Sunday, October 28, 2007

Vetur genginn í garð

Vikan hefur verið frekar viðburðasnauð svo lítið er til að skrifa.
Ég fór í spilaklúbb til Önnu Margrétar á miðvikudagskvöldið og vann fyrri rúbertuna, aldrei þessu vant. Það gerist ekki oft svo það var frekar ánægjulegt enda með afbrigðum tapsár manneskja. Á fimmtudagskvöldið var töskukynning hjá Maggý en hún og Dagný hafa verið að hanna og sauma töskur undanfarið til að fjármagna ferð til Oxford. Þær eru ansi sniðugar að nýta gamla hluti, en það er einmitt það flottasta í dag. Miklir alþýðulistamenn þar á ferð. Ég aftur á móti sit og prjóna sokka á barnabörnin en spurning hvort þau fara einhvern tímann í þá. En það er alla vega gott fyrir sálina að hafa eitthvað fyrir stafni og sjá eitthvað áþreifanlegt eftir daginn. Afrakstur heimilisverkanna sér nefnilega enginn nema þegar þeim er sleppt.
Ég fékk að hafa Jökul Mána hjá mér um helgina þar sem foreldrarnir voru í brúðkaupsafmæli. Honum leiddist ekki meira en það að hann vildi ekki fara heim í dag en ég varð nú samt að skila honum.
Við fengum okkur góðan göngutúr í morgun upp í Efra-Breiðholt til Maggýjar en þá var hún ekki heima svo við urðum bara að rölta heim aftur. Hann fékk samt að sjá hundinn Kandís sem er mjög smágerður en honum leist ekkert á hann, vildi bara fá að sjá stóran hund. Veðrið er búið að vera mjög bjart og fallegt í dag, sólskin og smáhéla yfir öllu. Gott eftir alla rigninguna undanfarið en samt er ég alltaf dálítið óstyrk þegar ég legg út í fyrstu hálku vetrarins. Það var auðvitað fyrsti vetrardagur í gær svo veturinn heilsaði á viðeigandi hátt.
Nú get ég farið að hlakka til Berlínarferðar og vonandi verður ekki Vetur konungur orðinn svo alls ráðandi að við verðum að fara með kuldagallana með okkur en þá verða það bara lopapeysurnar sem fá að fara með í staðinn fyrir stuttbuxurnar.

1 comment:

frugalin said...

Gaman að sjá að það eru fleiri að blogga. Nú erum við 5 í skólanum að blogga, ég, Guðný, Elín, Ástríður og þú.
Frábært, þú ferð á listann minn sem ég skoða daglega.