Monday, February 25, 2008

Góður sunnudagur

Jói minn og konudagsblómin frá Brandi.
Smásýnishorn af töskum frá Dagönn.

Jökull glaður með súkkulaðiköku frá mömmu.

Og Stella spáði fyrir okkur í bolla. Sá lítinn unga í bollanum mínum.


Feðginin eru ansi lík.

Við fengum góða gesti í mat á laugardagskvöldið. Stella, Haddi og Maggý komu og borðuðu með okkur lambalæri og á eftir var Eurovisionpartý. Við höfðum misjafnar skoðanir á lögunum eins og gengur en við hjónakornin vorum sammála um að kjósa Baggalút með sína íslensku sveitasveiflu. Við erum reyndar alltaf sammála um allt sem ég vil. Þjóðin var nú ekki alveg sammála okkur og valdi This is my life með Eurobandinu og Friðrik Ómar tók við verðlaunum með föstu skoti sem dugði vel til að fylla vel upp í bæði Ísland í dag og Kastljósið í kvöld. Friðrik Ómar var ekki sáttur við ummæli áhangenda Mercedes Club um sig og fjölskyldumeðlimi sína sem kannski er ekki skrýtið. Svona er Ísland í dag, sjálfsagt að nota frelsið til að níða niður náungann eins og ekkert sé og bara vælukjóar sem mótmæla því. Reyndar fengu hinir íturvöxnu meðlimir Mercedes Club ýmislegt á sig líka en tóku því eins og sönnum vaxtaræktartröllum sæmir. Ef útlitið er í lagi (ekki samt alveg fyrir minn smekk) þá skiptir litlu máli hvort fólk geti sungið í dag.
Eftir að hafa keyrt Brand um borð á sunnudeginum kom Jökull Máni í pössun til ömmu og við fórum ásamt Snædísi á körfuboltaleik þar sem Snæfell náði í sinn fyrsta bikar, held ég, og malaði Fjölni. Það var virkilega gaman en ég var eiginlega hætt að þora á leiki með þeim vegna þess að þeir töpuðu alltaf þegar ég mætti. En nú er ég búin að sanna það að það er ekki mér að kenna því ég er búin að fara á tvo sigurleiki í röð. Eftir leik fórum við Jökull í súpu til Maggýjar en hún bauð Snæfellsliðinu ásamt fylgdarliði í súpu fyrir leik. Einn leikmanna sagði í Fréttablaðinu í dag að það væri henni að þakka að þeir hefðu unnð svona glæstan sigur. Góð undirstaða og upphiun.
Kvöldinu eyddum við svo Jökull í rólegheitum en það var dálitið syfjaður strákur sem fór með pabba sínum seint um kvöldið.
Í dag var svo vinnan og dálitið upprifnir nemendur eins og þeir eru oft eftir helgar og kannski við líka. Það er alltaf nóg að gera og engin hætta á að maður sitji aðgerðalaus sem væri auðvitað hið versta mál ef maður hefði ekkert að gera. Þá væri eins gott að setja bara tærnar upp í loft.

Saturday, February 23, 2008

Helgarfrí

Svava Stefanía og Atli Örn, Sillu og Sævarsbörn á frjálsíþróttamóti í Reykjavík um daginn. Um síðustu helgi kom hún aftur með pabba sínum og stóð sig með prýði. Ester kom líka með Ástrósu sem varð Íslandsmeistari í innanhússfótbolta. Þetta er mikið íþróttafólk.

Þessi vika hefur verið frekar viðburðalítil. Brandur kom reyndar aftur heim á þriðjudaginn og fer aftur að leita að loðnu á morgun, sunnudag. Þetta er svona ¨hideandseek¨ leikur sýnist mér. Hvort verður það loðnan eða fiskifræðingarnir sem vinna leikinn.
Ég fór með Maggý í Stykkishólm á sunnudaginn á æsispennandi leik Snæfells og Skallagríms. Snæfell var yfir allan leikinn en spennan var mikil í lokin þar sem munurinn var lítill. En Magni og félagar höfðu það við litlar vinsældir fjallmyndarlegs þjálfara Skallagríms sem lét dómarana fá það óþvegið í lokin.
Við keyrðum síðan heim í svartaþoku og myrkri og ég fann að ég er orðin ansi óvön að keyra við þessi skilyrði og var orðin ansi þreytt þegar ég kom heim. Svona er að vera orðin svona mikið blessað borgarbarn. Dreifbýlistaktarnir alveg að hverfa ,því miður, þori varla upp í Mosfellsbæ ef það snjóar pínulítið.
Svo var bara að takast á við vinnuna og blessaða skjólstæðingana sem láta hafa misjafnlega mikið fyrir sér. Mannekla og tímaskortur að hrjá alla en það verður nú mikil guðsblessun að fá svona mikla peninga næstu 3 mánuði til að sætta sig við álagið sem fylgir því að sitja eftir á hugsjóninni einni saman þegar hinir yngri leita á ný mið. Eða er ég orðin of gömulog kjarklaus til að þora að skipta um starfsvettvang?
Reyndar hef ég ekki enn fundið það starf sem ég vildi heldur sinna, sem betur fer finn ég mig enn í starfinu þótt dagamunur sé á starfsgleðinni. Finnst reyndar að það sé orðinn landlægur sjúkdómur að vera í kvörtunardeildinni alla daga yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Ég held að mörgum þætti það lítilfjörlegt sem við höfum að kvarta yfir og flest er það sjálfskapað.
Ríkur maður er ekki endilega sá sem á mikið, heldur sá sem þráir minna, las ég einhvers staðar og held að það sé mikið til í því. Eigum við ekki alveg nóg af drasli þótt við þurfum ekki alltaf að vera að bæta við til að gleðja sálina? Sú gleði endist yfirleitt svo stutt hvort sem er.
Best ég hætti núna áður en ég verð orðin eins og Össur. Læt honum eftir borgarstjórnarbloggið þótt ég eigi erfitt með að skilja af hverju þetta fólk getur ekki bara unnið saman eins og fólk og eytt skattpeningunum okkar í eitthvað annað en að skipta um meirihluta á nokkurra daga fresti.
Getum við ekki bara kosið fók eins og í sveitinni í gamla daga og hætt að hafa þessa blessaða stjórnmálaflokka til að flækja málin? Og hana nú.

Saturday, February 16, 2008

Vetrarfrí

Svona hafði ég það í bústaðnum.
Og Brandur las öll blöðin.

Gott að hafa fast land undir fótum.


Ég er í vetrarfríi eða var það réttara sagt í gær og í fyrradag. Þar sem svo vel hittist á að Brandur kom í land á fimmtudagskvöld þá bauð ég honum í bústað að Signýjarstöðum í Hálsasveit. Þar ætluðum við að slaka á þar til á sunnudag en um það bil þegar Árni Friðriksson var að leggjast að bryggju kom kall frá stjórnendum Hafró og áhöfninni sagt að þeir ættu að fara út aftur á laugardagsmorgun til að leita að síðustu loðnunni sem vonandi svamlar enn í einhvers staðar.
Við ákváðum samt að drífa okkur í sveitina og nýta þann tíma sem gæfist. Á leiðinni var rigning og á köflum blindaþoka, svo mikil að á Esjumelum var ég allt í einu komin yfir á öfugan vegarhelming en sem betur fer var aðstoðarflugstjórinn vakandi og gat bent mér á að ég væri að fara villur vega áður en skaði hlaust af.
Þegar við komum í Hálsasveit var auðvitað allt í svartamyrkri og það tók smástund að finna bústaðinn þrátt fyrir að ég væri búin að vera þarna í haust með Maggý. En það tókst og við drógum andann djúpt í kyrrðinni. Í gær fórum við í bíltúr upp í Húsafell til að skoða bústað sem Brandur hafði séð auglýstan en hann langar allt í einu að geta komið fjölskyldunni fyrir í bústaðnum sem er frekar erfitt í Skógarbæ nema þegar vel viðrar. Ég vildi endilega keyra þar sem ég tel mig vera vanari ökumann en varð að játa mig sigraða þegar ég var búin að festa slyddujeppann í skaflinum fyrir framan bústaðinn. Þá var bara að draga skóflur úr úr geymslunni og moka og þar með tók hann við akstrinum og stóð sig ólíkt betur. Ég verð því að bíta í það súra epli að vera ekki jafngóður bílstjóri og ég taldi mig vera.
Við fundum bústaðinn í Húsafelli og hann leit þokkalega út en ekki veit ég hvort ég leyfi frekari aðgerðir, finnst alveg ágætt að vera í kotinu í Skorradal og á bílastæðinu þar er ágætis Gullvagn sem gestir geta fengið að gista í, meira að segja frítt!!
En nú er ég sem sagt komin heim aftur, skilaði Brandi um borð fyrir kl 9 og verð að finna mér eitthvað til dundurs það sem eftir lifir helgar. Ester og Ástrós eru í bænum og ætla að gista í nótt en Örvar er farinn norður. Kannski ég dragi bara fram púslið sem ég keypti um daginn til að dunda mér við þegar ég fæ leið á prjónaskapnum.

Sunday, February 10, 2008

Árshátíð í Gullhömrum

Viktoría Rós Jóhannsdóttir.

