Monday, April 21, 2008

Vor í lofti á Akureyri

Anna og Dagný á Akureyrarflugvelli.
Næringardrykkirnir okkar.

Og alltaf koma sumarbústaðanáttfötin að góðum notum.

Var virkilega svona leiðinlegt að bíða eftir okkur?

Í lyftunni á leiðinni upp á Strikið.

Útsýnið yfir Pollinn og nýja menningarhúsið.

Sigurhæðir og flott tískusýning.

Við fórum fjórar samstarfskonur til Akureyrar um helgina. Við sóttum ráðstefnu um samskipti í skólastofunni og í leiðinni efldum við okkar eigin samskipti.
Við flugum norður á föstudag. Anna hafði verið svo forsjál að panta fyrir okkur bílaleigubíl sem beið eftir okkur á flugvellinum. Eftir að hafa rúntað dálítið um bæinn í leit að íbúð og lyklum, komum við okkur fyrir í Furulundinum, fylltum ísskápinn af bráðhollum næringardrykkjum og síðan drifum við okkur á Greifann. Eftir ábendingu frá frænku minni um hvað væri best á matseðlinum, pöntuðum við Gerður okkur saltfiskpizzu sem reyndist hið mesta hnossgæti og verður lengi í minnum höfð. Við vorum svo heppnar að Jón Ingi, maður Dagnýjar, var líka á staðnum og þess vegna þurfti engin okkar að fórna sér í akstur. Eftir kvöldverð fórum við heim, fengum okkur næringardrykk og spjölluðum fram á nótt.
Við vöknuðum snemma á laugardagsmorgun til að fara í biðröð í sturtuna og vorum fyrstar til að mæta í Brekkuskóla á ráðstefnuna. Hún var vel skipulögð og þar var margt áhugavert á dagskrá. Við skiptum okkur niður á málstofurnar til að fá sem mest út úr þessu. Ég valdi mér málstofu sem bar yfirskriftina ¨Erum við að ala upp villibörn?¨. Þar kynntu tvær konur skemmtilegt starf á leikskóla einum þar sem mikið er lagt upp úr snertingu. Börnin eru nudduð, látin nudda hvert annað og fara í fótabað. Titill málstofunnar var skemmtilegur. Hvers vegna er svo mikill munur á húsketti og villiketti? Gæti hann falist í því að húskettinum er strokið reglulega og hann kjassaður en villikötturinn fær aldrei að komast í kynni við slíkt? Einu sinni í mánuði er sérstakur dekurdagur en þá er útbúið sérstkt svæði þar sem eru dýnur, dempuð ljós og lág tónlist og þegar börnin vilja koma þau og skella sér á dýnu og fá olíunudd og slaka á. Síðan halda þau bara áfram að leika sér. Rannsóknir sýna að börn sem fá slíka meðhöndlun sýna töluvert betri námsárangur eru með meira sjálfstraust og öruggari með sig. Ég hef einu sinni gert eitthvað líkt þessu í kennslu í Varmárskóla en þá var ég með 7 ára bekk og í lok hvers dags lét ég helming barnanna setjast á bekk og hinn helminginn á gólfið fyrir framan þau og síðan gáfu þau hvert öðru axlanudd áður en þau fóru heim. Mér fannst þetta gera mikið fyrir bekkjarandann og samskiptin þeirra á milli.
