð drottningin er að koma í heimsókn á morgun til að gefa gömlu fólki peninga en það gerir hún einu sinni á ári blessuð gamla konan og Bury varð sem sagt fyrir valinu núna. Það var því verið að loka öllu og fínkemba allt, meira að segja ræsishlemmarnir voru innsiglaðir.
Við Brandur ætlum að fara á morgun og vita hvort við fáum ekki smápening en við megum líklega ekki segja að við séum frá Íslandi því þá mun gamla fólkið líklega ráðast á okkur og reyna að ná því sem það tapaði í Icesave. Við keyrðum svo aftur heim og keyptum pizzu ofan í liðið og nú er Brandur límdur við sjónvarpið yfir leik Liverpool og Chelsea en þar langaði hann að vera þessa stundina en fékk ekki að fara. Dálítið langt að fara þangað svo hann verður bara að vera í stúkusæti hérna heima. Staðan er 1-1 núna og svipurinn farinn að þyngjast.

Tuesday, April 7, 2009

Enn skín sólin hér í Englandi

Ég trúi þessu varla, sólin skín enn á okkur. Við fórum í búðaráp í dag, ég sem ætlaði ekki að kaupa neitt á þessu fáránlega gengi sem stöðugt er á niðurleið. Okkur tókst að kaupa slatta af drasli sem er núna á tvöföldu verði miðað við það sem var síðast þegar við vorum hérþ
Því miður erum við alltaf að fylgjast með fréttum að heiman á netinu í stað þess að slaka alveg á og vita ekki neitt.
Nú fer að síga á seinni hlutann af fríinu og ekki örlar enn á vorinu heima sem ég var að vona að yrði komið þegar við snerum aftur heim en ekki er öll von úti enn. Við njótum alla vega góða veðursins hér á meðan við getum.

Monday, April 6, 2009

Páskafrí í Englandi

Í Safari Park

Þau fengu að halda á uglu.
Ég er viss um að þetta var brandugla því hún var svo hrifin af Brandi.

Og það syntu svanir á tjörninni.

Það þarf stundum að grípa tækifærið til að fá að knúsa þennan strák.

Gott leikvæði (reyndar gatan) fyrir framan húsið og alltaf fullt af börnum að leika sér.

Tívolíið í Hunstanton sem við fundum fyrir tilviljun
þegar við vorum að leita að sjónum fyrir Dóru.

Við ströndina, þarna var dálítið svalt eins og á Íslandi.
Rúnu leiðist ekki að stilla sér upp fyrir myndatöku.

Frænkur okkar með ungana sína í Safari Park.

Brandur fór í sólbað en fækkaði lítið fötum. Sólstrandarfötin voru skilin eftir heima, bjuggumst ekki við svona veðri í Englandi.

Frænkurnar voru mjög glaðar yfir að fá að vera saman.

Í lestinni á Stansted.

Við komum hingað til Englands miðvikudaginn 1. apríl. Dóra tók á móti okkur á Stansted og kom okkur heilum heim til Beck Row en þar býr hún núna. Þetta er næstum því úti í sveit, sveitabæir allt um kring. Veðrið hefur verið frábært það sem af er, sólskin og logn og mjög hlýtt, peysuveður alla daga. Við erum búin að fara í bíltúr út að ströndinni til að Dóra gæti séð sjóinn en hann hafði hún ekki séð síðan í fyrra sumar heima á Íslandi. Þar hittum við á Tívolí svo það glaðnaði yfir börnunum eftir setuna í bílnum.
Í gær fórum við svo í suðurátt, fórum í dýragarð, Safari Park, en þar eru flest dýrin frjáls úti í náttúrunni en mannfólkið lokað inni í bílunum sínum. Þetta er smásýnishorn af Afríku, mjög skemmtilegt svæði og ólíkt skemmtilegra að sjá dýrin frjáls heldur en innilokuð í búrum. Við borðuðum svo nesti í garðinum og svo fengu krakkarnir smáútrás fyrir hreyfiþörfina í Örkinni hans Nóa, sem er innileiksvæði, og fóru á svanabát út á litla tjörn. Þetta var sem sagt mjög skemmtilegur dagur og veðrið ótrúlega gott.
Í dag er rólegheitadagur, börnin úti að leika sér og við slökum á.