Þetta er búin að vera góð helgi. Ég fór á árshátíð Engjaskóla í Gullhömrum á föstudagskvöldið. Þetta var reyndar 600 manna árshátíð fjölmargra skóla í Reykjavík og það bætast sífellt fleiri við svo þetta endar sennilega í Egilshöll með tímanum. Veðrið var ekki mjög hátíðlegt, brjálað rok og rigning, svo hárgreiðslur voru algjör tímaeyðsla. En við erum sannir Íslendingar sem látum ekki veður aftra okkur frá því að skemmta okkur. Þetta var bráðskemmtilegt og mikið dansað. Ég fann reyndar fyrir því á laugardeginum að líkaminn er farinn að eldast þótt andinn sé ennþá nítján, þvílíkar harðsperrur eftir allt tvistið.
Laugardagurinn fór því í bóklestur og hvíld eftir átökin en ég er búin að vera dugleg í dag að þrífa og taka til og lesa svolítið. Brandur er á heimleið og verður vonandi kominn heim á fimmtudag og getur eytt með mér vetrarfríinu mínu sem er á fimmtudag og föstudag. Ég held að það verði farið að vora þá, spáir rigningu og ég er alveg til í að það fari að hlýna aðeins og hætti að snjóa. En það er best að lifa fyrir líðandi stund og líta björtum augum á tilveruna og eyða ekki orku í kvart og kvein. Það er hvort eð er svo lítilfjörlegt sem við höfum til að kvarta yfir miðað við það sem við sjáum í fréttatímum utan úr heimi. Gott að hafa í huga einkunnarorðin hans Jóhanns Inga sálfræðings, HLH, hugsun, líðan, hegðun. Ef hugurinn er jákvæður þá líður okkur vel og við hegðum okkur betur. Ætla að reyna að muna það á morgun.

Sunday, February 3, 2008

Bolludagur á morgun.

Kara Björk með nýjasta listaverkið sitt.

Ég hef gefið blogginu frí ansi lengi, ekki þar með sagt að ekkert hafi verið um að vera en í augnablikinu er alzheimerinn á svo háu stigi að ég man eiginlega ekkert hvað ég hef verið að gera undanfarnar vikur. Síðasta vika var þó nokkuð annasöm, passaði Jökul um síðustu helgi og hjálpaði svo Önnu Eym smávegis við flutninga. Það er gott að fá að hjálpa fólki öðru hverju að flytja því þá verð ég staðfastari í að vera áfram á mínum stað. Nú er ég búin að vera hér í Grýtubakkanum í rúm 5 ár og er því að toppa þá tímalengd sem ég hef verið á hverjum stað eftir tvítugt. Dóra sagði einhvern tíma að við hefðum flutt svo ört að hún hefði aldrei náð að festa rætur neins staðar. Ég minnti hana á að það væri aðeins jurtir sem hefðu rætur og það gerði mann bara víðsýnni að breyta til öðru hverju. Hún hefur tekið þá áminningu alvarlega og elur sín börn upp í víðsýni og aðlögunarhæfni, lætur ekki landið duga heldur fer á milli heimsálfa, blessunin.
Ég finn núna að aðlögunarhæfnin hjá mér fer minnkandi, ekkert spennandi að skipta um íverustað né vinnustað, stekk ekki lengur til þegar eitthvað annað býðst. Kannski líka oðrin of gömul til að bjóðast eitthvað spennandi, enda orðin hálfsextug og ætti að vera farin að róast. Ég átti sem sagt afmæli í vikunni og fékk góða gesti og góðar gjafir sem ég var samt að reyna að afþakka þar sem ég ætti nú þegar of mikið af öllu. En það hlýjar gömlu hjarta að finna að maður á góða fjölskyldu og vini sem sýna manni artarsemi og hlýhug.
Ég fékk svo að hafa barnabörnin um helgina, veit reyndar ekki hvort mér verður treyst fyrir þeim aftur þar sem ég sofnaði ansi fast við að svæfa þann litla og vaknaði kl sex í morgun í öllum fötum og dömurnar tvær höfðu því fengið að passa sig sjálfar allt kvöldið. En það slapp fyrir horn og allir í góðu lagi.
Í dag var það bollubakstur því allt í einu er bara kominn bolludagur og ég sem var bara rétt að enda jólin. Mér finnst tíminn líða orðið einum of hratt að mínu mati, verð örugglega orðin 100 ára áður en ég veit af. Eins og konan sagði, mér finnst ég bara alltaf vera að vakna.
Veðrið hefur verið stillt og gott síðustu daga, mikið frost, 12 – 15° en sólríkt og logn.
Nú er farið að hlýna aftur og þá byrja sennilega umhleypingarnir aftur. En dagurinn er orðinn lengri, ennþá bjart og klukkan að verða 6 svo það hlýtur að fara að birta í sálinni líka. Brandur fór út á sjó á föstudaginn eftir að hafa verið í landi síðan í byrjun desember og nú verð ég bara að sjá um mig sjálf næstu vikurnar, enginn morgunmatur og verð að skafa sjálf. Það er samt sennilega hollt fyrir mig að rifja það upp öðru hverju svo ég haldi ekki að ég sé einhver prinsessa á bauninni.
Ný vinnuvika framundan, bolludagur, sprengidagur, öskudagur og árshátíð á föstudaginn og nóg að hlakka til. Upp með góða skapið.