Wednesday, April 16, 2008

Einkasonurinn þrítugur

Ég er svo stolt af börnunum mínum.
Jói ánægður með uppákomuna og að fá að blása á kertin 30.

Jói og pabbi.


Hann er reyndar ennþá bara 29.


Á laugardaginn lögðum við Snædís og Dóra gildru fyrir Jóa. Hann varð þrítugur þann 14. apríl og var búinn að panta borð fyrir okkur fjölskylduna á Argentínu. Dóra kom heim frá Englandi til að samfagna bróður sínum og fannst að við þyrftum að gera eitthvað aðeins meira úr þessu. Snædís afpantaði því Argentínu og við undirbjuggum partý fyrir hann hérna í Grýtubakkanum. Guðrún var með í ráðum og saman tókst okkur konunum í fjölskyldunni að ljúga að honum í rúman mánuð meðan við undirbjuggum herlegheitin. Guðrún var að vísu komin með mikið samviskubit yfir öllum lygunum og óvíst hvort hann trúir henni nokkkuð framar. Við hinar nutum þess í botn að fá að borga fyrir okkur, því hann hefur átt það til að plata okkur upp úr skónum.
Hingað mættu um 30 manns kl 7 en von var á Keflvíkingunum um hálfátta. Þegar Guðrún hringdi og sagði að það væru 10 mínútur í þau var öllum troðið inn í eitt herbergi. Við fjölskyldan máttum vera frammi sem betur fer. Ég beið svo á svölunum til að gera viðvart en ekki komu þau. Næst komu skilaboð um að þau væru á EGO og síðan í 10-11. Guðrún reyndist vera að tefja tímann til að systir hennar kæmist á undan þeim með börnin en þau voru reyndar löngu komin. Þegar þau loksins komu voru gestirnir nærri kafnaðir inni í herbergi en sem betur fer lifðu allir af. Þegar Jói kom inn þustu allir fram og sungu fyrir hann og það sást greinilega að það hafði tekist að plata hann. Það var síðan glaumur og gleði hérna fram eftir nóttu. Planið var að fara í bæinn um miðnættið en það var svo gaman hérna að það endaði með því að aðeins tvær fóru í bæinn og hlustuðu ekki á gömlu konuna sem reyndi að segja þeim að það væri mesta fásinna.
Kvöldið var sem sagt vel heppnað með ýmsum uppákomum sem ekki verður sagt frá hér en ég get sagt að ég sá nýjar hliðar á syni mínum og var hann hrókur alls fagnaðar. Svo fengum við
óboðinn gest sem ég reyndar hleypti inn og Hermann frændi minn á hrós skilið fyrir að losa okkur við hann á rólegan hátt.
Að lokum vorum við mæðginin tvö eftir, alla vega vakandi, gengum frá og fórum síðan að sofa. Reyndar átti Jói erfitt með svefn því samviskan var að kvelja hann. Hann var nefnilega búinn að boða allt Laugaráss liðið á pöbb niðri í bæ að loknum kvöldverði á Argentínu en tíminn leið hratt við glaum og gleði og aldrei fór hann í bæinn. Ég vona bara að starfsfélagar hans séu búnir að fyrirgefa honum.

No comments: