Saturday, February 14, 2009

Helgarfrí

Ég stal þessum myndum af heimasíðunni arnif.123.is.
Nú gengur minn heittelskaði undir nafninu Grasa-Brandur og ég er talin stjórna því úr landi að hann borði bara gras og ávexti og láti allar kökur og bakkelsi fram hjá sér fara.
Þvílík völd sem ég hef.
Bátsmaðurinn Grasa-Brandur reynir eins og hann getur að finna eitthvað
handa mannskapnum að gera meðan rúntað er um höf í leit að loðnu sem ekki finnst.
Þeir merktu hnúfubak sem átti síðan að fylgjast með á eftir loðnutorfunum en hann firrtist illilega við merkinguna og er bara á hraðri leið suður um höf og ekki viðlit að elta hann.
Það er hægt að fylgjast með ferðum þessa merka hvals á hafro.is.
Í mínu lífi gerist næsta lítið sem hægt er að blogga um. Mestum tíma eyði ég í vinnunni við skapandi störf í þágu barna og á kvöldin hef ég félagsskap prjónanna og framleiði lopapeysur, vettlinga og sokka mér til ánægju og vonandi þiggjendum til yls og yndisauka. Á fimmtudaginn hitti ég spilavinkonur mínar og ætlaði aldeilis að sigra einu sinni sem oftar. Það tókst ekki frekar en fyrri daginn og skiptum við Anna M tapinu á milli okkar. Þetta er orðin ágætis æfing í að vera ekki tapsár en það örlar þó á því ennþá. Þessi spilakvöld eru okkur vinkonunum kærkomin tækifæri til að hittast og spjalla og hvæsa svolítið hver á aðra. Misjöfn er samt þörfin því sumar hafa fleiri tækifæri en aðrar til að stunda félagslífið hér í borg. Örlar stundum á smáöfund hjá okkur hinum sem erum ekki eins vinsælar og eftirsóttar. Nefni engin nöfn.
Nú hefur hlýnað í veðri og fallegi hvíti snjórinn sem hefur fengið að vera óáreittur um tíma er á hröðu undanhaldi og nú er vissara að passa sig á hálkunni sem kemur undan snjónum.
Helgina ætla ég að nota til afslöppunar og prjónaskaps. Alltaf svo gott að eyða smátíma í að gera ekki neitt enda hafa margir misskilið orðið ¨tóm¨stundir. Margir halda að það eigi að nota þessar stundir til að æða út um borg og bý í leit að líkamsrækt eða menningarleit en það er algjör misskilningur. Þetta eiga að vera tómar stundir.

No comments: