Thursday, April 3, 2008

Heim á Fróni



Fræg stytta í Frognerparken í Ósló en man ekki nafnið á henni en sá litli er illa reiður.

Við fórum í göngutúr og ég komst aftur upp-við illan leik.


Svona leit út í Gansvika þegar við lögðum af stað heim.

Daginn fyrir heimför fór að snjóa og snjóa og snjóa. Ég var farin að halda að við kæmumst ekki heim en Ómar kom okkur út á flugvöll á sínum norska fjallabíl. Hef einu sinni áður stigið í útlenskan snjó og það var líka í Noregi þegar ég fór í sjúkrahúsferðina forðum rétt fyrir jól árið 1989, minnir mig. Og heim komumst við, ég vel útsofin og ánægð með að rétt finna fyrir því þegar vélin tekur sig á loft og vakna svo bara þegar hún lendir. Tekur orðið enga stund að skreppa milli landa.
Síðan tók vinnan við hjá mér og heimilisstörfin hjá Brandi. Spilaklúbburinn hittist kvöldið eftir og ég var næstum því búin að vinna, með smásvindli, en varð að láta í minni pokann, Verst hvað ég er orðin tapsár.
Á föstudaginn var brunað í Skorradal til að sjá hvort kotið væri uppistandandi eftir veturinn. Allt var í fínu lagi, engar mýs og dalurinn alltaf jafnfallegur. Við héldum áfram að slaka á, alla vega ég, og á sunnudagsmorgun var aftur brunað í bæinn og nú í brunch hjá Önnu Eym og Þórarni. Þar sátum við fram eftir degi, nógur matur og drykkur og mikið spjallað og hlegið. Við vorum eiginlega búin að ákveða að það væri fínt að búa til nýjan klúbb og hittast áfram síðasta sunnudag í hverjum mánuði og leyfa köllunum okkar að vera með þar sem þeir missa nú alltaf af okkar frábæru spilaklúbbskvöldum, nema þeir sem fá að elda og vaska upp eftir okkur.
Félagslífið er reyndar mjög fjölskrúðugt þessa viku. Í dag var okkur í Engjaskóla boðið í smörrebröd á Jómfrúnni, skemmtileg tilbreyting og liður í því að halda uppi góðum starfsanda hjá hópnum. Annað kvöld er okkur svo boðið í fimmtugsafmæli hjá Aðalheiði samkennara okkar. Anna Margrét blæs svo til veislu á laugardagskvöldið en þar ætlum við að hjálpa henni að sættast við það að vera orðin sextug. Það hefur reyndar verið mér léttbærara að vita að ég eldist þegar ég uppgötvaði að ef ég eltist ekki þá væri ég dauð og það vil ég alls ekki því þá myndi ég missa af svo miklu. Ég get ekki hugsað það til enda að allir geti haldið áfram að skemmta sér- án mín! Og Anna mín, þegar sálin í manni er bara nítján þá skiptir engu máli þótt hamurinn eldist. Hver aldur hefur sinn sjarma og þroskað vín er betra en nýtt. Þrjátíu ára gamalt sherry er t.d. alveg sérstaklega gott og yrði líklega ennþá betra ef það fengi að þroskast í önnur 30 ár.
Í næstu viku kemur Dóra heim til að fagna þrítugsafmæli Jóa míns einkasonar og þá höldum við áfram að hafa það skemmtilegt og svo styttist í ferðina til Búdapest með Hafró.
Það er bara ótrúlega gaman að vera til og hafa alltaf eitthvað til að hlakka til. Dagurinn lengist og sólin hækkar á lofti og þótt það rigni, eða snjói, þá er gott að hugsa til þess að alltaf er sólin einhvers staðar á bak við skýin.






No comments: