Monday, March 2, 2009

Utanborgarferð í vetrarfríinu

Í ljósi efnahagsásstands í landinu ákváðum við að þessu sinni að fara ekki í borgarferð í vetrarfríinu heldur utanborgarferð og fórum í Hvalfjörðinn á Hótel Glym. Þarna voru engar biðraðir og við máttum hafa með okkur allan þann vökva sem okkur hugnaðist og vorum algjörlega óþreytt þegar við mættum á hótelið eins og sést.
Þarna er líka hægt að skoða kirkjur. Hef ekki tölu á hve oft við erum búin að keyra framhjá Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd án þess að skoða hana nánar. En nú erum við búin að því og uppgötvuðum að þetta er undurfalleg kirkja með steindum Gerðargluggum. Ég er líka handviss um að Hallgrímur er þarna enn á reiki því meðan við sátum inni í kirkjunni heyrði ég fótatak fyrir utan og hélt að það væri einhver að koma og gá að okkur. Fótatakið þagnaði fyrir utan dyrnar og enginn kom inn, síðan heyrði ég það fjarlægjast. Brandur heyrði ekkert og kannski raunhæf skýring á því en þegar við komum út var engin sála sjáanleg þótt við gengjum allt í kringum kirkjuna. Ég er því handviss um að þetta var ekki sjáanleg sála heldur var sálmaskáldið að kanna hvort við létum ekki eigur hans í friði en þarna inni er geymdur kaleikur frá hans tíð og fleiri hlutir. Jón Rafn hótelstjóri virtist ekkert hissa á fótatakinu, hann hefði oft orðið var slíkt inni í kirkjunni þótt hann væri þar einn á ferð. Hann sagði okkur sögu kirkjunnar en hún var vígð 1957. Fyrst var búið að teikna aðra kirkju og leggja grunn að henni en það var hætt við hana og sú kirkja byggð í Laugarnesinu. Þessi kirkja er minni en hin og stendur hún því á of stórum grunni. Að innan er hún músteinshlaðin að dönskum sið og mjög hlýleg og falleg.

Saurbæjarkirkja séð gegnum sáluhliðið, enginn Hallgrímur sjáanlegur en leiði þeirra Guðríðar eru neðar í kirkjugarðinum við upphækkaðan grunnflöt gömlu kirkjunnar sem hefur verið heldur minni en þessi.


Svítan sem við fengum var á þremur pöllum og útsýnið stórkostlegt eins og sjá má. Fyrir neðan hótelið er verið að byggja sex sumarhús sem verða öll með mismunandi þemu og eiga að vera tilbúin í maí. Ekkert krepputal þarna á bæ.



Á heimleiðinni á laugardag kíktum við í Skorradalinn og þar var allt í fínu lagi, engir óboðnir gestir nema nokkrar flugur sem ekki hafa lifað af vistina í bænum. Þarna var blankalogn og hlýtt miðað við árstíma og okkur fannst örla á vorinu.


Við fengum okkur svo kaffi í Geirabakaríi í Borgarnesi svo úr þessu varð smáborgarferð að lokum. Eins og sjá má var veðrið dásamlegt og bærinn skartaði sínu fegursta og speglaði sig í Brákarsundinu til að sjá hvort ekki væri allt í lagi með útlitið.






No comments: