

Segir sennilega meira um myndasmiðinn heldur en þau.






Ótrúlegt en satt, 35 ár síðan við útskrifuðumst frá KÍ. Síðasti árgangurinn sem var í Kennaraskóla Íslands áður en hann breyttist í háskóla. Við vorum líka ansi stór árgangur, 8 bekkir + handavinnudeild og íþróttakennarar, um 260 manns.
Við í D-bekknum hittumst fyrst heima hjá mér í Grýtubakkanum. Ekki fjölmennt en góðmennt. Við vorum 11 sem mættum, þar af einn maki, hann Jói hennar Öldu sem er kominn í kennarastéttina til að vera viðræðuhæfur í okkar hóp. Það er eiginlega alltaf sami hópurinn sem mætir, Alda, Björg, Inga, Unnur, Þórey, Sjöfn, Una, Grétar, Þorleifur og ég. Aðrir góðir bekkjarfélagar létu ekki sjá sig en verða vonandi með næst.
Það var glatt á hjalla, minningarnar flóðu fram og forvitnast var um hagi hvers og eins. Þorleifur akinterar stíft fyrir Póllandsferðum sínum og vonandi getum við einhvern tímann farið með honum. Hef mikinn áhuga á að fara með honum í ferðina sem hann er að skipuleggja í byrjun ágúst. Einnig var talað um Pysjuhátíð og Goslokahátíð í Eyjum. Unnur mælti með Gosloka-hátíðinni þar sem pysjunum fer fækkandi í bænum og hvað ættum við þá annað að gera í Eyjum ef ekki er hægt að bjarga neinum pysjum.
Eftir velheppnað partý hér heima fórum við niður á Grand Hótel en þar var sameiginleg veisla allra bekkjanna. Þegar ég horfði yfir hópinn fannst mér ég varla þekkja nokkurn mann til að byrja með en svo fann ég einn og einn sem ég kannaðist við. Öll breytumst við jú þótt okkur finnist við alltaf vera eins. Níels Árni Lund var veislustjóri og naut sín vel í því hlutverki. Diddú kom og söng fyrir okkur eins og henni einni er lagið og síðan tók við dansleikur til kl 1 og vorum við orðin ansi fá sem entumst svo lengi. Aldurinn er eitthvað farinn að segja til sín.
Það er alltaf gaman að hoppa svona til baka í fortíðina og hitta gamla félaga og rifja upp gamlar minningar. Við Alda hittum reyndar félaga úr þremur skólum, KÍ, Reykjaskóla og Laugargerðis-skóla. Í vor eru 40 ár síðan við útskrifuðumst úr 2. bekk sem þá var, úr Laugargerði og þá er meiningin að storma vestur og hittast þar í fyrsta sinn á skólaslitin þann 31. maí en því stýrir auðvitað nýja skólastýran þar, hún Kristín Björk bekkjarsystir okkar.
No comments:
Post a Comment