Thursday, May 1, 2008

Vor í Budapest

Í garði ræðismannsins.
Ræðismaðurinn og Jói kokkur.

Brandur og Michael Jackson úr marsipani. Safn í Szentrende þar sem allt er búið til úr marsipani.

Skálað í ístei á Café Kara.

Sígaunarnir sem dönsuðu fyrir okkur í siglingunni á Dóná.

Séð yfir Pest úr Budahæðum.

Á leiðinni upp í Citadellavirkið á Géllerthæð.

Á Hetjutorginu.

Hin íslensk-ungverska Maríanna í góðum gír.

Í Hellasjúkrahúsinu í Budahæðum. Þetta sjúkrahús hefur verið starfrækt án vitundar borgarbúa frá því í síðari heimsstyrjöldinni. Síðan í uppreisninni 1958 hefur því verið haldið við ef styrjöld brytist út á ný en aldrei notað nema í myndinni Evita sést hvar Eva Peron (Maddona)er í aðgerð á skurðstofunni. Ein hjón sáu um viðhald allan tímann, hann sá um vélarnar og hún skúraði (2000 fermetra) og skipti á rúmum hálfsmánaðarlega þar til árið 2004 en þá dó gamli maðurinn og þá var ákveðið að breyta sjúkrahúsinu í safn og það er nýbúið að opna það og við fyrsti íslenski hópurinn sem kemur í safnið. Ungverjar sjálfir vita varla af þessu ennþá. Þetta er vandlega falið, aðeins sjást rammgerð járnhlið að utan. Þetta eru náttúrulegir hellar sem fundust þegar verið var að grafa fyrir kjöllurum húsa eða brunnum. Þarna er allt eins og það var með skurðstofum, röntgentækjum og sjúkraherbergjum. Búið að búa til fjöldann allan af brúðum sem eru óhugnanlega eðlilegar eins og sá gamli sem sést hér í rúminu sínu. Ótrúlegt að það skyldi hafa verið hægt að fela þetta allan þennan tíma fyrir borgarbúum en sjúkrahúsið var aðeins fyrir helstu toppana og var í samvinnu við annað sjúkrahús ofanjarðar.

Í dýragarðinum í Borgargarðinum næst Hetjutorginu. Úlfaldarnir sníktu óspart grasköggla af börnunum en voru ekkert sérstaklega glaðir að sjá.

Hittum alveg óvart á það að fá okkur kaffi á Café Kara.

Á kaffihúsi í miðbæ Pest í göngugötunni.

Fallegur álfur við Dóná.

Við fórum í helgarferð til Budapest dagana 24. - 28. apríl. Lentum á Furihéga um miðnættið og fórum beint á Hotel Mercur Korona. Fínt hótel í miðbæ Budapest, Pestmegin. Herbergið var frekar lítið en snyrtilegt. Að loknum morgunverði á föstudagsmorgun fórum við í skoðunarferð um borgina og fararstjórinn Maríanna sýndi okkur það markverðasta. Hún var líka fararstjórinn okkar í Búlgaríu forðum ásamt Júdit Rán sem var líka með okkur þarna. Þær eru báðar frábærar, brosmildar og skemmtilegar með húmorinn í lagi. Þær eru báðar ungverskar, foreldrar Maríönnu komu til Íslands sem flóttamenn í síðari heimsstyrjöldinni og hún því uppalin á Íslandi og Júdit kom hingað til að spila handbolta (held ég) og þær tala því báðar mjög góða íslensku.
Budapest er mjög falleg borg, sérstaklega Buda sem er byggð í Budahæðum. Margar fallegar byggingar og allt mjög snyrtilegt. Efnahagur landsins er samt ekki góður að sögn Maríönnu, verðlag orðið hátt og launin lág. Bensín, rafmagn og hiti er á hærra verði en hér á landi og kennari eftir 20 ára starf er með 45 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Getum við ekki bara verið ánægð með það sem við höfum? Matur er ódýrari en fatnaður virtist á svipuðu verði og hér alla vega í miðbæ Budapest.
Að lokinni skoðunarferð röltum við um miðbæ Pest og kíktum í búðir. Veðrið var yndislegt, 20 stiga hiti og logn og rólegt yfir öllu. Gott að setjast inn á kaffihús og horfa á mannlífið. Um kvöldið fórum við í siglingu á Dóná, borðuðum frábæran mat og horfðum á borgina upplýsta meðfram ánni. Ungir sígaunar dönsuðu og sungu fyrir okkur og drógu nokkra út á gólfið með sér.

