Monday, June 30, 2008

Alltaf nóg að gera í Skógarbæ

Brandur stoltur við nýja stigann upp á svefnloftið, nú get ég skroppið á efri hæðina til tilbreytingar.
Og nýjasta leikfangið og þarfaþingið, trjákurlarinn.
Verst að hann tekur aldrei myndir af mér og bókunum mínu.


Við erum búin að vera í Skógarbæ í tæpa viku. Alltaf nóg að gera, alla vega hjá Brandi. Hann er búinn að setja upp nýjan stiga upp á svefnloftið og smíða í kringum lúguna svo nú er komið þetta fína herbergi í risinu og við bíðum spennt eftir gestum sem vilja prófa að sofa í Körukoti eins og hún kallaði það í fyrra þegar hún var búin að búa vel um sig á loftinu. Kannski fæ ég að fara með börnin hans Jóa þann 12. júlí en mér finnst hann vera eitthvað hræddur um að við týnum þeim í skóginum. Dórubörn týndust nefnilega í smástund í fyrra en við fundum þau nú fljótlega að vaða í vatninu alveg alsæl. Mamman var ekki alveg eins ánægð því þegar hún hringdi þá fann ég þau ekki alveg strax. En maður gerir nú vonandi ekki sömu mistökin tvisvar er það nokkuð?
Veðrið var yndislegt fram að helgi en þá kólnaði og þá tók bara innivinnan við, Brandur að smíða og ég að lesa. Á laugardeginum fórum við að sjá Brák í Landnámssetrinu og þar fór Brynhildur Guðjónsdóttir á kostum enda nýbúin að landa Grímuverðlaunum. Hún var ekki síðri en Benedikt Erlingsson í Mr Skallagrímsson. Lá við að ég táraðist stundum við túlkun hennar á örlögum írskra ambátta og þræla. Forfeður okkar voru ekki allir til að stæra sig af þótt við höldum uppi minningu hinna frábæru íslensku/norsku víkinga. En miðað við minn litarhátt tel ég mig vera afkomanda hinna írsku vinnuþræla. Ég hef líka verið alveg viss um þetta síðan ég las eftir Sigríði Klingenberg að þeir sem ekki væru stungnir af flugum væru með þrælablóð í æðum en hinir væru með kóngablóð. Þetta raskaðist þó aðeins hjá mér í vikunni þegar ég var að kurla niður birkið í nýja kurlaranum og mýið var upp á sitt besta í veðurblíðunni (og við sem vorum nýbúin að monta okkur af að það væri ekkert mý í Skorradalnum). Þrátt fyrir sólgleraugu og derhúfu létu mýflugurnar mig ekki í friði, skriðu undir gleraugun og náðu að stinga mig í augnlokið. Ég hef því ekki verið mjög frýnileg síðustu daga og Brandur var hálfhræddur við að sýna mig í Borgarnesi á laugardaginn, hélt hann yrði kærður fyrir heimilisofbeldi. Ég held líka að í viðbót við mýflugubitið hafi ég fengið frjókornaofnæmi af birkikurlinu Svo tók ekki betra við í gærkvöldi þegar hann fór að bera viðarolíu á nýja lúgustigann en þá var ég við það að kafna af lyktinni og farin að hósta upp lifur og lungum og heimtaði að fara í bæinn. Við keyrðum því heim í nótt í yndislegu veðri og vorum ein í heiminum, fáir á ferð.
Ég er búin að lesa allnokkrar bækur og í gær las ég ævisögu Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu og sú hefur komið víða við á lífsleiðinni. Fimm barna móðir sem eignaðist þrjá eiginmenn sem allir urðu vinir, geri aðrir betur. Eftir þrjár krabbameinsmeðferðir sá hún það að gleðin er besta leiðin til að halda ónæmiskerfinu gangandi og passaði sig alltaf á að detta eitthvað skemmtilegt í hug til að gera þótt kannski hugnaðist það ekki alltaf öllum í kringum hana. Það minnti mig á frænku mína sem alltaf lætur sér detta eitthvað í hug eins og maðurinn sagði og framkvæmir það. Tökum þetta okkur til fyrirmyndar og látum ekki vinnustress og hversdagsleg leiðindi brjóta niður í okkur varnarkerfi líkamans, hugsum hátt og gerum eitthvað skemmtilegt. Mér dettur oft ýmislegt í hug en því miður sest ég oftast og læt það líða hjá. Þarf að breyta því og fara að framkvæma.
Í kvöld ætlum við að spila hjá Önnu Margréti og kjafta pínulítið að góðum sið, það er örugglega mjög gott fyrir ónæmiskerfið.

Monday, June 23, 2008

Sælt er að eiga sumarfrí ...

Maggý komin á háaloftið og þurfti nú aðeins að gretta sig framan í okkur.

Hún fór létt með að klifra upp og sýnir hér sitt rétta andlit.

Við frænkur prófuðum aðeins nýju hjólin.


Og svona tökum við okkur vel út á leiðinni í hjólatúr.
Takið vel eftir nýju flottu hjólabuxunum mínum, tek þetta með stæl!!



Eftir að hafa lesið bloggið hennar Önnu finnst mér ekkert vera að gerast í mínu lífi, en ég er á lífi og það er fyrir öllu. Brandur kom í land á föstudaginn og ég brunaði með hann í Hafnarfjörð að kaupa hjól eftir að hafa prufuleyrt nýja hjólið hennar Önnu. Fyrir rest ákvað ég að vera skynsöm og keypti mun ódýrara hjól þar sem mér leist ekki á að ég kynni á fótbremsuna á dýra hjólinu og myndi steypast fram yfir mig ef ég bremsaði bara að framan. Því næst var farið í BYKO og keypt hjólagrind á bílinn og við vorum ákaflega ánægð með okkur þegar við brunuðum í Skorradalinn með tvö hjól meðferðis. Snædísi leist ekki mjög vel á kaupin og spurði mig hvort ég þekkti ekki sjálfa mig betur en þetta!! Svo nú verð ég að afsanna þau orð og vera dugleg að hjóla.
Á laugardaginn eftir að hafa komið garðhúsgögnum og öðru á sinn stað fórum við í hjóltúr með nesti. Við hjóluðum inn fyrir Fitjar, stórgrýttan torfæruveg og það gekk ágætlega að okkar mati. Brosið fór ekki af mér allan tímann og mér leið eins og ég væri aftur orðin 10 ára. Við borðuðum nesti við litla á og fylgdumst með stóru fiðrildi synda af krafti á móti straumnum og það komst á land. Á leiðinni til baka kom helliskúr en það var allt í lagi, gott að fá smábað þar sem Brandur er ekki enn búinn að fá leyfi til að stækka kofann fyrir sturtu.
Um kvöldið kom Maggý í kvöldmat en hún var á leiðinni í sumarbústaðinn á Signýjarstöðum sem hún hélt að hún mætti fara í á laugardeginum. Fyrst ætlaði hún á Mr Skallagrímsson í Landnámssetrinu en þeirri sýningu var aflýst vegna þess að Brynja Benediktsdóttir, móðir Benedikts, varð bráðkvödd. Hún kom því til okkar í staðinn. Tómas og vinir hans voru í brúðkaupi uppi í Húsafelli og ætluðu að gista hjá henni í bústaðnum. En þegar þeir voru búnir að koma sér fyrir og skrifa í gestabókina birtust hjón sem sögðust vera búin að leigja bústaðinn yfir nóttina. Þau voru ekki sátt, enginn Mr Skallagrímsson og 3 mjög stæðilegir körfuboltastrákar í bústaðnum þeirra. Eftir nokkuð þras þar sem maðurinn var við það fara yfir um á þessum hremmingum sínum (vonandi að það komi aldrei neitt vera fyrir aumingja manninn) þá leystum við málið, keyrðum Gullvagninn upp í Húsafell fyrir körfuboltagæjana og settum Maggý á svefnloftið hjá okkur. Þetta varð því hin mesta skemmun fyrir okkur og ég vona að hjónin á Signýjarstöðum hafi átt gott kvöld líka, alla vega skrifuðu þau það í gestabókina og tóku vel á móti Maggý í gær eftir hádegið. Í gærkvöldi bauð Maggý okkur svo í grillað lambalæri og þar hittum við nýju kærustuna hans Tomma, hana Önnu Maríu, og Eydísi dóttur hennar sem er mikið fötluð en yndisleg lítil stúlka. Svo sóttum við Gullvagninn í Húsafell og keyrðum hann heim til sín í Skógarbæ og fórum svo heim vegna þess að Brandur er að ljúka störfum í dag fyrir sumarfrí.
Hvað var ég eignlega að öfunda Önnu hérna í byrjun, það er fullt að gerast hjá mér líka og svo finnst mér voða gott að gera ekki neitt eins og Auður Haralds sagði forðum ¨Hvers vegna þarf maður alltaf að vera að gera eitthvað?¨

Wednesday, June 18, 2008

Sumarfrí

Púki hefur verið dálítið lasinn undanfarið en er allur að braggast
enda kominn á sýklalyf blessaður.
Ég var hálfhrædd um að það yrði hringt á lögregluna þegar
þessar birtust með mafíósatöskuna og sólgleraugun.


Þá er ég komin í sumarfrí og gaman að vera til. Í gær fórum við Maggý í einkaskrúðgöngu upp á Úlfarsfell í frábæru veðri, sólskini og logni. Ekki komst ég á toppinn en langleiðina samt. Eftir það fórum við í bíltúr um Mosfellsbæ, skoðuðum gamla húsið mitt á Mel og fórum í garðaskoðun í Hlíðartúninu hjá Eddu Gísla. Þá vorum við orðnar svo svangar að við fórum á Nings og borðuðum þar mjög góðan heilsurétt. Því næst lá leiðin í Austurbergið og þar þurrkuðum við rykið af hjólunum hennar Maggýjar og fórum í hjólatúr niður í Elliðaárdalinn. Það kveikti svo rækilega í mér að ég ákvað að kaupa af henni hjólið og nú skal tekið á því. Nú vantar bara annað hjól fyrir Brand og í dag fórum við Anna Eym í leiðangur í helstu hjólabúðir borgarinnar og skoðuðum hjól af öllum gerðum og í mismunandi verðflokkum. Eftir að hafa séð hjól á nokkur hundruð þúsund fannst okkur orðið hræódýrt að kaupa hjól á 70 þúsund enda verðum við ekki lengi að spara upp í það með því að spara bensínhákana, bara hjóla upp í ca 7 ferðir á bensínstöðina og þá er þetta búið að borga sig. Var ekki Geiri kallinn að segja okkur að spara bílinn og eyða minna! Bíð bara spennt eftir að sjá hann sjálfan skipta út 10 milljóna króna jeppanum.
Í kvöld stálumst við Önnurnar til að spila smávegis hér hjá mér. Það var virkilega gaman þótt ekki gengi ég með sigur af hólmi, verð að leyfa þeim að vinna stundum til að hafa þær kátar.
Á morgun ætlum við Anna Eym svo að vera myndarlegar húsmæður og grynnka á fiskibirgðunum í frystikistunni og búa til slatta af fiskibollum til að spara ennþá meira, ekki þýðir að leggjast í leti þótt maður sé kominn í frí.



Friday, June 13, 2008

Föstudagurinn 13.

Karen og Snædís með ömmu Fjólu að fagna útskrift.
Rúna og ég í desember s.l.

Það er yndislegt að eiga svona góða vinkonu af eldri kynslóðinni.


Yndislegur dagur, sólskin og hiti. Svaf yfir mig í morgun en komst á skikkanlegum tíma í vinnuna. Ég er ennþá að ljúka vorverkunum í skólanum og það er bara gaman að fara og hitta þá sem enn eru að vinna við lokatiltektirnar. Ég verð eitthvað fram í næstu viku að dútla við skýrslugerð og annað sem fylgir deildarstjórastörfunum. Ég vona svo að það komi einhver góð kona og taki við því næsta vetur og ég geti bara kennt eins og áður.
Þegar ég var búin í skólanum fór ég til Fjólu, fyrrverandi tengdamóður minnar og fékk hana með mér í bíltúr. Við fórum og heimsóttum vinkonu okkar á Grund, hana Rúnu, sem varð ákaflega glöð að sjá okkur enda kannski ekki margir sem heimsækja hana. Við fórum með hana í bíltúr um Vesturbæinn sem er hennar heimabyggð. Við fórum út í Gróttu og út í Örfirisey og fengum okkur kaffi og pönnukökur á Kaffivagninum og horfðum á bátana vagga við bryggjuna. Þetta var notaleg stund og við undum okkur vel saman, gömlu konurnar. Ég vona að það líði ekki langur tími þangað til ég geri þetta næst því þetta gerir mikið fyrir sálartetrið, bæði hjá mér og þeim. Við áttum okkur ekki alltaf á því að þótt tíminn líði hratt hjá okkur þá líður hann ekki jafnhratt hjá þeim sem eldri eru. Við eigum jú eftir að eldast líka og þá er það spurning hvort einhver má vera að því að gefa okkur af tíma sínum.
Það er ljúft að sigla inn í sumarfríið og eftir viku verður Brandur kominn í sumarfrí líka og þá verður gott að slappa af í Skorradalnum og hlaða batteríin. Alltaf gott að hafa eitthvað til að hlakka til.

