






Við fórum fjórar samstarfskonur til Akureyrar um helgina. Við sóttum ráðstefnu um samskipti í skólastofunni og í leiðinni efldum við okkar eigin samskipti.
Við flugum norður á föstudag. Anna hafði verið svo forsjál að panta fyrir okkur bílaleigubíl sem beið eftir okkur á flugvellinum. Eftir að hafa rúntað dálítið um bæinn í leit að íbúð og lyklum, komum við okkur fyrir í Furulundinum, fylltum ísskápinn af bráðhollum næringardrykkjum og síðan drifum við okkur á Greifann. Eftir ábendingu frá frænku minni um hvað væri best á matseðlinum, pöntuðum við Gerður okkur saltfiskpizzu sem reyndist hið mesta hnossgæti og verður lengi í minnum höfð. Við vorum svo heppnar að Jón Ingi, maður Dagnýjar, var líka á staðnum og þess vegna þurfti engin okkar að fórna sér í akstur. Eftir kvöldverð fórum við heim, fengum okkur næringardrykk og spjölluðum fram á nótt.
Við vöknuðum snemma á laugardagsmorgun til að fara í biðröð í sturtuna og vorum fyrstar til að mæta í Brekkuskóla á ráðstefnuna. Hún var vel skipulögð og þar var margt áhugavert á dagskrá. Við skiptum okkur niður á málstofurnar til að fá sem mest út úr þessu. Ég valdi mér málstofu sem bar yfirskriftina ¨Erum við að ala upp villibörn?¨. Þar kynntu tvær konur skemmtilegt starf á leikskóla einum þar sem mikið er lagt upp úr snertingu. Börnin eru nudduð, látin nudda hvert annað og fara í fótabað. Titill málstofunnar var skemmtilegur. Hvers vegna er svo mikill munur á húsketti og villiketti? Gæti hann falist í því að húskettinum er strokið reglulega og hann kjassaður en villikötturinn fær aldrei að komast í kynni við slíkt? Einu sinni í mánuði er sérstakur dekurdagur en þá er útbúið sérstkt svæði þar sem eru dýnur, dempuð ljós og lág tónlist og þegar börnin vilja koma þau og skella sér á dýnu og fá olíunudd og slaka á. Síðan halda þau bara áfram að leika sér. Rannsóknir sýna að börn sem fá slíka meðhöndlun sýna töluvert betri námsárangur eru með meira sjálfstraust og öruggari með sig. Ég hef einu sinni gert eitthvað líkt þessu í kennslu í Varmárskóla en þá var ég með 7 ára bekk og í lok hvers dags lét ég helming barnanna setjast á bekk og hinn helminginn á gólfið fyrir framan þau og síðan gáfu þau hvert öðru axlanudd áður en þau fóru heim. Mér fannst þetta gera mikið fyrir bekkjarandann og samskiptin þeirra á milli.
Í hádeginu skruppum við í göngugötuna og þar hjálpuðu þessar góðu samstarfskonur mínar mér að finna árshátíðarkjól og jakka fyrir Búdapestferðina og voru ekki lengi að því. Að því loknu skunduðum við á ráðstefnuna og henni var svo lokið um kl 4. Þá tók við slökun, ég keyrði hinar þrjár í sund en hafði því miður ekki haft hugsun á að taka mín sundföt með svo ég fór bara á rúntinn inn í Jólahús til að kaupa mér jólaskraut og skoða hinn fjallmyndarlega jólasvein sem þar ræður ríkjum. Ég fór líka yfir í Vaðlaheiðina til að sjá bæinn frá því sjónarhorni og reyndi í leiðinni að finna húsið hans Jóa í Bónus en tókst það auðvitað ekki enda vissi ég ekkert að hverju ég var að leita. Eftir það fór ég heim og slappaði af þar til ég kallið kom frá sundlauginni. Um kvöldið ákváðum að borða á Strikinu sem er uppi á 5. hæð með flottu útsýni yfir Pollinn. Þar var okkur ¨skvísað¨inn fyrir náð og miskunn. Ég ákvað að vera áfram í því að panta eitthvað framandi (við máttum ekki panta neitt flókið vegna þess að fengum afmarkaðan tíma til að vera þarna inni) og skellti mér á pizzu með nautakjöti, frönskum og bernaise sósu!!! Hún verður mér líka minnisstæð líkt og saltfiskpizzan en með öfugum formerkjum því þetta er líklega versti matur sem ég hef pantað mér á veitingastað en ég mun alla vega komast í árshátíðarkjólinn hennar vegna.
Eftir þessi ósköp keyrðum við heim, kláruðum næringardrykkina, kjöftuðum fram á nótt og fórum svo að sofa. Okkur datt ekki einu sinni í hug að kíkja á næturlíf staðarins. Reyndar var það nokkuð líflegt á svölunum fyrir utan svefnherbergisgluggana okkar en við létum það ekki á okkur fá. Á sunnudagsmorgun fóru Anna og Dagný í sund og við Gerður gengum frá enda ekki nema sjálfsagt þar sem hinar tvær sáu algjörlega um að skipuleggja þessa ferð okkar norður.
Síðan fórum við í Bakaríið við brúna og fengum okkur morgunmat. Dagný fór svo í heimsókn til vinkonu sinnar en við hinar fórum í ¨Mollið¨. Þar tókst okkur að eyða smávegis af peningum í skó og gjafir. Að því loknu heimsóttum við hana Kötu sem einu sinni var að vinna í Varmárskóla en hún býr í gullfallegu raðhúsi með útsýni til Vaðlaheiðarinnar.
Eftir að hafa endurheimt Dagnýju skoðuðum við Sigurhæðir og Nonnahús, reyndar bara að utan og svo var kominn tími til að fljúga aftur suður yfir heiðar.
Veðrið lék við okkur allan tímann, sólskin og logn og frekar hlýtt en nógur snjór allt um kring og skaflar hér og þar. En það var vor í lofti og augljóst að vetur konungur er að búa sig til heimferðar og sumardrottningin er að taka völdin.