Í hádeginu skruppum við í göngugötuna og þar hjálpuðu þessar góðu samstarfskonur mínar mér að finna árshátíðarkjól og jakka fyrir Búdapestferðina og voru ekki lengi að því. Að því loknu skunduðum við á ráðstefnuna og henni var svo lokið um kl 4. Þá tók við slökun, ég keyrði hinar þrjár í sund en hafði því miður ekki haft hugsun á að taka mín sundföt með svo ég fór bara á rúntinn inn í Jólahús til að kaupa mér jólaskraut og skoða hinn fjallmyndarlega jólasvein sem þar ræður ríkjum. Ég fór líka yfir í Vaðlaheiðina til að sjá bæinn frá því sjónarhorni og reyndi í leiðinni að finna húsið hans Jóa í Bónus en tókst það auðvitað ekki enda vissi ég ekkert að hverju ég var að leita. Eftir það fór ég heim og slappaði af þar til ég kallið kom frá sundlauginni. Um kvöldið ákváðum að borða á Strikinu sem er uppi á 5. hæð með flottu útsýni yfir Pollinn. Þar var okkur ¨skvísað¨inn fyrir náð og miskunn. Ég ákvað að vera áfram í því að panta eitthvað framandi (við máttum ekki panta neitt flókið vegna þess að fengum afmarkaðan tíma til að vera þarna inni) og skellti mér á pizzu með nautakjöti, frönskum og bernaise sósu!!! Hún verður mér líka minnisstæð líkt og saltfiskpizzan en með öfugum formerkjum því þetta er líklega versti matur sem ég hef pantað mér á veitingastað en ég mun alla vega komast í árshátíðarkjólinn hennar vegna.
Eftir þessi ósköp keyrðum við heim, kláruðum næringardrykkina, kjöftuðum fram á nótt og fórum svo að sofa. Okkur datt ekki einu sinni í hug að kíkja á næturlíf staðarins. Reyndar var það nokkuð líflegt á svölunum fyrir utan svefnherbergisgluggana okkar en við létum það ekki á okkur fá. Á sunnudagsmorgun fóru Anna og Dagný í sund og við Gerður gengum frá enda ekki nema sjálfsagt þar sem hinar tvær sáu algjörlega um að skipuleggja þessa ferð okkar norður.
Síðan fórum við í Bakaríið við brúna og fengum okkur morgunmat. Dagný fór svo í heimsókn til vinkonu sinnar en við hinar fórum í ¨Mollið¨. Þar tókst okkur að eyða smávegis af peningum í skó og gjafir. Að því loknu heimsóttum við hana Kötu sem einu sinni var að vinna í Varmárskóla en hún býr í gullfallegu raðhúsi með útsýni til Vaðlaheiðarinnar.
Eftir að hafa endurheimt Dagnýju skoðuðum við Sigurhæðir og Nonnahús, reyndar bara að utan og svo var kominn tími til að fljúga aftur suður yfir heiðar.
Veðrið lék við okkur allan tímann, sólskin og logn og frekar hlýtt en nógur snjór allt um kring og skaflar hér og þar. En það var vor í lofti og augljóst að vetur konungur er að búa sig til heimferðar og sumardrottningin er að taka völdin.