Laugardagurinn var frír og við ákváðum að fara í gönguferð á Hetjutorgið en í garði þar við hliðina átti að vera markaður sem við reyndar fundum ekki. Við fórum því bara í dýragarðinn og skoðuðum flóðhesta, fíla og úlfalda og margt fleira. Þegar við vorum að komast hringinn hvessti snögglega og fór að rigna. Við stukkum því upp í næsta leigubíl þakin mold og úlfaldaskít og drifum okkur heim á hótel. Við æddum reyndar niður í göngugötu í rigningunni til að leita að linsuvökva en Brandur hafði tekið óvart með sér hreinsivökva að heiman sem fór ekki mjög vel með augun og hann var því orðinn frekar drykkjumannslegur til augnanna. Við fundum að lokum eina gleraugnabúð opna og keyptum þar dýrasta linsuvökva og box sem hingað til hefur verið keypt á þessu heimili.
Við náðum síðan að leggja okkur aðeins áður en haldið var á árshátíð Hafró sem var haldin á veitingastað uppi í Budahæðum þar sem útsýnið var frábært yfir borgina. Í leiðinni var komið við hjá ræðismanni Íslands í Budapest. Hann er ungverskur en talar frábæra íslensku enda hafði hann starfað hér sem tónlistarmaður um tíma og virtist vera mikill Íslendingur í sér. Hann kom síðan með okkur á árshátíðina.
Við skemmtum okkur svo fram yfir miðnætti, ég var reyndar ekki alveg í góðu formi enda orðin óvön að vera í ströngu prógrammi frá 8-24 marga daga í röð. Nennti ekki einu sinni út á dansgólfið þótt þar væri mikið fjör.
Að loknum morgunverði á sunnudag fórum við ferð til Szentrende sem er lítill bær rétt fyrir utan Budapest. Þetta er listamannabær þar sem handverksfólk selur túristum alls konar handverk í lítilli göngugötu. Sem betur fer var sölufólkið ekki mjög ágengt eins og við fundum svo mikið fyrir í Búlgaríu. Enda keyptum við ekki mikið. Ég féll samt fyrir bláum dúk sem er litaður á sérstakan hátt en þetta fyrirtæki hefur verið í eigu Kóvacsfjölskyldunnar síðan 1878. Svo var ekki hjá því komist að kaupa papriku og krem sem er uppistaðan í ungversku gúllassúpunni að þeirra sögn. Við fengum okkur svo gúllassúpu inni á pínulitlum veitingastað og hún var hið mesta hnossgæti.

Um kvöldið fórum við út að borða með áhöfninni á Árna. Staðurinn sem fararstjórarnir höfðu bent okkur á reyndist lokaður en við fundum annan inni í stórum hallargarði og fengum þar frábæran mat og þjónustu eins og reyndar alls staðar. Það voru allir sammála um að það væri sama hvar væri borðað, maturinn væri alls staðar góður og Ungverjar (Magyar) með þjónustulund í hæsta gæðaflokki.
Mánudagurinn fór svo í að ganga frá farangri og rölta um bæinn fram til hálffjögur en þá var farið út á flugvöll og flogið heim. Þrátt fyrir hálftímaseinkun vegna tæknibilunar lentum við fyrr en áætlað var í Keflavík og vorum komin heim rétt um miðnættið. Heimsferðir stóðu sig því vel í skipulagningu þessarar ferðar og einnig ferðanefnd Hafró og við alsæl með velheppnaða ferð.
Það var dálítið erfitt að detta svo aftur inn í vinnuna á þriðjudagsmorgni og Brandur fór svo um kvöldið út á sjó þar sem hann verður í mánuð en sem betur fer er símasamband orðið betra um borð og þess vegna týnist hann ekki alveg eins og oft gerist.
















No comments: