
Þau hafa augljóslega þurft að nota hann allan til að búa til einn snjókarl.
Flottur snjókarl í góðu skapi, sá eini sem brosir.
Þessari finnst ekki leiðinlegt að láta mynda sig.

Ég hef notað þessa helgi til að hvíla mig, reyndar setið við að prjóna lopapeysu á Snædísi og orðin dálítið þreytt í höndunum. Um síðustu helgi fór ég í afmæli Jóhönnu skólastjóra sem var haldið á Vínbarnum. Þar var mikið fjör og hávaði og ég finn það alltaf betur og betur að aldurinn er farinn að segja til sín því ég á mjög erfitt með að halda uppi samræðum við þannig aðstæður, heyri ekki orðið hálfa heyrn.
Á fimmtudaginn fór ég í Borgarleikhúsið með fyrrverandi samkennurum úr Varmárskóla. Við sáum sýninguna Rústað og mér skilst að nafnið sé dregið af því að áhorfendum sé rústað. Ég var búin að lesa um leikritið tveimur dögum áður og sá þá að þetta væri ekki sýning fyrir mig enda voru skilti við innganginn þar sem viðkvæmir voru varaðir við. Ég lét mig samt hafa það til að hitta vinkonurnar en hefði betur verið heima. Þessi ¨leiklistarviðburður¨ er að mínu mati einn viðbjóður frá upphafi til enda og skilur ekkert eftir nema vanlíðan og ógleði. Þetta er í fyrsta sinn sem ég bíð eftir hléi - sem aldrei kom- til að geta farið heim. Síðasta hlutann horfði ég ekki á og í lok sýningar gat ég ekki einu sinni klappað. Ég skil ekki alltaf þörf leikritahöfunda til að ganga gersamlega fram af áhorfendum og að það kallist leiklistarviðburður þegar það er gert. Ef fólk fer með bros á vör út úr leikhúsinu þá er það ekki list. List verður að vera ljót og sársaukafull til að vera gjaldgeng meðal sérfræðinganna. Ég veit vel að það þarf að koma skilaboðum til heimsins um þann viðbjóð sem viðgengst í veröldinni en ég tel mig samt fá góðan skammt af því í blöðum og fréttum. Og hvað gera áhorfendur sem ganga út af svona sýningu? Fara þeir og breyta heiminum? Hvað gerum við til að breyta því ranglæti sem viðgengst hér á landi? Vilja allir vita af því ofbeldi sem er beitt gegn börnum, kannski í næsta húsi við okkur? Nei, við hristum hausinn yfir því að svona fólk skuli vera til og snúum okkur svo að öðru. Nú vona ég að ég sé búin að skrifa mig frá þessum viðburði og reyni að heyra ekki auglýsingarnar sem glymja um samdóma álit gagnrýnenda á þessari sýningu. Það kemur reyndar ekki fram hvort það sé jákvætt eða neikvætt, enda var sá dómur sem ég las ekki jákvæður. Nóg um það, ég vel mér næst það sem mig langar til að sjá.
Veðrið hefur verið gott undanfarið, mikið frost og kuldi en bjart og stillt. Allt í lagi að hafa snjó þegar hann fær að vera í friði og ekki að fjúka til og frá. Í dag er sólskin og fallegt veður og ég ætla að leggja prjónana til hliðar og koma mér út.
No comments:
Post a Comment