Sunday, August 31, 2008

Þórsmerkurferð

Kort af Þorsmörk. Dökku línurnar eru þær leiðir sem við gengum.
Við fórum í alvöru fjallatrukk frá Hópferðamiðstöðinni með traustum bílstjóra svo allur minn kvíði fauk út í veður og vind og hjartað sló ekki feilpúst þegar við fórum yfir árnar.

Fríður hópur við lónið sem við fórum yfir og ég afþakkaði að nota göngubrúna, kjarkurinn orðinn ótrúlega mikill enda kom ég sjálfri mér og öðrum mikið á óvart í þessari ferð.

Vörubíllinn sem aðstoðar við að fara yfir Krossá.
Ég held ég myndi ekki leggja í þetta á jepplingnum.

Komin í Merkursel í Húsadal. Matta og Stína brostu út að eyrum
eins og reyndar allir gerðu alla ferðina.


Við fórum strax í göngu yir í Langadal. Fararstjórinn,Ingibjörg Ragnars, tók mig á sálfræðinni og neitaði að skilja mig eftir í berjamó. Sagði að þetta væri stutt ganga fyrir alla og ég gæti bara snúið við ef ég gæfist upp. Sem betur fer þorði ég ekki annað en hlýða og þetta varð að fjögurra tíma göngu sem ég hefði ekki viljað missa af. Kom sjálfri mér mjög mikið á óvart og komst alla leið og ég sem kemst varla upp úr Elliðaárdalnum eftir 15 mínútna göngutúr.

Við Snorraríki en þar faldi einhver Snorri sig fyrir óvinum fyrir margt löngu. Þrír ofurhugar klifruðu upp og sýndu ótrúlega takta. Ég lét það eiga sig, vildi ekki vekja of mikla athygli.

Matta fór létt með að fara í spor eiginmannsins sem glittir í á bak við hana.
Jón Ingi fór fyrstur upp en sést ekki inn i myrkrinu.

Komin í Langadal og þar ætlaði ég að snúa við og fannst ég bara búin að sýna þrekvirki að komast þangað en enn beitti Ingibjörg sálfræðinni og sagði að það væri létt
ganga upp í Slyppugil og enn hlýddi ég, sem betur fer.

Af og til var áð til að kasta mæðinni og það bjargaði mér.
Reyndar varð þetta alltaf léttara eftir því sem leið á gönguna.

Komin upp úr Slyppugilinu og Matta ennþá brosandi út að eyrum.
Við ætluðum aðra leið til baka en fundum hana ekki svo við gengum sömu leið, bara uppi í staðinn fyrir niðri í gilinu og enduðum á sama stað, í Langadal. Þarna uppi sáum við vítt og breitt og fjallahringurinn er stórkostlegur og mikil litadýrð. Veðrið var yndislegt, logn, smáúði annað slagið og reyndar smáhaglél líka og svo skein sólin inn á milli. Gat ekki verið betra.

Er það furða að tröllasögur hafi orðið til?

Sönnun fyrir því að ég fór upp. Þarna var ég komin í gott form og steinhætt að væla um að ég gæti þetta ekki. Held að sjálfstraustið hafi vaxið um helming þarna upp frá.

Vi lögðum af stað heim um hádegið í dag og þegar við vorum komin aftur yfir Krossá var farið upp í Stakkholtsgjá og tekinn ¨léttur¨ göngutúr inn í gjána til að ná úr sér harðsperrunum eftir löngu gönguna í gær.

Það þurfti að vaða yfir ána á nokkrum stöðum og við þurftum að rifja upp gamla takta við að stikla á steinum. Sveitamaðurinn í mér vaknaði á ný og kom mér yfir án þess að ég dytti í ána.

Hvar ætli sé best að fara yfir?

Komin inn að fossi sem fellur niður innst í gjánni. Þessari á ég að þakka að hafa nú látið gamlan draum rætast að komast í Þórsmörk. Þetta er sem sagt Ingibjörg Ragnars sem tók mig á sálfræðinni og hlustaði ekki á vælið í mér, kom mér af stað í gönguna og hvatti mig áfram.
Verð henni ævinlega þakklát því þarna tókst mér að sanna fyrir sjálfri mér að sennilega get ég meira en ég hélt að ég gæti. Og áfram nú stelpa!

Haustferðin okkar í Engjaskóla var sem sagt ferð í Þórsmörk. Þetta var ákveðið í vor og skálinn pantaður og þá ætluðu allir að fara. Þegar á reyndi reyndust margir uppteknir við annað en þessi 17 hraustmenni létu það ekki á sig fá og fóru samt og við sjáum ekki eftir því, enginn hefði viljað missa af þessu. Þetta var besta hópefli sem hægt er að fá, allir að hjálpast að og styðja hvern annan. Eftir gönguferðina á laugardag var grillað, eiginmennirnir þrír í hópnum sáu um það og reyndust hinir mestu grillmeistarar. Eftir matinn var byrjað að syngja og djamma en þá fór að siga á seinni hlutann hjá mér og mikill lúi gerði vart við sig. Ég var því komin á dýnuna upp úr tíu og lét hinum eftir að skemmta sér. Sé svolítið efir því að hafa ekki haft þol í djammið en það er ekki hægt að gera allt. Ég var líka mjög ánægð með það þegar ég vaknaði í morgun eldhress þótt það væri reyndar dálítið erfitt fyrst að rísa upp af dýnunni. En það lagaðist og eftir morgunmat var allt skúrað út og við drifum okkur út í sólina sem nú skein glatt og varla skýhnoðri á himni. Gangan inn Stakkholtsgjá var ekki síðri heldur en gangan í gær. Þarna er óskaplega fallegt og fossinn innst í gjánni er mikil náttúruperla. Það var því ánægður og svolítið lúinn hópur sem skilaði sér í bæinn aftur um fimmleytið. Búið að treysta vinaböndin og byggja upp sjálfstraust hjá sumum, alla vega mér, og nú get ég varla beðið eftir næstu haustferð og þá verður sko ekkert væl.

















2 comments:

Jobove - Reus said...

very good blog, congratulations
regard from Reus Catalonia
thank you

frugalin said...

Frábær færsla hjá þér, rosalega var þetta vel heppnað allt saman. Hér sit ég alveg græn af öfund, ég hefði sko viljað koma með.