Wednesday, April 16, 2008

Einkasonurinn þrítugur

Ég er svo stolt af börnunum mínum.
Jói ánægður með uppákomuna og að fá að blása á kertin 30.

Jói og pabbi.


Hann er reyndar ennþá bara 29.


Á laugardaginn lögðum við Snædís og Dóra gildru fyrir Jóa. Hann varð þrítugur þann 14. apríl og var búinn að panta borð fyrir okkur fjölskylduna á Argentínu. Dóra kom heim frá Englandi til að samfagna bróður sínum og fannst að við þyrftum að gera eitthvað aðeins meira úr þessu. Snædís afpantaði því Argentínu og við undirbjuggum partý fyrir hann hérna í Grýtubakkanum. Guðrún var með í ráðum og saman tókst okkur konunum í fjölskyldunni að ljúga að honum í rúman mánuð meðan við undirbjuggum herlegheitin. Guðrún var að vísu komin með mikið samviskubit yfir öllum lygunum og óvíst hvort hann trúir henni nokkkuð framar. Við hinar nutum þess í botn að fá að borga fyrir okkur, því hann hefur átt það til að plata okkur upp úr skónum.
Hingað mættu um 30 manns kl 7 en von var á Keflvíkingunum um hálfátta. Þegar Guðrún hringdi og sagði að það væru 10 mínútur í þau var öllum troðið inn í eitt herbergi. Við fjölskyldan máttum vera frammi sem betur fer. Ég beið svo á svölunum til að gera viðvart en ekki komu þau. Næst komu skilaboð um að þau væru á EGO og síðan í 10-11. Guðrún reyndist vera að tefja tímann til að systir hennar kæmist á undan þeim með börnin en þau voru reyndar löngu komin. Þegar þau loksins komu voru gestirnir nærri kafnaðir inni í herbergi en sem betur fer lifðu allir af. Þegar Jói kom inn þustu allir fram og sungu fyrir hann og það sást greinilega að það hafði tekist að plata hann. Það var síðan glaumur og gleði hérna fram eftir nóttu. Planið var að fara í bæinn um miðnættið en það var svo gaman hérna að það endaði með því að aðeins tvær fóru í bæinn og hlustuðu ekki á gömlu konuna sem reyndi að segja þeim að það væri mesta fásinna.
Kvöldið var sem sagt vel heppnað með ýmsum uppákomum sem ekki verður sagt frá hér en ég get sagt að ég sá nýjar hliðar á syni mínum og var hann hrókur alls fagnaðar. Svo fengum við
óboðinn gest sem ég reyndar hleypti inn og Hermann frændi minn á hrós skilið fyrir að losa okkur við hann á rólegan hátt.
Að lokum vorum við mæðginin tvö eftir, alla vega vakandi, gengum frá og fórum síðan að sofa. Reyndar átti Jói erfitt með svefn því samviskan var að kvelja hann. Hann var nefnilega búinn að boða allt Laugaráss liðið á pöbb niðri í bæ að loknum kvöldverði á Argentínu en tíminn leið hratt við glaum og gleði og aldrei fór hann í bæinn. Ég vona bara að starfsfélagar hans séu búnir að fyrirgefa honum.

Monday, April 7, 2008

Afmæli á Elliðavatni

Erum við ekki sæt?
Bjössi var mömmu sinni til halds og trausts. Held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég sé hana svartklædda. Vonandi hefur það ekkert með aldurinn að gera.

Anna hélt fína ræðu eins og henni er einni lagið.



Anna var ánægð með nöfnu sína.



Gurrý, Marta og Anna Eym hita upp.



Garðar, Sigga og Auður hlusta á afmælisbarnið með andakt.


Það var nóg að gera um helgina. Á föstudaginn fór ég í fimmtugsafmæli Aðalheiðar samkennara míns í Engjaskóla. Þar var líf og fjör og margt um manninnn. Ég fór reyndar fyrst heim sem er frekar nýtt fyrir mér en ég þorði ekki annað þar sem ég þurfti að eiga einhverja orku eftir fyrir sextugsafmæli Önnu Margrétar sem var á laugardagskvöldið.
Anna hélt upp á tímamótin í gamla Elliðavatnsbænum sem er stórskemmtilegur staður og útsýnið yndislegt. Við tókum sem betur fer Önnu og Þórarin með okkur því annars hefðum við sennilega aldrei fundið staðinn, sést að ég les aldrei leiðbeiningar. Þetta var alveg stórskemmtilegt kvöld og ekki annað að sjá en Anna væri búin að sætta sig við þessi tímamót og þarna var vel veitt í mat og drykk. Það var mjög gaman að hitta gamla samkennara úr Varmárskóla sem ég hafði ekki hitt lengi og var þetta dálítið ¨flashback¨ um stund. Ekki laust við að ég héldi á tímabili að ég hefði skroppið nokkur ár aftur í tímann og þar með yngst um leið. En ég fann á sunnudeginum að það hafði verið tóm ímyndun og ég hrökklaðist aftur inn á það tímaskeið sem ég er víst á. Það tekur sinn toll að fagna og vaka og ég verð víst að sætta mig við það. En ég sé alltaf betur og betur hvað það er gaman að eldast og þroskast og hver aldur hefur sinn sérstaka sjarma. Þetta með þroskann er samt stundum dálítið vafasamt en vonandi kemur hann með hækkandi aldri.
Dóra kemur heim á miðvikudaginn til að samfagna bróður sínum sem er við það að skríða yfir á fertugsaldurinn og við ætlum að gera eitthvað skemmtilegt um næstu helgi svo hann sætti sig betur við það. Sem sagt nóg að gera í að fagna tímamótum.








Thursday, April 3, 2008

Spilaklúbbur og árbítur

Er það ekki örugglega á hreinu að ég er ennþá 59?
Þórarinn, Anna og Guðrún Sig að hlusta á eitthvað mjög merkilegt.

Anna Margrét (ennþá 59) Guðni, Brandur og Ninna.


Spilað í Litlakrika. Miskátar á svip, sést líklega hverjar eru að vinna.








Heim á Fróni



Fræg stytta í Frognerparken í Ósló en man ekki nafnið á henni en sá litli er illa reiður.

Við fórum í göngutúr og ég komst aftur upp-við illan leik.


Svona leit út í Gansvika þegar við lögðum af stað heim.

Daginn fyrir heimför fór að snjóa og snjóa og snjóa. Ég var farin að halda að við kæmumst ekki heim en Ómar kom okkur út á flugvöll á sínum norska fjallabíl. Hef einu sinni áður stigið í útlenskan snjó og það var líka í Noregi þegar ég fór í sjúkrahúsferðina forðum rétt fyrir jól árið 1989, minnir mig. Og heim komumst við, ég vel útsofin og ánægð með að rétt finna fyrir því þegar vélin tekur sig á loft og vakna svo bara þegar hún lendir. Tekur orðið enga stund að skreppa milli landa.
Síðan tók vinnan við hjá mér og heimilisstörfin hjá Brandi. Spilaklúbburinn hittist kvöldið eftir og ég var næstum því búin að vinna, með smásvindli, en varð að láta í minni pokann, Verst hvað ég er orðin tapsár.
Á föstudaginn var brunað í Skorradal til að sjá hvort kotið væri uppistandandi eftir veturinn. Allt var í fínu lagi, engar mýs og dalurinn alltaf jafnfallegur. Við héldum áfram að slaka á, alla vega ég, og á sunnudagsmorgun var aftur brunað í bæinn og nú í brunch hjá Önnu Eym og Þórarni. Þar sátum við fram eftir degi, nógur matur og drykkur og mikið spjallað og hlegið. Við vorum eiginlega búin að ákveða að það væri fínt að búa til nýjan klúbb og hittast áfram síðasta sunnudag í hverjum mánuði og leyfa köllunum okkar að vera með þar sem þeir missa nú alltaf af okkar frábæru spilaklúbbskvöldum, nema þeir sem fá að elda og vaska upp eftir okkur.
Félagslífið er reyndar mjög fjölskrúðugt þessa viku. Í dag var okkur í Engjaskóla boðið í smörrebröd á Jómfrúnni, skemmtileg tilbreyting og liður í því að halda uppi góðum starfsanda hjá hópnum. Annað kvöld er okkur svo boðið í fimmtugsafmæli hjá Aðalheiði samkennara okkar. Anna Margrét blæs svo til veislu á laugardagskvöldið en þar ætlum við að hjálpa henni að sættast við það að vera orðin sextug. Það hefur reyndar verið mér léttbærara að vita að ég eldist þegar ég uppgötvaði að ef ég eltist ekki þá væri ég dauð og það vil ég alls ekki því þá myndi ég missa af svo miklu. Ég get ekki hugsað það til enda að allir geti haldið áfram að skemmta sér- án mín! Og Anna mín, þegar sálin í manni er bara nítján þá skiptir engu máli þótt hamurinn eldist. Hver aldur hefur sinn sjarma og þroskað vín er betra en nýtt. Þrjátíu ára gamalt sherry er t.d. alveg sérstaklega gott og yrði líklega ennþá betra ef það fengi að þroskast í önnur 30 ár.
Í næstu viku kemur Dóra heim til að fagna þrítugsafmæli Jóa míns einkasonar og þá höldum við áfram að hafa það skemmtilegt og svo styttist í ferðina til Búdapest með Hafró.
Það er bara ótrúlega gaman að vera til og hafa alltaf eitthvað til að hlakka til. Dagurinn lengist og sólin hækkar á lofti og þótt það rigni, eða snjói, þá er gott að hugsa til þess að alltaf er sólin einhvers staðar á bak við skýin.