Sunday, June 8, 2008

Skólalok

Nefndin að ljúka störfum, ¨ógeðslega geðveikt¨ kátar.

Miss Pinky sposk á svip enda hætt að kenna, í bili.

Makarnir voru ekki síður kátir, alla vega hann Valdi.


Nefndarkonur ennþá kátar því allir voru svo glaðir með störf þeirra.

Mikil heilabrot við lausn vísnagátunnar.
Guðný, Björk og Ástríður.

Og ennþá meiri heilabrot hjá Marínó, Hervöru og Aðalheiði.

Bestu vinkonur, Matta og Helga tóku sjálfsmynd.

Er það nokkuð skrýtið að ég sé hætt við að hætta þegar maður á svona góða vini og samstarfsfélaga eins og hana Gerði.

Smásýnishorn af búningavali. Siggi svo glaður með Möttu sína.


Þá er skólaárið senn á enda. Börnin farin í frí en við eigum eftir nokkra daga enn í frágang og fundahöld áður en við göngum út í sumarið. Við útskrifuðum börnin á föstudaginn og um kvöldið hlupum við út um víðan völl eins og kýrnar þegar þeim er hleypt út á vorin.
Við byrjuðum reyndar á því að aka upp í Mosfelldal til að skoða rósarækt í Dalsgarði. Við fundum reyndar ekki þann sem ætlaði að taka á móti okkur enda reyndist hann vera á myndlistar-sýningu í Reykjavík og hafði steingleymt okkur. Konan hans hún Helena, sem kenndi með mér forðum í Varmárskóla, sagði okkur bara að gera okkur heimakomin sem við vorum reyndar búin að gera áður en ég náði í hana. Við borðuðum nesti á hlaðinu og skoluðum því niður með ávaxtasafa í frábæru veðri, skoðuðum rósirnar og annað grænmeti sem þarna er að finna. Því næst var keyrð Hafravatnsleiðin, nauðsynlegt að kynna sveitina fyrir öllum borgarbörnunum. Endastöðin var við Reynisvatn en þar eyddum við kvöldinu í tjaldi sem reyndist vera hinn ákjósanlegasti partýstaður. Við nefndarkonur, ég, María og Matthildur, sendum liðið út í ratleik og á meðan grilluðum við lambakjöt ofan í liðið. Fyrir viku skiptum við öllum upp í hópa og enginn fékk að velja sér félaga heldur dreifðum við mannskapnum sem mest því nú skyldi verða hópefli af bestu gerð. Þetta tókst mjög vel, liðin bjuggu sér til búninga, fundu nöfn á hópinn og æfðu ¨fagn¨. Hugmyndaflugið var mikið og nöfn eins og Náttúrubörn, Pinkies, Sólskinsbörn og fleiri skemmtileg litu dagsins ljós. Hóparnir kepptu svo í ratleik og reyndist það mörgum erfitt, alla vega stoppaði ekki síminn hjá okkur meðan verið var að leita að réttu stöðvunum. Á meðan grilluðum við með viðeigandi brasi, fyrst inni, þar til tjaldið var að fyllast af reyk. Þá ákváðum að bera grillin út, logandi, annað datt í sundur meðan hitt logaði upp í rjáfur en karlmenni mikið sem ríkti yfir staðnum bjargaði okkur á síðustu stundu áður en við kveiktum í okkur sjálfum og kofanum. Kjötið hvarf samt ofan í mannskapinn, misjafnlega brennt og eldað, en við fengum samt mikið lof fyrir eldamennskuna.
Þegar allir voru mettir hófst keppni í að leysa vísnagátur og urðu þar mikil heilabrot en sá hópur sem vann var með 6 rétt af 7 og var það vel af sér vikið.
Að lokum upphófst myndasýning en í ratleiknum urðu allir að taka hópmyndir á öllum stöðvum til að sanna að þeir hefðu fundið þær. Myndirnar voru settar í tölvu og sýndar á vegg með hjálp skjávarpa (þetta var allt svo svakalega vel skipulagt hjá okkur). Það sást vel á myndunum að fólk hafði skemmt sér vel á ferð sinni í kringum vatnið og sýndu þær mikið hugmyndaflug og frumleika. Það var erfitt fyrir nefndina að velja úr en að lokum komumst við að samkomulagi um að Náttúrubörnin hefðu sýnt mestu hæfileikana og fundið allar stöðvarnar og fengu þau vegleg verðlaun, barmnælur með mismunandi áletrunum eins og Bad Girl og Frisky o. fl.
Að lokum var stiginn dans fram yfir miðnætti og komu margir á óvart með því að sýna frábæra takta á dansgólfinu, nefni engin nöfn. Þegar búið var að taka til var haldið heim til Möttu með allt draslið og sest niður til að ná sér niður áður en fólk hélt heim í háttinn.
Laugardagurinn fór svo fyrir lítið enda nauðsynlegt að hvíla sig eftir svona meiri háttar skemmtun. Í dag renndi ég svo í Skorradalinn, setti niður kartöflur og plantaði sumarblómum og undi mér vel í sólskini og blíðu og smágróðrarskúrum. Maggý kom í kaffi á leið sinni heim frá Ólafsvík og það er ekki laust við að ég sé búin að fá smálit í andlitið eftir daginn.



















Monday, June 2, 2008

40 ára útskriftarafmæli

Sigrún Björk,Vigdís og Sigurður Helgason.
Vigdís byrjaði kennsluferil sinn fyrir 40 árum í Laugargerði og því vel við hæfi að hún héldi upp á þessi tímamót með okkur þótt hún slyppi við að kenna okkur en hún kom haustið eftir að við hættum. Hún er flugfreyja og valdi það fram yfir kennslu en starfar sem forfallakennari í Engjaskóla með flugfreyjustarfinu.
Sigurður Helgason var fyrsti skólastjóri skólans frá 1965 - 1970. Það var virkilega gaman að hitta hann aftur eftir öll þessi ár en hann var dýrkaður og dáður og hefur verið okkar helsta fyrirmynd enda urðu 5 af þessum 15 nemenda hópi kennarar og starfa enn sem slíkir.
Hjónakornin í veislukaffi í Laugargerði.

9 af 15 mættu.
Sigrún Björk, Sesselja, Úrsúla, Kristín Björk, Ingi, Alda, Þórður,
Sigurður skólastjóri, Geir og Valgeir.

Við brunuðum í Skorradalinn á föstudagskvöldið, grilluðum nautasteik og fundum stressið leka af okkur í kyrrðinni og fuglasöngnum. Skógurinn er orðinn fulllaufgaður og dalurinn óskaplega fallegur að vanda. Á laugardeginum fórum við svo vestur á Snæfellsnes til að hitta gamla bekkjarfélaga úr Laugargerði en í vor eru 40 ár síðan við útskrifuðumst þaðan. Veðrið var gott, sólskin en dálítill vindur eins og sést á myndunum, hárgreiðslan hélst ekki alveg í skorðum.
Kristín Björk bekkjarfélagi okkar er skólastjóri í Laugargerði og tók því á móti okkur. Það var gaman að koma aftur í skólann og deila minningum en það var misjafnt hvað hver mundi, hvort það voru prakkarastrik eða eitthvað annað. Skrýtið hvað við mundum lítið eftir að hafa lært eitthvað. Svo fannst okkur undarlegt hvað skólinn var orðinn miklu minni en hann var, eða kannski höfum við stækkað eitthvað.
Eftir skemmtilegan dag og fyrirheit um að láta ekki líða önnur 40 ár þar til við hittumst næst þá fórum við aftur í Skorradalinn. Brandur ætlaði að bjóða mér að borða á gamla Nauthól sem nú er í Borgarnesi en leist ekkert á að borða innan um bjórdrykkjumenn (orðinn dálítið fanatískur kallinn) svo við keyptum okkur bara steik og grilluðum aftur í kotinu enda var það miklu notalegra. Við vorum svo nokkuð dugleg á sunnudeginum, stungum upp kartöflugarðinn (réttara sagt Brandur gerði það og ég horfði á), nutum þess að vera í sólinni og laufskrúðinu. Renndum svo í bæinn um kvöldmatarleytið og uppgötvuðum að alls staðar var moldrok nema í Fitjahlíðinni. Það var ansi hvasst undir Hafnarfjallinu og á Kjalarnesinu en við komumst heim heilu og höldnu. Þar voru Guðrún, Daníella og Jökull að bíða eftir að Jói kláraði að vinna svo við gátum aðeins farið í ömmu og afaleik svona í helgarlok.