

Verst að hann tekur aldrei myndir af mér og bókunum mínu.
Við erum búin að vera í Skógarbæ í tæpa viku. Alltaf nóg að gera, alla vega hjá Brandi. Hann er búinn að setja upp nýjan stiga upp á svefnloftið og smíða í kringum lúguna svo nú er komið þetta fína herbergi í risinu og við bíðum spennt eftir gestum sem vilja prófa að sofa í Körukoti eins og hún kallaði það í fyrra þegar hún var búin að búa vel um sig á loftinu. Kannski fæ ég að fara með börnin hans Jóa þann 12. júlí en mér finnst hann vera eitthvað hræddur um að við týnum þeim í skóginum. Dórubörn týndust nefnilega í smástund í fyrra en við fundum þau nú fljótlega að vaða í vatninu alveg alsæl. Mamman var ekki alveg eins ánægð því þegar hún hringdi þá fann ég þau ekki alveg strax. En maður gerir nú vonandi ekki sömu mistökin tvisvar er það nokkuð?
Veðrið var yndislegt fram að helgi en þá kólnaði og þá tók bara innivinnan við, Brandur að smíða og ég að lesa. Á laugardeginum fórum við að sjá Brák í Landnámssetrinu og þar fór Brynhildur Guðjónsdóttir á kostum enda nýbúin að landa Grímuverðlaunum. Hún var ekki síðri en Benedikt Erlingsson í Mr Skallagrímsson. Lá við að ég táraðist stundum við túlkun hennar á örlögum írskra ambátta og þræla. Forfeður okkar voru ekki allir til að stæra sig af þótt við höldum uppi minningu hinna frábæru íslensku/norsku víkinga. En miðað við minn litarhátt tel ég mig vera afkomanda hinna írsku vinnuþræla. Ég hef líka verið alveg viss um þetta síðan ég las eftir Sigríði Klingenberg að þeir sem ekki væru stungnir af flugum væru með þrælablóð í æðum en hinir væru með kóngablóð. Þetta raskaðist þó aðeins hjá mér í vikunni þegar ég var að kurla niður birkið í nýja kurlaranum og mýið var upp á sitt besta í veðurblíðunni (og við sem vorum nýbúin að monta okkur af að það væri ekkert mý í Skorradalnum). Þrátt fyrir sólgleraugu og derhúfu létu mýflugurnar mig ekki í friði, skriðu undir gleraugun og náðu að stinga mig í augnlokið. Ég hef því ekki verið mjög frýnileg síðustu daga og Brandur var hálfhræddur við að sýna mig í Borgarnesi á laugardaginn, hélt hann yrði kærður fyrir heimilisofbeldi. Ég held líka að í viðbót við mýflugubitið hafi ég fengið frjókornaofnæmi af birkikurlinu Svo tók ekki betra við í gærkvöldi þegar hann fór að bera viðarolíu á nýja lúgustigann en þá var ég við það að kafna af lyktinni og farin að hósta upp lifur og lungum og heimtaði að fara í bæinn. Við keyrðum því heim í nótt í yndislegu veðri og vorum ein í heiminum, fáir á ferð.
Ég er búin að lesa allnokkrar bækur og í gær las ég ævisögu Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu og sú hefur komið víða við á lífsleiðinni. Fimm barna móðir sem eignaðist þrjá eiginmenn sem allir urðu vinir, geri aðrir betur. Eftir þrjár krabbameinsmeðferðir sá hún það að gleðin er besta leiðin til að halda ónæmiskerfinu gangandi og passaði sig alltaf á að detta eitthvað skemmtilegt í hug til að gera þótt kannski hugnaðist það ekki alltaf öllum í kringum hana. Það minnti mig á frænku mína sem alltaf lætur sér detta eitthvað í hug eins og maðurinn sagði og framkvæmir það. Tökum þetta okkur til fyrirmyndar og látum ekki vinnustress og hversdagsleg leiðindi brjóta niður í okkur varnarkerfi líkamans, hugsum hátt og gerum eitthvað skemmtilegt. Mér dettur oft ýmislegt í hug en því miður sest ég oftast og læt það líða hjá. Þarf að breyta því og fara að framkvæma.
Ég er búin að lesa allnokkrar bækur og í gær las ég ævisögu Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu og sú hefur komið víða við á lífsleiðinni. Fimm barna móðir sem eignaðist þrjá eiginmenn sem allir urðu vinir, geri aðrir betur. Eftir þrjár krabbameinsmeðferðir sá hún það að gleðin er besta leiðin til að halda ónæmiskerfinu gangandi og passaði sig alltaf á að detta eitthvað skemmtilegt í hug til að gera þótt kannski hugnaðist það ekki alltaf öllum í kringum hana. Það minnti mig á frænku mína sem alltaf lætur sér detta eitthvað í hug eins og maðurinn sagði og framkvæmir það. Tökum þetta okkur til fyrirmyndar og látum ekki vinnustress og hversdagsleg leiðindi brjóta niður í okkur varnarkerfi líkamans, hugsum hátt og gerum eitthvað skemmtilegt. Mér dettur oft ýmislegt í hug en því miður sest ég oftast og læt það líða hjá. Þarf að breyta því og fara að framkvæma.
Í kvöld ætlum við að spila hjá Önnu Margréti og kjafta pínulítið að góðum sið, það er örugglega mjög gott fyrir ónæmiskerfið.